Fara í efni

OKKUR BER SKYLDA AÐ STYÐJA LÁGLAUNAFÓLK

DRIFA SNÆDAL
DRIFA SNÆDAL

Eftir að hlusta á einkavæðingarloforð fjármálaráðherrans á undanförnum dögum, fréttir af peningagjöfum kvótahafa til stjórnarlokkanna, að ógleymdri lekaráðgjöf til Stjórnarráðsins fyrir milljónir, kveður skyndilega  við annan og eftirsóknarverðari tón í fjölmiðlum.

Þar fer Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, og talar fyrir kjarakröfum láglaunafólks  - 300 þúsund króna mánaðarlaun innan þriggja ára er krafan.

Drífa var í ítarlegu viðtali á RÚV í morgunsárið og var það endurtekið í kvöldfréttum.
Með sannfærandi málflutningi Drífu fylgdi ferskur bjartsýnisblær. Talað var um krónur og aura í viðtalinu en einnig prósentur. Og 100% handviss er ég um að þorri landsmanna stendur að baki Drífu og félögum í Starfsgreinasambandinu í kjarabaráttunni.

Innan Starfsgreinasambandsins undirbúa þau nú  verkfall ef á þau verður ekki hlustað. Það er skiljanlegt og fullkomlega eðlilegt.

En til verkfalls á ekki að þurfa að koma. Þjóðin vildi klára samninga við lækna á dögunum og nú vill hún án efa klára kjarapakka Starfsgreinasambandsins. Allir vissu að samfélagið átti ekki annarra kosta völ en semja við lækna. Við eigum ekki heldur annarra kosta völ en semja við íslenskt láglaunafólk þannig að nokkur sómi sé af.  

Okkur ber öllum siðferðileg skylda til að standa að baki kjarakröfum lægst launaða fólksins á íslenskum vinnumarkaði.

RÚV viðtal við Drífu Snædal: