Fara í efni

SEX RÁÐ TIL AÐ LEYSA VERKFALLSDEILUR

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Í tali manna um lög á verkföll gleymist eitt, nefnilega að verkfall er ekki nein skemmtiganga fyrir neinn. Sá sem fer í verkfall verður fyrir tekjumissi auk þess sem verkfallinu fylgir álag og streita, iðulega vegna þess að fólk hefur af því áhyggjur að valda öðrum erfiðleikum og tjóni.
En hvers vegna efnir fólk þá til verkfalla?
Hið einfalda svar er að fólk leggur niður störf til að þrýsta á um betri kjör.

Hin raunverulega ástæða

Dýpra svar við spurnigunni og sennilega raunsannara er á þá lund að fólk fari í verkfall vegna þess að því er misboðið vegna ranglætis sem það telur sig vera beitt. Það hafi ekki verið hlustað á það sem skyldi og/eða vegna þess að það horfir upp á vaxandi misrétti í þjóðfélaginu á sinn kostnað. Réttlætiskenndinni hefur með öðrum orðum verið misþyrmt.
Nákvæmlega þetta hefur gerst á Íslandi. Fréttir úr bónusheimi fjármálalífsins og af græðgi ofurlaunahópa hafa misboðið almennu launafólki.

Forsenda sáttar

Þess vegna verður aldrei friður og sátt nema að dregið verði úr misrétti í samfélaginu. Þetta er mergurinn málsins og þetta verða þeir að skilja sem koma að lausn mála. Þeir sem tala fyrir lögum á verkföll ættu að beina sjónum sínum að sjálftökufólkinu og að stjórnvöldum í þessu samhengi.


Gamalt trikk atvinnurekenda

Þegar talað er um nauðsyn þess að ríkisvaldið komi að gerð kjarasamninga þarf fólk hins vegar að gæta sín. Þetta hefur nefnilega verið trikkið sem atvinnurekendur hafa alltof oft komist upp með að leika gagnvart ríkissjóði. Þeir hafa látið ríkið borga til að sleppa sjálfir. Hver man ekki eftir milljarðaslettunum í vegi fyrir verktaka, og síðan greiðslum í stofnanakerfi atvinnulífsins .
Ábyrgð stjórnvalda

En er ég þá að segja að ríkið eigi hvergi að koma nærri lausn kjaradeilna?
Nei, síður en svo. Kjörin mótast af því sem fer í launaumslagið, laununum,  og hinu sem úr því umslagi  rennur, útgjöldunum. Þess vegna skiptir máli að ríkið hugi að útgjöldum heimilanna eins og kostur er, sköttum, tilkostnaði í heilbrigðiskerfinu, húsnæðiskerfinu, kjörum vegna námslána  og svo framvegis.
Ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda er líka í því fólgin að bæta réttarstöðu launafólks og draga úr óþolandi duttlungastjórnun sem færst hefur í vöxt innan fyrirtækja og í opinberum stofnunum.

Hvað ber þá að gera?

1) Hækka ber laun lágtekju- og meðaltekjuhópa. Undan þessu verður ekki vikist. Jafnframt þarf að draga saman kjörin hjá ofurtekjuhópum og afnema bónusa hátekjufólks, með öðrum orðum sýna í verki fram á réttlátri skipti í þjóðfélaginu.

2) Draga þarf úr útgjöldum þeirra sem mest þurfa á því að halda. Tilkostnaður í heilbrigðiskerfinu vegur þar þyngst. Gagnvart háskólamenntuðum verður að draga úr greiðslubyrði vegna námslána.

3) Setja ber á auðlegðarskatt að nýju og sýna þannig í orði og á borði viljann til kjarajöfnunar.

4) Láta þarf aflögufær fyrirtæki greiða meira til samfélagsins og horfi ég þar sérstaklega til stórútgerðarinnar.

5) Draga þarf úr skattgreiðslum þeirra sem lægstar hafa tekjur. Skatttekjumörk þarf hins vegar að tekjutengja svo hækkun þeirra gangi ekki upp allan skalann með hrikalegum afleiðingum fyrir ríkissjóð.

6) Efla þarf samstarf atvinnurekenda, einkarekinna og ríkisrekinna, um lausn deilumála sem snúa að réttindum launafólks á vinnustöðum.

Kaupmáttur hverra?

En ef launin eru hækkuð og kaupmáttur aukinn, fer þá ekki verðbólga úr böndum?
Svo er ekki. Ef hlustað er grannt eftir því sem seðlabankastjóri hefur verið að hamra á hvað þetta snertir undanfarna daga þá hefur hann gert skýran greinarmun á því að horfa til aukinna útgjalda þjóðfélagsins í heild annars vegar, og hins vegar breyttrar skiptingar innan samfélagsins þar sem dregið er úr kaupmætti ofurtekjufólks en aukinn kaupmáttur lágtekjuhópa. Hin fyrrnefnda hækkun er varasöm segir seðlabankastjóri réttilega, hin síðari ekki. Þannig hef ég skilið hann.

http://www.dv.is/frettir/2015/5/15/folk-fer-i-verkfall-af-thvi-thad-upplifir-misretti-og-ranglaeti/

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/05/15/raunveruleg-astaeda-verkfalla-er-ad-launafolki-er-misbodid-vegna-aukinnar-misskiptingar/