Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN OG ESB UMSÓKNIN

European Union
European Union
Ef ríkisstjórnin ætlar að slíta viðræðum við ESB - sem legið hafa niðri í tvö ár - þá þarf það að gerast með afgerandi og formlegum hætti:

1)
Skýra þarf utanríkismálnefnd Alþingis frá vilja stjórnvalda og það sem meira er, hafa þarf um þetta samráð við nefndina og þar með þingið. Lög kveða á um að svo verði að gera.

2)
Fara ber með málið fyrir Alþingi og fá þar samþykki fyrir gjörðinni. Þetta ber að gera í anda þeirrar þingræðishefðar sem hér hefur smám saman verið að mótast og ber að virða og styrkja. Ekki myndi ég fyrir mitt leyti greiða atkvæða gegn slíkri tillögu ef hún kemur fram. Ef þingið samþykkti vilja ríkisstjórnarinnar en síðar yrði ákveðið að endurvekja umsókn Íslands og þar með aðlögunarferlið, væri fráleitt að það yrði gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

3) Ég myndi jafnframt styðja tillögu um að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Öllu máli skiptir þó hvernig spurt yrði. Ég tel að spyrja eigi hvort Íslendingar vilji halda aðlögunarferlinu til streitu með það að markmiði að Ísland gangi inn í Evrópusambandið.
Allt tal um að kíkja í pokann er - og hefur alltaf verið -  ljót blekking en þó ekki síður hefur þetta verið lítilmótlegt og hvorki sæmandi gagnvart okkur sjálfum né gagnvart ESB. Það hefur líka verið ómóralskt að þiggja milljarða í gjafafé til að smyrja aðlögun okkar að stofnanakerfi Evrópusambandsins. Slíkt gegndi  allt öðru máli ef það væri staðfastur ásetningur okkar og einlægur vilji að komast inn í ESB. En þau sem eru að snusa að réttunum, til að geta betur áttað sig á hvað hafa megi af matseljunni, hafa engan siðferðilegan rétt til að taka við aðlögunarstyrkjum.

 4)
Ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla og niðurstaðan yrði sú að þjóðin vildi halda áfram að aðlagast ESB með það fyrir augum að gerast aðildarríki sambandsins væri eðlilegt að efna til alþingiskosninga nema að ríkisstjórnin væri reiðubúin að fara að vilja þjóðarinnar í þessu efni. Reynslan af ríkisstjórn í andstöðu við eigin umsókn er ekki til eftirbreytni - það verður horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd.

Við hljótum að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún komi hreint fram og virði lög og grundvallar þingræðis- og  lýðræðishefðir. En við þurfum líka að koma hreint fram gagnvart Evrópusambandinu. Það hefur ekki verið gert, hvorki nú né  á undangengnum árum og höfum við af þessu litla sæmd. Það er löngu tímabært að þarna verði breyting á.

Ef veruleikinn er sá að við erum ekki að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu þarf það að koma fram á afgerandi hátt. Auðvitað var fráleitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina áður. Af þeim sökum er ekki sú lýðræðislega innistæða fyrir hendi  í þessu máli sem margir vilja vera láta til að réttlæta reiði sína nú. Allt er þetta löngu orðið að einum allsherjarfarsa og sjónarspili.

Stuðningur við ESB hefur farið dvínandi og fyrrum harðir aðildarsinnar hafa misst trú á því að aðild Íslands að sambandinu sé æskileg eða eftirsóknarverð, alla vega eins og sakir standa. Klaufaskapur og þjösnabrögð ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar gefið ESB-sinnum nýtt líf enda láta þeir sem slitið hafi verið úr þeim hjartað. Eins fráleit og framkoma ríkisstjórnarinnar er, þykir mér harmakvein þeirra lítt sannfærandi. Gleymum því ekki að engar viðræður hafa farið fram um frekari  aðlögun Íslands að ESB í tvö ár - í þeim skilningi er ekkert að breytast.  Barátta ESB sinna hefur fram til þessa gengið út á að samningsferlið rofni ekki svo þeir þurfi ekki að spyrja þjóðina þegar þráðurinn yrði tekinn upp af nýju. Þeir hafa nefnilega til þessa viljað eina atkvæðagreiðslu og hún verði að loknum aðlögunarsamningi. Svo kann að vera að á þessu sé nú að verða breyting. Þá reynir á hvernig þessir aðilar vildu láta spyrja þjóðina - um aðild að ESB eða þetta gamalkunnuga um pokann sem gæti verið gaman að kíkja í!

Það sem þarf nú að breytast er framkoma ríkisstjórnarinnar í þessu máli og reyndar ekki síður í öðrum málum þar sem grundallarreglur eru ekki virtar og þar nefni ég rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda. Óskandi væri að blóðið rynni í þjóðinni og hún  styddi  við lýðræðisleg vinnubrögð hvað rammaáætlun áhrærir, ekki síður en varðandi  ESB umsóknina. Sjálfum þykir mér það málefni  tvímælalaust meira aðkallandi því þar stöndum við frammi fyrir stórfelldri og óafturkræfri eyðileggingu á náttúruperlum.

Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við að fólki er gróflega misboðið. Hún verður því að bæta ráð sitt. Það er hægur vandi að gera það. Til þess þarf hins vegar viljann - og óttaleysið.  Mér sýnist hvoru tveggja skorta.