HAMINGJUSAMASTI HÆGRI MAÐUR Í HEIMI

Hanni hamingjusami

Vísir.is segir frá sérstæðri könnun háskólamanna. Hún varðar samhengið á milli hamingju og stjórnmálaskoðana.Samkvæmt kenningunni eiga eindregnir hægri menn að vera hamingjusamari en þeir sem eru vinstrisinnaðir. http://www.visir.is/er-hamingjusamasti-hannes-i-heimi/article/2015150309763

Vefmiðillinn leitar eðlilega til prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem er tvennt í senn,hægri sinnaður og gríðarlega hamingjusamur að eigin sögn. Hann er ekki aðeins spurður út í eigin hamingju heldur einnig hvað hann haldi um líðan mína því samkvæmt keningunni geti ég varla verið mjög hamingjusamur. Hannes telur líklegt að kenningin sé rétt og dæmi hann það af skrifum mínum.

Í tímans rás hafa verið settar fram margvíslegar kenningar um hamingjuna. Í bókinni The Selfish Capitalist - Origins of Affluenza eftir Oliver James, er því haldið fram að í þjóðfélögum á borð við hin norrænu, sé fólk almennt hamingjusamara og geðræn vandamál sjaldgæfari en í þeim löndum sem búa við svokallaðan engilsaxneskan kapítalisma.

En einsog sönnum frjálshyggjumanni sæmir, er Hannesi Hólmsteini umhugaðra um eigin hamingju en hamingju annarra hvað þá hamingju almennt. Og það ætti ekki að koma á óvart að þar sem samúðina vantar er meira pláss fyrir sjálfsánægjuna. Það kann að vera að það gildi almennt um hægri menn, þótt ég efist um að svo sé. En þá er líka að því að hyggja að Hannes kann að hafa nokkra sérstöðu því án efa er hann hamingjusamasti hægri maður í heimi.

Greinar þar sem vikið er að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og málefnum tengdum framangreindu:
http://ogmundur.is/stjornmal/nr/2950/
http://ogmundur.is/annad/nr/7148/

Fréttabréf