NÁTTÚRUPASSI OG RUKKUN: STJÓRNSÝSLAN Á AÐ SEGJA SATT!

Stefán Þ Þórsson

Á föstudag fyrir tæpri viku birtist athyglisverð grein í Fréttablaðinu eftir Stefán Þorvald Þórsson, landfræðing, um náttúrupassamálið. Greinin er athyglisverð en hún er gagnrýnin á framgöngu ferðamálaráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en ekki síður á stjórnsýsluna sem undir hana heyrir.
Í grein Þorvaldar segir m.a.:
"Ráðuneyti Ragnheiðar Elínar ferðamálaráðherra tekur þátt í leikritinu um ágæti náttúrupassans og fer fram með ósannindi á heimasíðu ráðuneytisins. Þar er m.a. að finna svar við eftirfarandi spurningu: "Kemur náttúrupassi í veg fyrir gjaldtöku á einstökum ferðamannastöðum?" Svar: "Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði."Þetta eru hrein ósannindi, með tilliti til yfirlýsinga UST og umhverfisráðuneytisins um ólögmæti miðasölu Kerfélagsins. Þessi ímyndaði réttur landeigenda er nefnilega ekki lagalega til staðar, nema í kollinum á ráðherra og öðrum "athafnamönnum" sem sitja á landskika sem geymir náttúruperlu. Eignarréttur á landi er aldrei annað en óbeinn eignarréttur, þar sem eigandi lands hefur einungis takmarkaðan umráðarétt yfir sínu landi."

Þetta er þörf árétting hjá StefániÞorvaldi. Auðvitað er lágmarkskrafa að stjórnsýslan segi satt. Það á líka við um ráðuneyti ferðamála.

Grein Þorvaldar Stefáns Þórssonar er að finna hér að neðan en hún er fróðleg lesning:


Ótæk stjórnsýsla

Með frumvarpi ferðamálaráðherra um náttúrupassa handa Íslendingum er gerð ein svívirðilegasta atlaga að grundvallarréttindum Íslendinga sem um getur.

Með frumvarpi ferðamálaráðherra um náttúrupassa handa Íslendingum er gerð ein svívirðilegasta atlaga að grundvallarréttindum Íslendinga sem um getur. Ráðherra þessi, sem vill ekki bara reisupassa handa Íslendingum til að greiða fyrir þann ágang á landið sem ferðaþjónustan hefur valdið, vill einnig veita völdum landeigendum lagaheimild til þess að rukka almenning ef við viljum fara um lönd þeirra.
Þetta er nokkuð sem ekki er löglegt sem stendur, þökk sé náttúruverndarlögum, en Ragnheiður Elín gerir með frumvarpi sínu tillögu um að þessu verði breytt. Er það kannski skiljanlegt, þar sem hún hefur fagnað ólöglegri gjaldtöku Kerfélagsins og miðasölu á vegum þess við Kerið í Grímsnesi. Nokkuð sem er skýrt lögbrot að mati Umhverfisstofnunar (UST).

Lögbrot látin viðgangast

UST hefur þó ekki séð sér fært að aðhafast nokkuð og standa vörð um hagsmuni almennings í máli Kersins. Líklega er þar um að kenna hinu þekkta getuleysi íslenskra stofnana. Því má bæta við að umhverfisráðuneytið telur einnig miðasölu Kerfélagsins vera ólöglega, en þar við situr. Þetta er stjórnsýslan sem almenningur situr uppi með. Forstjóri UST hefur ekki svarað ítrekuðum spurningum um hvort búast megi við aðgerðum til þess að stöðva lögbrotið. Hefur stofnunin engan áhuga á að framfylgja sínu lögbundna hlutverki, sem er að sjá til þess að náttúruverndarlög séu virt, og um leið réttindi Íslendinga til umgengni við eigið land?

Ósannindi atvinnuvegaráðuneytisins

Ráðuneyti Ragnheiðar Elínar ferðamálaráðherra tekur þátt í leikritinu um ágæti náttúrupassans og fer fram með ósannindi á heimasíðu ráðuneytisins. Þar er m.a. að finna svar við eftirfarandi spurningu: "Kemur náttúrupassi í veg fyrir gjaldtöku á einstökum ferðamannastöðum?" Svar: "Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði." Þetta eru hrein ósannindi, með tilliti til yfirlýsinga UST og umhverfisráðuneytisins um ólögmæti miðasölu Kerfélagsins. Þessi ímyndaði réttur landeigenda er nefnilega ekki lagalega til staðar, nema í kollinum á ráðherra og öðrum "athafnamönnum" sem sitja á landskika sem geymir náttúruperlu. Eignarréttur á landi er aldrei annað en óbeinn eignarréttur, þar sem eigandi lands hefur einungis takmarkaðan umráðarétt yfir sínu landi.
Hann þarf t.d. að fá tilskilin leyfi fyrir framkvæmdum og almenningi er frjálst að ferðast að vild á viðkomandi landi, þ.e. um óræktað land.
Landeigandi sem telur foss eða sprengigíg á sínu landi vera jafnmikla prívateign sína og húsið sem hann býr í, hefur ekki skilning á hugtakinu "einkaeign" og hvað þá að slíkur maður skilji hve siðferðilega brengluð slík sýn á landið er. Fossinn er á landareigninni og öllum er frjálst að skoða hann, en það er ekki öllum frjálst að ganga um heimili landeigandans. Þetta virðist Ragnheiður Elín og aðrir strangtrúaðir dýrkendur einkaeignarréttarins, ekki skilja. Í þeirra huga er eignarrétturinn öllu öðru æðri og enginn munur skal gerður á fasteign og náttúruperlu. Engu máli skiptir þótt lögin og almennt siðferði segi annað.

Þau greiði sem græða

Sem betur fer munu Íslendingar aldrei láta þessa svívirðu yfir sig ganga, þó svo að þeir vilji landinu sínu allt gott og myndu án efa
vilja að meira fé væri veitt í náttúruvernd. En er það til of mikils mælst að þeir sem eru að valda áganginum og skemmdunum, þ.e. ferðaþjónustufyrirtæki, væru látin borga hóflegt náttúruverndargjald sem hluta af skattgreiðslum í ríkissjóð? "Þeir greiða ekkert sem græða"eða hvernig var aftur uppáhaldssetning ferðamálaráðherrans? Ég legg áherslu á að öll slík skattheimta fari fram sem almenn gjaldtaka á vegum hins opinbera en ekki landeigenda sem þá opnaði á gjaldtöku af þeirra hálfu.

Hver hefði trúað?

Sumir hafa talað um kvóta- eða öllu heldur braskvæðingu náttúru landsins, en það er einmitt það sem gæti beðið okkar ef braskarar og prinsipplausir ráðherrar hafa sitt fram. Hver hefði trúað því fyrir 40 árum, að fiskurinn í kringum Ísland væri orðinn eign örfárra vellauðugra braskara eins og nú?

Margoft er búið að koma með þær leiðir sem aðrar þjóðir nota til tekjuöflunar ferðamannastaða, en leið ferðamálaráðherra fyrirfinnst hvergi í heiminum. Frumvarpið er móðgun og lítillækkun við Íslendinga og til skammar fyrir ríkisstjórnina.

Ég vona að íslenska þjóðin vakni og láti ekki ræna sig almannaréttinum, rétt eins og fiskimiðunum. En nú stöndum við frammi fyrir ráðherra sem vill afnema almannaréttinn og í leiðinni veita landeigendum rétt til þess að krefja okkur um aðgangseyri. Nokkuð sem þeir geta ekki gert, nema með hjálp Ragnheiðar Elínar.

Fréttabréf