Fara í efni

VIÐ EÐA HRÆGAMMARNIR?

Hrægammarnir
Hrægammarnir

Í síðasta tölublaði DV kemur fram að blaðið hefur undir höndum skrá yfir kröfuhafa í þrotabú Glitnis. Þar kemur fram að vogunarsjóður í eigu George Sorosar, þess hins sama og frægur varð að endemum fyrir að fella breska pundið árið 1992 og hagnast við það um gríðarlegar upphæðir á spákaupmennsku sinni , hafi keypt af spákaupmönnum af sama sauðahúsi, Burlington Loan Management, kröfur i Glitni sem nemi 44 milljörðum. Sagt er að hann hafi keypt á genginu 27-29% af nafnvirði. Það þýðir að hann hafi sett í kaupin 13 milljarða króna og vonist til að græða í áttina að 30 milljörðum króna.

Til eru þeir - og er ég í þeim hópi - sem þykir þetta vera eignaupptaka á kostnað íslensks samfélags sem hefur fengið að blæða illilega vegna hrunsins. Þessi síðustu brask-kaup nema þó mun hærra hlutfalli af nafnvirði en fyrri kaup sem fóru að sögn niður í 4% af nafnvirði. Þeir sem þá keyptu gerðu það í von um að ganga út með 96% í eigin vasa. Ekki gátu þeir vitað að það yrði svo gott en vogun vinnur vogun tapar. Þeir heita ekki vogunarsjóðir fyrir ekki neitt.
Hrægammasjóðir eru náttúrlega miklu betra nafn á þennan hóp en vogunarsjóðir því þeir sérhæfa sig í að flögra yfir fyrirtækjum og samfélögum sem lent hafa í skipbroti. Að tala um eignaupptöku hjá hrægömmum  -einsog heyrst hefur-  þegar komið er í veg fyrir að þeir gangi út með ránsfeng sinn er náttúrlega eins og hvert annað grín.
Skattlagningartölurnar sem stjórnvöld ættu að vera að tala um - og þar með kröfur þess aðila sem mest hefur verið hlunnfarinn, íslensks samfélags - ættu að lágmarki að liggja í 60-70% ef þá ekki hærri.Eða hvers vegna ættu þeir allra séðustu sem keyptu kröfur á 4% af nafnvirði að geta gengið út með fullar endurheimtur? En jafnvel þótt þeir fengju aðeins brotabrot af nafnvirði fjárfestingarinnar væri gróði þeirra eftir sem áður gríðarlegur. Sá sem kaupir á 4% af nafnvirði en selur á 27% og þyrfti síðan að greiða 70% skatt græðir 100% - tvöfaldar með öðrum orðum fjárfestingu sína.

Þegar skattprósentan verður ákveðin verður spurningin á hvora sveifina stjórnvöld ætla að leggjast, með hrægömmunum eða þjóðinni?


24. febrúar skrifar Lilja Mósesdóttir m.a. : . „Þjóðin á ...ekki að sætta sig við annað en að útgönguskatturinn verði á bilinu 70-96%. Útgönguskattur á þessu bili mun tryggja að kröfuhafar fái kaupverð sitt á kröfum í þrotabú gömlu bankanna til baka. Auk þess mun útgönguskattur á bilinu 70-96% koma í veg fyrir stórfelda kjararýrnun og eignabruna af völdum verðbólgubáls í kjölfar gengishruns."
http://liljam.is/greinasafn/2014/leggjum-a-utgonguskatt-og-tryggjum-hagsmuni-thjodarinnar/ 

4. mars skrifa nokkrir félagar úr InDefence hópnum í Kjarnannn og segja m.a.: „Fjármálaráðherra hefur nefnt að leggja mætti útgönguskatt upp á a.m.k. 40% á kröfuhafa sem vilja fara með sinn hlut út úr landi. Betur má ef duga skal. Það er augljóst að ríkissjóður þarf að innheimta að lágmarki 60% af verðmæti eigna úr þessum þrotabúum bara til að bæta beinan kostnað ríksins af fallinu." Sjá: http://kjarninn.is/2015/03/eigum-vid-ad-lata-krofuhafana-hafa-eina-eda-tvaer-landsvirkjanir/