Fara í efni

SKROKKALDA

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.05.15.
Á Alþingi hafa nú staðið deilur um það hvort taka eigi tiltekna virkjunarkosti og setja þá í svokallaðan nýtingarflokk Rammaáætlunar. Þingmenn hafa deilt um lögformleg ferli í þessu sambandi en minna um einstaka virkjanir. Þetta er fullkomlega eðlilegt því fara ber að lögum.

Virkjanirnar sem um er að ræða eru Urriðafoss, Hvamms- og Holtavirkjun í Þjórsá, Hagavatn við Langjökul og Skrokkalda á ofanverðu vatnsvæði Þjórsár.

Og Skrokkalda var það sem leiðarhöfundur Morgunblaðsins gerði nýlega að umfjöllunarefni á eftirminnilegan hátt.

Spurt var hve margir þingmanna þekktu til þessara virkjunarkosta og tiltók hann sérstaklega Skrokköldu.

Ekki hef ég verið sérlega kunnugur þessum virkjunarkosti en leiðarinn og umræðan í þinginu varð mér tilefni til að leita upplýsinga um Skrokköldu.

Fyrir aldarfjórðungi  fékk Hjörleifur Guttormsson samþykkta þingsályktunartillögu sem síðar átti eftir að verða eins konar grunnur að vinnu og lögum sem við nú kennum við Rammann. Lögin um verndar og orkunýtingaráætlun, einsog hið formlega heiti er, voru samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar og eru án efa ein mikilvægasta lagasetning þingsögunnar. Með lögunum var reynt að færa hin miklu átök sem jafnan hafa fylgt ákvörðunum um virkjanir inn í yfirvegaðan skynsemisfarveg. Samkvæmt lögunum eru einstakir kostir metnir af sérfræðingum sem horfa til þeirra þátta sem deilt hefur verið um og í kjölfarið setja þeir fram tíllögur samkvæmt ígrunduðu mati. Í kjölfarið tekur Alþíngi síðan ákvarðanir. Það er grundvallaratriði.

Þótt úr matsferli og innri málamiðlunum sérfræðinga komi tillaga um að ráðast megi í Hvammsvirkjun, svo dæmi sé tekið,  er ekki þar með sagt að ég eða aðrir þingmenn myndu vilja samþykka þann kost. Það sem hefur hins vegar áunnist er að umræðan og eftir atvikum deilur manna í millum eiga nú að hafa mikilvægar rannsóknir að styðjast við.

Þetta ferli frýr okkur ekki ábyrgð á því að kynna okkur málin hvert og eitt, og þá óháð því hvort við sitjum innan veggja Alþingis eða utan, því umræðan í þjóðfélaginu þarf að vera víðtæk. Landið er okkar allra og þar með ábyrgðin á því hvernig með það er farið. Og þótt sérfræðingar kanni hina hlutlægu þætti þá eru þeir ekki alltaf óumdeildir. Þar að auki vega hinir huglægu þættir þungt - ef ekki þyngst.

Finnst okkur til dæmis í lagi að fórna hinum tilkomumikla Urriðafosssi? Hvaða þýðingu hefði Skrokkölduvirkjun og raflínur frá henni fyrir víðerni og verndarsvæði á hálendinu? Grundvallaratriði er að þekkja hvað um er að tefla.

Á ef til vill að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Skrokköldu? Kosturinn  við þjóðaratkvæðagreiðslu er sá að þá sjáum við okkur knúin að fara sjálf á stúfana.

Ef til vill væri ráð að kynna Skrokköldu fyrir þjóðinni með þeim hætti.