ÞAÐ HEFUR FORGANG AÐ STAÐFESTA

Skuldaleiðrétting - auðkenni

Í sölum Alþingis og í ræðu og riti í fjölmiðlum, m.a. hér á síðunni hef ég gagnrýnt hvernig ríkið hefur þvingað einstaklinga til þess að gerast viðskiptavinir fyrirtækisins Auðkennis sem er í eigu bankanna,  til að fá svokallaða rafræna aðkomu í því skyni að staðfesta leiðréttingu lána sinna hjá embætti Ríkisskattstjóra. Hef ég aldrei skilið að grunnþjónusta af þessu tagi  sem á að vera á vegum hins opinbera - enda ein af mikilvægum grunnstoðum samfélagsins - sé einkavædd. Því þetta er ekkert annað.

Á sama tíma og stjórnvöld hrekja almenning í faðm Auðkennis og neyðir fólk til að verða sér úti um rafræn skilríki, er fyrirtækjum leyft að skila skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu í krafti veflykils, þótt þar séu margfalt meiri hagsmunir í húfi.

Þetta er furðulegur framgangsmáti svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Vísa ég í nýtt lesendabréf hér á síðunni þar sem ýmsir þættir þessa máls eru reifaðir.  http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/7419/

Hvers vegna ekki var valið að styrkja Þjóðskrá og Íslykilinn sem þar er orðinn til og er stöðugt verið að þróa í stað þess að taka ástfóstri við einkafyrirtæki  og reyna að skapa því einokunarstöðu, er  með öllu óskiljanlegt.
Sjá nánar:
http://ogmundur.is/annad/nr/7275/

http://ogmundur.is/annad/nr/7203/
Þessum málum er hins vegar ekki lokið og er mikilvægt að fólk láti andúð sína á þessum makalausu vinnubrögðum ríkisins verða til þess að missa af því að staðfesta endurútreikninga lána sinna. Ég hvet alla sem eru svipaðs sinnis og ég að leiða þessa deilu hjá sér um sinn því á mánudag, 23. mars, rennur frestur út  til staðfestingar á endurútreikningi . Það verður að hafa forgang að ganga frá því máli.
 

Fréttabréf