Fara í efni

NOKKUR DÆMI UM HAGSMUNAGÆSLU UTAN ÞINGS OG INNAN

Brennivín í búðirnar
Brennivín í búðirnar

Nýlega heyrði ég þingmann sem styður að Áfengsverslun ríkisins verði lögð niður og áfengi hér eftir selt í almennum matvörubúðum réttlæta skoðun sína  með þeirri „röksemd" að það væri „eitthvað" rangt við að ríkið verslaði með áfengi. En ef það skyldi nú vera að aðkoma ríkisins að áfengissölunni væri betri frá lýðheilsu sjónarhorni, væri það eftir sem áður „eitthvað" rangt við það? Eða ef það væri betra fyrir neytandann, hvað varðar úrval og verðlag. Væri það engu að síður eitthvað" rangt við það?

Ef svarið er játandi þá er augljóst að við værum að tala við einstakling haldinn pólitískum rétttrúnaði. Á slíkum aðilum hrína engin rök.

Annan stuðningsmann brennivínsfrumvarpsins heyrði ég spurðan hvers vegna hann styddi mál sem væri augljóslega okkur sem neytendum í óhag því úrvalið yrði minna og verðlagið hærra; álagningin hjá matvöruverslunum yrði augljóslega hærri, einkum á landsbyggðinni. „Þá lækkum við bara áfengisgjald ríkisins", sagði viðkomandi , „þá þyrfti brennivínið ekki að hækka til neytandans."  Með öðrum orðum, stuðnigsmaður brennivínsfrumvarpsins var tilbúinn að fórna hagsmunum ríkissjóðs svo stóru vörusamsteypurnar gætu grætt meira!

Er það ekki þetta sem er kallað að ganga erinda hagsmuna?

Það þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt ef málstaðurinn er verðugur. Sjálfur vil eg gjarnan ganga erinda Barnaheilla, Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Landlæknisembættisins, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Umboðsmanns barna auk nánast allra annarra almannasamtaka sem láta sig lýðheilsu og forvarnir skipta.

Mér finnst nánast óskiljanlegt að virða að vettugi  raddir þessara ábyrgu aðila sem standa vörð almannahag og þá ekki síst barna okkar og ungmenna.

Eftrifarandi bréf barst öllum alþingismönnum frá Barnaheillum í vikunni:

Kæri þingmaður,

Fyrir Alþingi er nú til meðferðar frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak, þar sem lagt er til að einkasala ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt. Barnaheill - Save the Children á Íslandi hvetja þig eindregið til að huga að neikvæðum afleiðingum sem aukið aðgengi að áfengi mun hafa á velferð barna og unglinga, áður en þú greiðir atkvæði um frumvarpið.

Við viljum minna þig á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem nú er hluti af íslenskum lögum, ber þér að setja hagsmuni barna í forgang þegar þú tekur ákvarðanir sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum. Má í því sambandi einnig benda á að íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans. Hér fyrir neðan má lesa umsögn Barnaheilla um frumvarpið. Enn fremur má hér sjá glærur úr fyrirlestri fulltrúa Barnaheilla á fundi samtakanna Náum áttum þar sem fjallað var um frumvarpið: http://naumattum.is/doc/2880
Við hvetjum þig einnig til þess að kynna þér rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins, sjá til dæmis hér á heimasíðu embættis landlæknis.

Ég hvet lesendur til að fara inn á meðfylgjandi slóðir og kynna sér það sem þar er sað finna:

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item26458/Aukid-adgengi-ad-afengi---aukinn-skadi
http://eurocare.org/library/updates/an_end_for_alcohol_monopoly_in_iceland

http://www.foreldrasamtok.is/
https://www.facebook.com/foreldrasamtok