BJARNI OG DRÍFA

Birtist í DV 17.03.15.
DV - LÓGÓ

Ólíkt hafast þau að fjármálaráðherrann og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. DV greindi nýlega frá því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, væri með á döfinni breytingu á lögum sem fæli í sér afnám á launaþaki á forstjóra ríkisstofnana.
Í fréttum hefur jafnframt komið fram að Starfsgreinasambandið, sem eru samtök láglaunafólks í framleiðslugreinum og ýmsum lykilstofnunum velferðarþjónustunnar, undirbúi nú verkfallsaðgerðir. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsinbs, Drífa Snædal, hefur skýrt  frá því í fjölmiðlum hvers vegna kjaradeilan er að þróast í átakafarveg gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Það sé vegna þess að atvinnurekendur vísi algerlega á bug kröfum sambandsins um að innan þriggja ára verði lægstu laun eigi lægri en 300 þúsund krónur.

Veruleiki Bjarna

Greinilegt er að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur komist við þegar á hans fund hafa gengið forstjórar og forstöðumenn opinberra stofnana og fyrirtækja sem breytt hefur verið í opinber hlutafélög til að lýsa því harðræði sem þeir hafi verið beittir af hálfu hins illa Kjararáðs.
Það ráð starfar samkvæmt lögum sem kunnugt er og úrskurðar um launakjör þeirra aðila sem hæst tróna í valdakerfi hins opinbera. Kjararáð úrskurðar þannig um launakjör forstöðumanna stofnana, hæstaréttardómara og forstjóra ohf fyrirtækja. Hinir síðastnefndu voru færðir undir Kjararáð í kjölfar hrunsins til að reyna að koma skikki á óhófleg launakjör þeirra sumra. Þá var sett sú viðmiðunarregla að enginn skyldi hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra. Það var þó ekki sú skipan sem mestri ólgu olli heldur hitt að Kjararáð tók nú að raða ohf forstjórunum inn í svipað mynstur og öðrum forstöðumönnum. Þá sannaðist það sem okkur mörgum var löngu kunnugt um, að sú ráðstöfun að gera stofnanir að hlutafélögum eða færa þær undir sjálfstæðar stjórnir var fyrst og síðast til að geta hyglað hinu nýja forstjóraveldi og leyft því að njóta eldanna sem félagarnir úti á hinum gjöfula forstjóramarkaði yljuðu sér við í aðdraganda efnahagshrunsins.
Greinilegt er að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hlustað á harmagrát þessa fólks og vill nú rétta hlut þess.

Veruleiki Drífu

Sjónarhorn Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins er frábrugðið svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Starfsgreinasambandið hefur innan sinna vébanda lágtekjufólk Íslands. Það starfar í fiskvinnslunni og öðrum framleiðslugreinum, á sjúkrahúsum og öðrum velferðarstofnunum. Þetta er fólkið sem Ísland getur ekki verið án. Samt eru því búin hörmulega bágborin kjör. Þannig er lægsti taxti 201 þúsund krónur, sem síðan hækkar í 214 þúsund krónur eftir fjögurra mánaða starfstíma.
Fyrir þetta fólk skipta hverjar þúsund krónur miklu máli og þótt 300 þúsund krónur skoðist ekki há laun þá myndi lífið verða bærilegra við þá hækkun. En gleymum því ekki að svo hófstilltar eru kröfur Starfsgreinasambandsins, sem Samtök atvinnulífsins þó skellir dyrum á, að ekki er gert ráð fyrir öðru en að markinu verði náð á þremur árum.
En það er ekki aðeins að muni um hverjar þúsund krónur í launaumslagið. Það munar að sjálfsögðu líka um þær þegar þær fara þaðan út. Starfsgreinasambandið og önnur verkalýðssamtök hafa margoft bent á hve alvarlegt það er að þyngja stöðugt í greiðslum sem fólk er krafið um í heilbrigðisþjónustunni. Í könnunum kemur fram að tekjulítið fólk á Íslandi er farið að veigra sér við að leita lækninga vegna þessarar gjaldtöku. Þess er að minnast að þessi gjöld voru hækkuð örfáum dögum eftir að Starfsgreinasambandið skrifaði  síðast undir kjarasamninga.
Þetta er með öðrum orðum veruleikinn sem Starfsgreinasambandið og önnur sambærileg samtök þurfa að horfast í augu við. Óbærilega lág laun og óhóflegur kostnaður við að sækja grundvallarþjónustu sem við flest viljum líta á sem mannréttindi að njóta - og þá mannréttindabrot þegar hún er meinuð fólki.

Við vitum að fleiri eru menn en yfirmenn ...

Þessa millifyrirsögn var að finna á plakati sem Starfsmannafélag Sjónvarpsins bjó til á níunda áratugnum og vildi þar með minna á mannréttindi hins almenna stafsmanns að búa við mannsæmandi kjör. Á sama hátt get ég ekki grátið með bankastjóra Landsbankans sem DV upplýsir okkur um að hafi verið með 1,5 milljónir á mánuði á síðasta ári. Nokkrir "undirmenn" hans eru sagðir hafa fengið 2,3 milljónir á mánuði. Nú er ekkert sem segir í mínum huga að forstjóri eða þess vegna forsætisráðherra eigi að hafa hæstu launin, það getur vel verið að aðrir erfiði meira en þau gera.
Ég vil hins vegar horfa á kjarahlutföllin í þjóðfélaginu og hef margoft sett fram þá tillögu að gerð verði þjóðarsátt um þessi hlutföll, að sá lægsti verði aldrei lakar settur en að hafa þriðjunginn af kjörum hins hæsta.

... En stundum þarf að minna á það

Þar með ættu kröfur Drífu Snædal og félaga að hljóta samþykki jafnframt því sem forstjórar og forstöðumenn ættu að lækka í kjörum en ekki hækka. Á plakatinu góða í Sjónvarpinu forðum daga stóð í undirfyrirsögn undir áminningunni  um að fleiri væru menn en yfirmenn, að stundum þyrfti að minna á að svo væri.
Það er nákvæmlega það sem Starfsgreinasambandið er að gera þessa dagana.

Fréttabréf