LÝÐRÆÐISVÆÐUM SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR!

unpa 2

Í dag lagði ég fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna og tek þar með undir með alþjóðlegum samtökum sem beita sér fyrir því að gera stjórnkerfi Sameinuðu þjóðanna lýðræðislegra. (samtökin heita United Nations Parliamentary Assembly, UNPA: en.unpacampaign.org/index.php  ) 

Til þess að breyta stofnanankerfi Sþ þarf  samþykki 2/3 aðildarríkjanna og neitunarvald stórveldanna í Öryggisráðinu nægir til að fella allar breytingartillögur.  Þess  vegna er erfitt að hnika nokkru til sem ógnar núverandi fyrirkomulagi þar sem stórveldin ráða lögum og lofum.

Með þingsályktunartillögunni læt ég fylgja áskorun frá fyrrnefndum samtökunum þessa efnis.

Ástæða þess að þingmenn, ýmis félagasamtök, fræðimenn og stjórnmálamenn  víða um heim hafa léð þessum málstað fylgi sitt er ofurvald stórveldanna yfir valdakerfi Sameinuðu þjóðanna en þar deila þau og drottna eftir sínum hentugleikum. Þetta skipulag, sem varð til og mótaðist í andrúmi nýafstaðinnar heimsstyrjaldar, endurspeglar veröld þar sem völd og hernaðarmáttur er ráðandi. Þess er  að minnast að reynslan af Þjóðbandalaginu, forvera SÞ, á millistríðsárunum var sú að stórveldin sem töldu sín áhrif og sinn rétt til valda þar, fyrir borð borinn og hunsuðu bandalagið sem fyrir vikið varð valdalítið. Þetta vildu menn girða fyrir að henti að nýju þegar Sameinuðu þjóðirnar voru settar á laggirnar en gengu hins vegar of langt í því að múra inn hagsmuni og völd stórveldanna.

Röddum hinna fáu, stóru og sterku er leyft að hljóma og yfirgnæfa raddir hinna mörgu smáu og þegar til kastanna kemur og taka skal örlagaríkar ákvarðanir ráða hinar fyrrenfndu.

Það er von manna að þing kjörinna fulltrúa gæti orðið til þess að gera stjórnarhætti Sameinuðu þjóðanna lýðræðislegri og því fylgir ávallt, ef rétt er á málum haldið, að fleiri raddir heyrast, fleiri sjónarmið komast að og ákvarðanir og stefnumörkun miðast ekki einungis við hagsmuni hinna stóru og aflmiklu.

Vefslóð á þingmálið: http://www.althingi.is/altext/144/s/1047.html

Fréttabréf