Fara í efni

FJÁRMÁLAKERFIÐ: PRÓFRAUN Á OKKUR ÖLL

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 03.03.15.
Þessa dagana fer fram gríðarlega mikilvæg umræða í þjóðfélaginu um fjármálakerfið; umræða sem þarf að dýpka svo farið verði ofan í kjölinn. Hún snýr að fjármálakerfinu sem slíku, skattlagningu þrotabúanna og leiðréttingu lána og þar með áframhaldandi uppgjöri vegna þess tjóns sem fjármálakerfið olli Íslandi fyrir sex árum síðan. Hún snýr að höftum og mögulegu afnámi þeirra, vöxtum, vaxtamun og þjónustugjöldum, arðgreiðslum til eigenda bankanna, eignarhaldi þeirra og þannig mætti áfram telja.
Þessi umræða snertir nánast alla þætti samfélagsins, eigna- og tekjutilfærslur og þar með afkomu fólks og fyrirtækja og þá einnig eigenda bankanna og er ríkissjóður þar ekki undanskilinn, Hún snýst um lýðræði, hver skuli ráða hverju.

Eignarhald á bönkum

Í Bandaríkjunum er nú vaxandi þrýstingur úr grasrótinni að stofnaðir verði eins konar bankar fólksins og hefur í því samhengi ekki síst verið horft til sveitarfélaganna, að þau reki banka bæði til að annast  millifærslur á vegum sveitarfélagsins en einnig til að halda tilkostnaði íbúanna og þar með vaxtagreiðslum og arðgreiðslum í lágmarki. Með örðum orðum, menn ræða um banka sem þjóna samfélaginu og koma því vel en eru ekki gullmulningsvélar á kostnað samfélagsins. Það vill nefnilega stundum gleymast að í gegnum vexti og arð er verið að færa fjármuni frá einum vasa í annan.
Eða skyldu menn nokkuð hafa gleymt gagnrýnni umræðu frá níunda áratugnum og hinum tíunda, ekki bara hér á landi heldur um allan hinn "þróaða heim"  þar sem spurt var hve lengi það gæti gengið að færa ávinning af verðmætasköpun í þjóðfélaginu frá heimilum og fyrirtækjum til fjarmagnseigenda í þeim mæli sem gert var. Svarið fékkst í sídýpkandi kreppum.

Sagan endurtekin

Nú er þessi saga að endurtaka sig á nýjan leik. Vextir eru himinháir og vaxtamunur einnig. Þá standa menn nánast agndofa frammi fyrir tugmilljarða arðgreiðslum bankanna til eigenda sinna. Fram hefur komið í fréttum að arður sem renn­ur til rík­is­sjóðs af starf­semi Lands­bank­ans vegna rekstr­ar­árs­ins 2014 nemur 24 millj­örðum króna. Það er von að Viðskiptaráð hvetji til sölu bankans hið bráðasta svo skjólstæðingar þess geti fengið notið góðs af. Þetta gekk einkavæðing bankanna út á - við aldaskiptin. Hún snerist um að færa tilteknum aðilum aðgang að þessum miklu verðmætum sem bankarnir voru færir um að soga út úr heimilum og fyrirtækjum. Þetta á Alþingi enn eftir að rannsaka þótt það hefði að mínu mati átt að hafa forgang umfram nánast allt sem rannsakað hefur verið í tengslum við hrunið.

Krafan er lækkun fjármagnskostnaðar

En það er ekki bara himinháir vextir og arðgreiðslur sem virðast vera að endurtaka sig. Athyglisverðar eru fréttur um stórfelldar heildar launahækkanir í fjármálastofnunum sem virðast ekki vera í neinu samhengi við þróun starfsmannafjöldans. Þetta þýðir að topparnir eru aftur komnir í þann gír að hygla sjálfum sér og sinni hirð. Ég tek undir með þeim sem stigið hafa fram síðustu daga og hvatt til að í stað þess að beina tekjum af bankastarfseminni ofan í eigin vasa og eigenda beri bönkunum að horfa til viðskiptavina sinna, heimilanna og fyrirtækjanna sem mörg hver eru að sligast undan háum fjármagnskostnaði. Þá gengur náttúrlega ekki að hagnast um 30 milljarða af þjónustugjöldum einsog fram hefur komið í fréttum að viðskiptabankarnir þrír hafi gert á síðasta ári!

Skattlagning þrotabúanna

Ég hef tekið því fagnandi að reynt skuli að færa lánastabbann niður með svokölluðum leiðréttingum stjórnvalda. Í þessu eru fólgin pólitísk skilaboð inn í framtíðina. Það á að vera hægt að færa peninga frá bröskurum til almennings, ekki bara á hinn veginn.
Hvað leiðréttinguna áhrærir þótti mér ámælisvert að enginn vilji skyldi hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar til að gera þessa aðgerð félagslega réttlátari, en það hefði verið hægur vandi. Forsenda þess hins vegar að ég hef stutt þessa aðgerð er að hún verði einvörðungu fjármögnuð með skattlagningu þrotabúa bankanna en ekki að nokkru leyti úr ríkissjóði þótt fjármagnið renni í millifærslu um ríkissjóð.
Útundan okkur sjáum við atganginn í kröfuhöfunum og útsendurum þeirra sem reyna allt hvað þeir geta til að bægja skattheimtumönnum almennings frá og má það ekki gerast að undan þeim verði látið.
Nauðsynlegt er að bankarnir bæti það tjón sem þeir hafa valdið samfélaginu og tryggja þarf að Ísland sé í jafnvægi í stað þess að verðmætasköpunin sé soguð út úr hagkerfinu með vöxtum og arði. Hvernig til tekst í þessu efni er prófraun á fjármálakerfið og stjórnmálin; prófraun á okkur öll.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður