Fara í efni

FUNDAÐ Í PARÍS UM ÚKRAÍNU, MANNRÉTTINDI OG VELFERÐ

Eiffel
Eiffel
Sl. mánudag og þriðjudag sat ég tvo nefndarfundi í París, annars vegar í flóttmannanefnd og hins vegar félagsmálanefnd Evrópuráðsins. Kostirnir við þessa nefndarfundi umfram það sem gerist á fundum í tengslum við þingfundi ráðsins er að menn gefa sér betur tíma til að kafa í einstök málefni, kalla til fræðimenn og fulltrúa frjálsra félagasamataka og byggja síðan skoðanaskipti á framlagi þessara gesta, auk þess að koma eigin viðhorfum til skila.

Flóttamenn í eigin landi

Á fundi flóttamannanefndarinnar var höfuðþemað málefni sem á ensku er kallað Internally Displaced People, skammstafað, IDP, og vísar til þeirra sem hrakist hafa frá heimahögum sínum en eru þó enn innanlands og var sjónum beint sérstaklega að Úkraínu.
Einn af æðstu yfirmönnum öryggisþjónustu Úkraínu var mættur til að upplýsa nefndina auk fulltrúa frjálsra félagasamtaka en fram kom á fundinum að þau vinna sum hver með öryggissveitum Úkraínuhers.

Mæðurnar frá Pétursborg

Á meðal samtaka sem mættu á fundinn voru samtök sem kalla sig Mæðurnar frá Pétursborg, en það eru rússnesk samtök sem reyna að hafa uppi á rússneskum hermönnum sem horfið hafa á síðustu vikum en það er hald samtakanna að þeir hafi margir látið lífið í stríðsrekstrinum í austurhluta Úkraínu. Fulltrúarnir sögðu að samtök sín væru undir stöðugu áreiti af hálfu  rússneskra yfirvalda.

Játað undir byssukjafti

Talsmenn öryggissveita Úkraínuhers sýndu myndband með tveimur ungum mönnum í hermannabúningi lýsa því yfir að þeir væru rússneskir hermenn.  Myndbandið og frásagnir af ódæðisverkum aðskilnaðarsinna sögðu sína sögu þótt heldur vilji maður sjá slíkar játningar undir öðrum kringumstæðum en í miðjum hópi vopnaðra andstæðinga.
Það sem að sjálfsögðu á skorti voru frásagnir aðskilnaðarsinna af voðaverkum andstæðinga sinna ekki aðeins eru  úr Úkraínuher heldur einnig vopnuðum ofbeldissveitum utan hersins.

Einsleit upplýsingamiðlun

Það er þegar farið að hafa áhrif að vísa Rússum tímabundið úr Evrópuráðinu. Öll umræða er að teiknast upp í anda kalda stríðsins og upplýsingamiðlun er smám saman að verða einsleitari.
Í skýrslum Evrópuráðsins er þannig núorðið sjaldnast talað um aðskilnaðarsinna heldur hryðjuverkamenn í samræmi við kröfur úkraínskra stjórnvalda sem haga orðfærinu í samræmi við pólitíska sýn sína og hagsmuni.

Rússar missa þolinmæðina

Kynnt var bréf á fundinum frá Pushkov,  formanni rússnesku sendinefndarinnar hjá Evrópuráðinu,  um að Rússar vildu nú engin samskipti við Evrópuráðið út þetta ár, greinilega þreyttir á heiftúðugri umræðu um sjálfa sig - um þá en án þeirra  - á hverju ársfjórðungsþingi Evrópuráðsins á fætur öðru, þar sem ákvörðunin er jafnan sú að framlengja bannið á aðkomu Rússlands að starfs- og umræðuvettvangi ráðsins.

Hörmungar við Miðjarðarhaf

Margt annað kom til umræðu í flóttamannanefndinni , svo sem um neyðarástandið við Miðjarðarhaf af völdum stríðsátakanna í Sýrlandi, Líbíu og víðar. Þýskaland og Svíþjóð hlutu lof fyrir að vera, öðrum löndum fremur, opin fyrir flóttamönnum frá Sýrlandi. Þessi umræða er að sjálfsögðu fastur liður á dagskrá flóttamannanefndar Evrópuráðsins en ákveðið var að taka ítarlega umræðu um „flóttamanna vandann" við Miðjarðarhaf á fundi nefndarinnar í tengslum við þing Evrópuráðsins í júní.

Rætt um velferðarmódel

Í félagsmálanefnd fór fram afar góð umræða um „velferðarmódel" Evrópu. Verið er að útbúa skýrslu um þetta málefni  og tillögur sem lagðar verða fyrir Evrópuráðsþingið þegar þar að kemur. Það er portúgalskur þingmaður sósíaldemokrata, Rosseira að nafni, sem verkstýrir þessu verkefni. Fenginn hafði verið til fundarins prófessor í vinnumálahagfræði (labour economics) við háskólann í Róm, Pasquale Tridico að nafni til að kynna hugmyndir sínar. Erindi hans var gagnlegt í þeim skilningi að það var fræðandi en einnig vegna hins, að settar voru fram markvissar tillögur.

Kallast á innan margbreytileikans

Prófessorinn fór almennum orðum um velferðarmódel Evrópu - sem væru mörg - hið norræna, hið engilsaxneska og mismunandi meginlandsáherslur. Hann sagði að kosturinn við að hafa mismunandi kerfi væri sá skapandi  kraftur sem leystist úr læðingi við að ólík kerfi kölluðust á.
Meginhugmynd hans gekk engu að síður út á samræmingu.

Samevrópskur velferðarsjóður

Hann vill að lífeyrissjóðum verði gert að greiða inn í samevrópskt kerfi sem verði hannað til að gegna tvíþættu hlutverki:
1) Verða sjóður sem aðstoðar við að tryggja öllum þegnum lágmarksframfærslu.
2) Verði fjárfestingasjóður sem hafi atvinnusköpun að leiðarljósi en ekki stundargróða en hið síðarnefnda væri villuljós sem hefðu leikið marga lífeyrissjóði grátt í efnahagskreppunni.
Pasquale Tridico hét því að senda mér glærur sínar og set ég hér slóð inná þær svo skjótt sem ég fæ þær í hendur:  ...

Lýðræðið í húfi?

Áhyggjur komu fram í þessari umræðu um að sveiflurnar í evrópsku efnahagslífi, sem sums staðar hefðu orðið að alvarlegri efnahags- og félagskreppu, gætu hæglega þróast í stjórnmálakreppu þar sem sjálft lýðræðið væri í húfi. Þess vegna væru mál þessu tengd mál málanna og ástæða til að ræða í þaula í leit að lausnum.
Þeir sem tóku til máls kváðust allflest líta svo á að full atvinna væri grundvallaratriði og benti ég í þessu sambandi á mikilvægi þess að tryggja réttindi verkafólks og þar með verkalýðshreyfingar til að tala máli þess. Í umræðunni minnti ég á að víða hefði sú þróun verið merkjanleg að grafið hefði verið undan verkalýðshreyfingunni, það hefði síðan leitt til dvínandi aðildar að verkalýðsfélögum.

Hagstætt að fjárfesta í innviðum

Prófessorinn ítalski sagði að rannsóknir sýndu tvennt, annars vegar að með meira atvinnuleysi ykist misskipting og svo hitt að með dvínandi vægi verkalýðshreyfingarinnar ykist misskipting að sama skapi. Hann hamraði rækilega á því að samfélag jafnaðar væri kröftugra samfélag í efnahagslegu tilliti en samfélag ójafnaðar. Rannsóknir styddu eindregið þessa fullyrðingu. Hann varaði einnig við eftirsjá að fjármunum sem færu til að styrkja innviði samfélagsins, fráleitt væri að einblína á kostnaðinn í stað þess að horfa til langtíma ávinnings sem hlytist af slíkum fjárfestingum..

Samsama sig baráttumönnum Íslams

Áhugaverður þáttur sem kom til umræðu á þessum fundi sneri að hryðjuverkaárásunum  í París, „Saman um lýðræðislegar lausnir."
Gestur þessa hluta fundarins var Bernard De Vos, umboðsmaður barna á tilteknu svæði í Belgíu. Hann setti mál sitt fram afar skilmerkilega og af miklu innsæi. Menn yrðu að horfast í augu við að stórir hópar ungs fólks samsömuðu sig harðdrægum íslamistum.
Hann varaði  við alhæfingum um trúarbrögð og sagði að margendurtekinn lærdómur mannkynssögunnar væri sá að öllu máli skipti að samfélagið hefði framtíðarsýn, byði upp á framtíð en ekki vonleysi. Tillögur Bernards De Vos um samfélagsumræðu voru markvissar og sannfærandi og gengu út á að eyða fordómum og byggja brýr á milli einstaklinga og hópa. Ég sagðist gjarnan vilja bæta einni tillögu við.

