Fara í efni

ERLENT ÁRÓÐURSFÉ

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15.03.15.
Fyrir aldarfjórðungi  kom ég í norska trúboðsstöð í Afríku. Boðuð var kristni. Yfirvöldin á svæðinu voru annarrar trúar en létu aðkomumenn fara  sínu fram. Eða þangað til þeir kynntu kvikmyndavélina til sögunnar. Þá fylltust allar samkomur trúboðanna enda  höfðu þessar undravélar aðdráttarafl. Þetta væri ósanngjarnt,  sögðu yfirvöldin. „Þið megið ekki skapa ykkur slíka yfirburðastöðu gagnvart okkar trúarbrögðum." Trúboðarnir, sem höfðu verið gjöfulir á matvæli jafnframt trúboðinu, áttu svar við þessu: „Engar kvikmyndasýningar, ekkert korn." Yfirvöldin völdu kornið og þarmeð var trúboðinu borgið.

Saudi Arabía styður trúboð um heim allan. Í fátækum ríkjum gæti slíkur fjárstuðningur skipt máli en varla hér á landi nema mjölpokar í einhverju formi fylgdu hinu boðaða orði.

Tilhugsunin um áróðursfé er hins vegar óþægileg. Hver man ekki eftir tali um Rússagull og Kanaferðir? Slæmt þótti ef fjölmiðill og fjölmiðlamenn gengju  fyrir fé erlendra stórvelda. Í tengslum við Evrópuráðsþing sótti ég nýlega fund um hvernig þrengt væri að fjölmiðlum í Azarbaijan. Auglýst var að starfsmenn bannaðs fjölmiðils myndu mæta á fundinn. Fjömiðillinn var Voice of America, kostaður af Pentagon.  

Og þá vaknar spurningin hvort það eigi að skipta máli hver í hlut á, eru það ekki bara lögin sem eiga að gilda um alla? Allir skuli vera frjálsir til orðs og æðis svo fremi sem þeir fari að lögum.
Eru þá fulltrúar Hells Angels velkomnir til Íslands þótt við vitum að þeir séu komnir til að vinna samfélagi okkar tjón? Hefur það verið rangt að snúa þeim frá landinu í Leifsstöð án þess að þeir hafi eitthvað til sakar unnið hér á landi sem einstaklingar svo sannað sé? Dómstólar hafa látið þetta gott heita. Ég hef verið þeim sammála. En á gráu svæði er þetta!

Á Reykjavíkurborg að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir fjárstuðning  frá Saudi Arabíu við byggingu mosku í borginni? Eða á að láta slíkt óátalið svo lengi sem farið er að lögum?

Er eitthvað rangt við að einstaklingar, samtök eða ríki styrki meinta samherja eða málstað yfir landamæri? Eða fer það eftir aðstæðum, hver málstaðurinn er, hver umgjörðin er, hver tilgangurinn er og hvaða aðferðum er beitt? Ætli það hljóti ekki að vera svo. Þannig finnst okkur flestum, hygg ég, í lagi að boða kristna trú eða aðra trú, hvort sem er hér á landi eða annars staðar. Okkur finnst hins vegar rangt að gera það með mútum eða hótunum. Okkur finnst rangt að stórveldi nýti sér  keypta fjölmiðla til að koma áróðri fyrir eigin hagsmuni á framfæri, okkur finnst rangt að glæpasamtök geti nýtt sér frelsið til að níðast á fólki. Svo hljótum við að spyrja hvert sé hið boðaða orð? Eru boðuð mannréttindi, mannúð og friður eða er það boðskapur haturs og óvildar?

Þarna eru landamærin ekki alltaf skýr. En í mannlegri tilveru verður ekki allt leyst með reglustiku að vopni. Stundum þarf að beita dómgreindinni. Og hún er ekki stöðluð.