Fara í efni

TÍMASKEKKJAN Í HÁSKÓLA ÍSLANDS

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.04.15.
Í ár minnumst við þess að eitt hundrað ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Við ættum að minnast þess líka að fátækt fólk fékk þá einnig atkvæðisrétt - með skilyrðum þó. Vinnuhjú sem nú máttu kjósa áttu ekki að njóta þess réttar ef þau voru í skuld við sveitarfélagið!

Þegar mannréttindasigrum er fagnað er jafnframt hollt að minnast þeirra sem mannréttindi voru brotin á. Þegar litið er um öxl á lýðræðisvegferðinni sjáum við brotalamir sem voru ekki alltaf augljósar í samtímanum. Við undrumst nú þröngsýnina og íhaldssemina sem hafði mannréttindin af konum og eignalausu fólki fyrr á tíð.  En getur verið að við þurfum að bíða enn í hundrað ár eftir því að Háskóli Íslands stígi út úr forneskjunni og láti af þeirri aðskilnaðarstefnu sem hann ástundar gagnvart  starfsmönnum sínum?

Í rektorskjörinu í Háskóla Íslands, sem nú er nýafstaðið, erum við minnt á þá mismunun sem starfsfólk í Háskóla Íslands býr við þegar kemur að ákvarðanatöku um yfirstjórn stofnunarinnar. Það starfsfólk sem ekki hefur háskólapróf upp á vasann hefur rýrari kosningarétt en það starfsfólk sem hefur slíka gráðu - bara einhverja -  í sínum fórum! Líklegt er að í framtíðinni verði fjallað um þetta í sögubókum og munu menn þá býsnast yfir þeirri þröngsýni og íhaldssemi sem enn hafi verið við lýði við Suðurgötuna í Reykjavík á því herrans ári 2015.

Sem betur fer líta menn nú menntun öðrum augum en áður var gert og hefur barnalegur hroki bóknámsfólks verið víkjandi. Öll skiljum við sífellt betur að lífsgæði okkar verða til vegna margvíslegrar þekkingar til hugar og handar og samfélaginu hefur lærst að meta mikilvægi margbreytileikans í færni einstaklinga og getu þeirra  til starfa og þá einnig hvernig þessarar getu er aflað. Þar gildir engin stöðluð formúla.

Þess vegna er undarlegt að sú menntastofnun þjóðarinnar sem mest tilkall gerir til virðingar skuli vera þetta aftarlega á mannkynssögumerinni.

Á fréttavef gat að líta eftirfarandi skilgreiningu á  aðskilnaðarstefnunni við rektorskjörið: „At­kvæði há­skóla­kenn­ara og annarra starfs­manna sem hafa há­skóla­próf giltu sem 60% greiddra at­kvæða. At­kvæði stúd­enta giltu sem 30% greiddra at­kvæða og at­kvæði annarra at­kvæðis­bærra aðila giltu sem 10% greiddra at­kvæða."

Ég byrjaði að hreyfa þessu máli þegar ég kom fyrst sem stundakennari að HÍ öðru hvoru megin við árið 1980. Síðan er liðinn aldarfjórðungur og tíu ár betur. Hve lengi skyldi enn þurfa að bíða?