Tvær fréttir

Ég hefði orðið hugsi vegna tveggja nýlegra  frétta.
Í fyrsta lagi uggurinn sem hefði orðið á meðal Parísarbúa þegar upplýst var nýlega um dróna, mannlaus loftför á sveimi við Eiffelturninn og aðrar sögufrægar byggingar í París nýlega. Gat verið að hryðjuverkamenn ætluðu að fremja illvirki sín með mannlausum sprengjuhlöðnum loftförum. Þetta hefði verið rétt eftir morðin á ritstjórnarskrifstofum Charlie Hebdo þegar fjöldinn reis upp og sagði Je suis Charlie - sem í reynd þýddi ef þið ætlið að drepa frjálsa blaðamennsku þá er það tilræði við okkur öll.
Hin fréttin hefði verið í Guardian. Þar hefði verið viðtal við ungan dreng frá Jemen - Jahmi að nafni -  sem hefði misst föður sin og bróður í drónaárás bandaríkjahers árið 2011. Hann lýst því hvernig væri að lifa í stöðugum ótta við þessar vítisvélar. Ótti þessa unga drengs - hann var 13 ára - hefði ekki verið ástæðulaus því fyrir skömmu síðan hafi hann einnig verið drepinn í drónaárás. Engar fregnir hafa enn borist af Je suis Jahmi samstöðugöngum. Ég velktist hins vegar ekki í vafa um að hjörtum fólks sem byggi í Evrópu en ætti ættir að rekja til hins íslamska hluta heimsins bærðust blendnar tilfinningar svo ekki væri dýpra tekið í árinni!

Stöðvum eigið ofbeldi

Með hliðsjón af þessu væri viðbótartillaga mín sú að hætta drónaárásum og öðru glórulausu ofbeldi í þessum heimshluta og þótt það væri tvímælalaust rétt að forðast bæri alhæfingar og greina á milli hófsemi og víðsýni annars vegar og ofstækis og ofbeldis hins vegar á vettvangi trúarbragðanna þá væri það þó svo að í fjarlægð samsamaði fólk sig hinum „alhæfða" heimi trúarbragðanna, menningu og uppruna. Og þegar ungu reiðu fólki sérstaklega, væri misboðið væri eftirspurn eftir afdráttarlausum viðbrögðum.

Je suis verður nous sommes....

Hinn belgíski gestur fundarins tók mjög undir þetta og sagði að fyrir áramótin - áður en blaðamennirnir voru myrtir í París hefðu menn látið duga að vera lögreglumenn, kennarar, sjúkraliðar, læknar eða blaðamenn. En eftir þessa atburði áttu allir að vera blaðamenn á tilteknu blaði sem í þokkabót höfðu leyft sér að gera lítið úr trúarbrögðum milljóna manna. Je suis ... ég er, átti nú að verða, nous sommes... Við erum ...
Undir það hefði stór hluti Evrópu ekki getað tekið - sá hluti sem fylgdist með nær daglegum fréttum af hlutskipti flóttamanna við Miðjarðarhaf, ofbeldisverkunum á Gaza að ógleymdum drónaárásunum í Jemen, Pakistan, Afganistan, Sýrlandi og víðar og átti félagslegar og  tilfinningalegar tengingar við það fólk sem beitt var ofbeldi . Áfram mætti telja ofbeldisverk framin af iðnvæddum herveldum okkar heimshluta  - eða á ábyrgð þeirra - eða skyldu menn nokkuð  vera búnir að gleyma myndunum af pyntingum í Abu Ghraib fangelsinu í Baghdad? Heldur einhver að þetta skilji ekki eftir ör á sálarlífi einhverra sem samsama sig fórnarlömbunum?

Gagnlegt að líta í spegil

Mín tillaga væri því sem áður segir að hætta drónaárásum og kannski líka líta öðru hvoru í spegil og gaumgæfa eigin gjörðir.