Fara í efni

AUÐKENNI: EINKAVÆDD EINOKUN

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í Morgunblaðinu 15.04.15
Þau sem hallast til hægri í stjórnmálum og hin sem hallast til vinstri geta verið sammála um eitt, nefnilega að einkavædd einokun er afleitt rekstrarform. Engu að síður gerist þetta ítrekað fyrir augunum á okkur að slíku fyrirkomulagi sé komið á laggirnar. Nýjasta dæmið eru rafræn skilríki í höndunum á fyrirtæki  sem kallast Auðkenni  og er í eigu viðskiptabankanna og Símans. Ríkið hefur að sönnu hlutverk í þessu samkrulli, ekki ósmátt en það er að sjá markaðsfyrirtækinu fyrir viðskiptavinum. Í því efni hefur hart verið gengið fram.

Viljum ekki einkavæða vegabréf

Ég held að óhætt sé að fullyrða að fáum dytti í hug að einkavæða vegabréfin okkar. Nær undantekningarlaust finnst okkur, flestum hygg ég, eðlilegt  að vegabréf séu algerlega undir handarjaðri opinberra stofnana og markaðshagmunir komi þar hvergi nærri. 
Öðru máli gegnir um vegabréf á netinu. Þar virðist þetta orka meira tvímælis. Að vísu ekki í mínum huga. Mér finnst augljóst að vegabréf, hvort sem er vegabréfið sem við sýnum í Leifsstöð eða vegabréfið á netinu sem við notum til að fá upplýsingar og þjónustu í Tryggingastofnun, hjá Landlæknisembættinu, Ríkisskattstjóra, Stjórnarráði Íslands  eða öðrum opinberum stofnunum eigi að vera undir handarjaðri opinberra aðila og að markaðshagsmunir komi þar hvergi nærri.

Opinber þjónusta verði ekki gróðalind

Hvers vegna að klifa á markaðs- og hagnaðarhagsmunum? Það er vegna þess að mér ofbýður að Fjármálaráðuneytið skuli vera notað til að þröngva okkur upp í fangið á fyrirtæki sem ætlar að gera vegabréf á netinu sér að féþúfu. Ég legg áherslu á í þessu sambandi að ekkert er við það að athuga að bankar eða símafyrirtæki komi sér upp rafrænum auðkennum og selji afnot af þeim á markaði. Það er fullkomlega eðlilegt. Það sem er óeðlilegt er að fyrirtæki sem tekur sér slíkt fyrir hendur skuli með hjálp ráðuneytis heimilað að teygja hendina ofan í vasa okkar þegar við viljum nýta okkur opinbera þjónustu. Nákvæmlega þetta stendur til að gera!

Hluti af innviðum samfélagsins

Auðkenni hefur verið starfandi um nokkurra ára bil og haft undarlega greiðan aðgang að Fjármálaráðuneytinu. Fyrir því fann ég þegar ég gegndi embætti  ráðherra í Innanríkisráðuneytinu, sem hefur með málefni rafrænnar þjónustu að gera. Setti ég niður hælana enda leit ég á rafræn skilríki sem hluta af innviðum samfélagsins sem mættu undir engum kringumstæðum ganga kaupum og sölum eða eru menn nokkuð búnir að gleyma áhuga Kínverja á að kaupa íslenskan banka? Skyldi þá ekki skipta máli hvað fylgdi með í kaupunum?  Ég beindi ég sjónum þess vegna  að Þjóðskrá sem ætti að hafa með hendi það hlutverk að byggja upp og treysta þessa innviði. Vinna þar á bæ lofaði góðu - og gerir enn.

Þvingunaraðgerðir stjórnvalda

Þessu kunnu Auðkennismenn og hjálparhellur þeirra innan Stjórnarráðsins illa. Eftir stjórnarskiptin gátu þeir hins vegar dregið andann léttar. Nú var tekið til óspilltra málanna að þröngva landsmönnum inn í viðskipti við þetta fyrirtæki bankanna. Við vitum hvernig lánaleiðréttingin var notuð í þessum tilgangi. Enginn átti að fá leiðréttingu nema hann hefði gengið inn í viðskipti við Auðkenni. Samhliða tilskipunum þar að lútandi tóku nú að birtast auglýsingar í blöðum um ágæti þess að vera viðskiptum við Auðkenni.

Rukkun að hefjast

Ekki þorðu menn að rukka sérstaklega fyrir leiðréttinguna þótt vitað væri að slík áform væru á prjónunum en nú hefur hins vegar verið gert heyrinkunnugt að þess sé skammt að bíða að viðskiptavinir Auðkennis verði rukkaðir annað hvort beint frá Auðkenni fyrir hvert þjónustuviðvik eða óbeint í gegnum símafyrirtæki sem eru í viðskiptasambandi við Auðkenni. Rukkað verður fyrir fastagjald sem símafyrirtækin (sem eru á góðri leið að verða milliliður Auðkennis og viðskiptavinarins) myndu innheimta. Síðan yrði rukkað fyrir uppflettingar og loks kæmi gjald fyrir SMS skeyti sem tengjast þjónustunni.

Hvað gerist svo?

Fólk mun segja sig úr viðskiptasambandi við Auðkenni enda vilja flestir vera í sambandi við Tryggingastofnun eða aðrar samfélagslegar þjónustustofnanir gjaldfrítt, hvað þá að þurfa ekki að borga til einkafyrirtækis fyrir slíka milligöngu!
En eru aðrir valkostir? Já, það eru aðrir valkostir til staðar og horfi ég þar sérstaklega til Þjóðskrár sem heldur utan um þjónustugáttina Ísland.is og Íslykilinn. Hann er  vegabréf á vefslóðum! Og það sem meira er, hann er rafrænt vegabréf í stöðugri og örri þróun og í sókn með 165 þúsund landsmenn skráða (á móti 80 þúsund í viðskiptum við Auðkenni eftir allar þvingunaraðgerðirnar).

Íslykill í örri þróun

Gagnrýnendur Íslykilsins segja að hann bjóði ekki upp á sömu öryggisstaðla og rafræn skilríki Auðkennis geri og er þar sérstaklega vísað í rafrænar undirskriftir.  Því er til að svara að hingað til hefur þótt vera í lagi að notast við veflykil skattsins sem er ekki eins öruggur og Íslykillinn (!) til að gera grein fyrir mikilvægum fjárhagslegum upplýsingum og í annan stað er stöðugt verið að þróa leiðir til rafrænnar staðfestingar á annan hátt en þann sem Auðkenni býður upp á. Læt ég þá liggja á milli hluta ýmislegt sem lýtur að meintu öryggi sem tengist rafrænum undirskriftum.  Að mínu mati á að þróa slíkar leiðir á vegum Þjóðskrár í  stað þess að þröngva okkur fastar inn í faðm einkafyrirtækisins.

Aðgangur tryggður að allri samfélagsþjónustu

Þjóðskrá hefur í mínum huga verið með hárréttar áherslur:  Tekið fagnandi öllum úrlausnum einkaaðila til að þróa ný úrræði og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum þau til kaups og afnota og hefur Þjóðskrá gert grein fyrir slíkum kostum á vefsíðu sinni, jafnframt því sem stofnunin hefur stefnt að því að þróa kerfi sem duga fyrir aðgang okkar - almennings - að allri þjónustu og öllum upplýsingum á vegum samfélagsins. Það er í mínum huga algert grundvallaratriði.