Fara í efni

ÞJÓÐARATKVÆÐI UM MAKRÍLINN!

Makríll - mynd
Makríll - mynd

Lengi var reynt að telja okkur trú um að fyrsta grein laganna um stjórn fiskveiða héldi. Hún er svohljóðandi:

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."

Svo var byrjað að selja kvótann, leigja hann og veðsetja hann. Og á síðasta kjörtímabili þegar átti að taka af fiskveiðum auðlindagjald umfram það sem kvótahafar töldu eðlilegt þá var okkur sagt að verið væri að skerða eignarrétt!

Nú er ætlunin að taka makrílinn, sem að mestu leyti hefur staðið hefur utan kvótakerfisins, og færa hann undir þetta kerfi og þar með tugi milljarða undir kvótahandhafana. Þeir eiga að hafa heimild til framsals en nota bene, þeir eiga einvörðungu að fá úthlutað til sex ára í senn. Það er hins vegar meira en eitt kjörtímabil. Og ef úthlutuninni er ekki sagt upp þá tekur við nýtt ár og aftur nýtt þar til hefðarrétturinn sem útvegsmenn vísa gjarnan til um kvótarétt sinn, hefur myndast.

Ég viðurkenni að vísu engan slíkan rétt. En dómsvaldið gerir það, stjórnmálavaldið gerir það, akademíska valdið gerir það... og þetta birtist síðan í lífskjörum kvótahafanna.

Þetta verður að stöðva. Synd ef gera þarf þetta með byltingu gegn einkaeignarrétti. Sú bylting mun að sjálfsögðu koma á þessari öld - fyrr en síðar -  ef menn gæta ekki hófs og halda áfram að hafa eignir af almenningi.

Makrílfrumvarpið má ekki verða að lögum. Hafin er undirskriftasöfnun þar sem skorað er á forseta Íslands að skrifa ekki undir lagafrumvarpið verði það samþykkt á þingi og vísa því til þjóðarinnar.

Ég hef skrifað undir þessa áskorun. Ég vona að það geri sem flestir.

Sjá hér: http://thjodareign.is/