JE SUIS JAHMI

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28./29.03.15.
MBL- HAUSINN

Ekki er langt síðan að hrollur fór um Parísarbúa. Þetta var skömmu eftir að blaðamenn á franska blaðinu Charlie Hebdo,  sem birtu skopmyndir um Múhameðstrú, voru myrtir í París og öll Evrópa hafði risið upp til að segja hátt og skýrt til að árétta samstöðuna, Je suis Charlie, við erum öll Charlie. Þannig mótmæltum við grimmdarverkunum og sýndum samstöðu með frjálsri fjömiðlun. Líka fjölmiðlun sem við berum ekkert sérstaklega mikla virðingu fyrir.

En nú skalf París vegna frétta af mannlausum loftförum, drónum, sem enginn kunni deili á. Drónar höfðu sést sveima við Eiffelturninn og aðrar byggingar í París sem Frakkar líta á sem þjóðargersemar. Sú tilhugsun að hryðjuverkmenn væru í þann veginn að komast upp á lag með að nota mannlaus loftför til að vinna spjöll og myrða meinta andstæðinga vakti skelfingu.

Þökk sé breska stórblaðinu Guardian þá fengum við að vita að nákvæmlega þessi  hugsun var í kolli 13 ára drengs  í Jemen, Jahmi að nafni, allar götur frá því faðir hans og bróðir voru teknir af lífi í drónaárás. "Ég lifi í stöðugum ótta við dauðamaskínurnar" hafði drengurinn sagt á síðum Guardians, nokkrum mánuðum áður en hann var sjálfur drepinn með þessum hætti; sprengdur og brenndur upp til agna með svokallarði "vítissprengju" einsog  morðtólið heitir á máli höfunda sinna.  Þarna eru semsagt "okkar hryðjuverkamenn" að verki. Og engar je suis Jahmi göngur.

Bandaríkjamenn hafa undanfarin misseri myrt mikinn fjölda manna með þessum  sprengjuhlöðnu loftförum, í Pakistan, Sýrlandi, Jemen og víðar. Fjölmiðlar greina frá því að alltaf segist herinn vera að drepa hryðjuverkamenn. Það átti Jahmi litli líka að hafa verið en sannleikurinn er sá, staðhæfa ábyrgir fjölmiðlar, að þetta sé hin mesta firra því hann hafi fyrst og fremst verið lítill þrettán ára drengur að smala búfé og oftar en ekki hafi það verið saklaust fólk einsog hann sem hafi beðið fjörtjón af sprengjunum.

Þessi morð eru að sjálfsögðu  á engan hátt skárri en þau hryðjuverk sem  vestræn ríki halda nú sem mest á loft og eru framin af hinum villimannlegu ISIS samtökum.

Ekki veit ég hvort Jahmi átti skyldmenni á Vesturlöndum, alla vega þó fólk álíka menningarlega og sögulega tengt og Vestur-Íslendingar eru okkur, eða bara tengt eins og manneskjur almennt finna samkennd með manneskjum. Það er nú samt einu sinni svo að við erum líklegri til að finna til samkenndar með fólki sem við finnum einhvern skyldleika með.

Og nú þegar herskarar Vesturlandabúa sem rætur eiga á þeim svæðum sem helst verða fyrir barðinu á "okkar hryðjuverkamönnum" flykkjast í raðir ISIS, má spyrja hvort þurfi að undrast að eitthvað geti gengið úr böndum í sálarlífinu hjá þeim sem samsama sig fórnarlömbum ríkisrekinna hryðjuverkamanna frá okkar heimshluta.

Liggur þetta ekki í augum uppi?

Fréttabréf