Fara í efni

ÞAKKIR TIL RÍKISÚTVARPSINS

Björk, gunnar. Víkingur heiðar
Björk, gunnar. Víkingur heiðar

Ríkisútvarpið féll ekki á páskaprófinu, fjarri því. Ég hef stundum sagt að á stórhátíðum, um jól og páska, reyni á hvað í Ríkisútvarpinu býr.

Það gerist í tvennum skilningi, bókstaflegum, það er að segja hvað sé að finna í safni Ríkisútvarpsins, í fórum þess,  og síðan hvers það er megnugt til nýsköpunar, hver geta býr með dagskrárgerðarfólkinu sem þar starfar nú .

Á sjóði Ríkisútvarpsins  er stöðugt gengið og er það ágætt svo langt sem það nær. "Þessi þáttur var áður á dagskrá Ríkisútvarpsins...", hefur hljómað ósjaldan á liðnum niðurskurðarárum. Ekki fúlsa ég við góðu klassísku efni frá fyrri tíð. Á þessum páskum hef ég ekki orðið fyrir vonbrigðum hvað það varðar.  

En að sjálfsögðu þarf Ríkisútvarpið líka að sýna hvað í því býr í nýsköpun efnis núna, í samtímanum,  annars endar það sem safn en ekki lifandi og skapandi miðill.

Ég fékk þó ekki annað skilið en að fjöldi þeirra þátta sem við fengum að gæða okkur á af kræsingum páskáhátíðarinnar hafi verið nýir af nálinni, þótt sumir þáttanna hafi að hluta til byggt á eldra efni. Ég nefni  Heim að Möðruvöllum, skemmtilegan og fróðlegan þátt Gunnars Stefánssonar, sem ósjaldan hefur boðið útvarpshlustendum upp á dagskrárefni í hágæðaflokki. Í þættinum var blanda frá ýmsum tímum en handbragð stjórnandans tryggði samhengið og samfelluna sem var með miklum ágætum.

Dæmi um annað gott efni var þáttur eða öllu heldur þættir um Björk Guðmundsdóttur, Að hlusta á heiminn. Björk er sannkallað stórveldi, ekki bara frábær söngkona heldur líka lifandi og vel gerður og gefandi einstaklingur enda var vitnisburður samferðarmannanna,  sem við fengum að heyra í þáttunum, allur á þann veg.

Í kvölddagsrká Sjónvarps á páskadag var sýnd kvikmyndin Vonarstræti eftir Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson. Þetta er margverðlaunuð mynd sem hefur fengið afbragðs dóma fyrir leikstjórn og leik. Myndin er sterk og það tekur á að horfa á hana því hún hrærir hressilega í tilfinningalífi áhorfandans.

Það gerði einnig á sinn hátt píanósnillingurinn Víkingur Heiðar Ólafsson. Hann lokaði mínum páskadegi með rúmlega klukkutíma konsert þar sem hann lék Goldberg-tilbrigðin eftir Jóhann Sebastian Bach undir miðnættið á Rás 1.   

Í dagskrá Ríkisútvarpsins var ótal aðrar perlur að finna í tónum og mæltu máli, skáldskap, sagnfræði, fróðleik um vísindi og  heimspekilegar vangaveltur m.a. um íslenska umræðuhefð í þætti sem Hallgrímur Thorsteinsson stýrði  og um „þjónandi stjórnun", sem séra Skúli Ólafsson nefndi svo í ágætu spjalli við þá Ævar Kjartansson og Jón Ólafsson. Margt fleira mætti nefna. Allt það fólk sem lagði hönd á plóg á þakkir skildar.

Þetta minnir á mikilvægi þess að hlúð sé að Ríkisútvarpinu og séð til þess að það fái að lifa góðu og gjöfulu lífi sem menningarstofnun sem nærir anda þjóðarinnar.