Fara í efni

TVEIR MENN UM EITT MARKMIÐ

Mobutu og Jón
Mobutu og Jón

Mobutu Sese Seko
og Jón Gunnarsson eiga fátt sameiginlegt. Annar var forseti, lengst af einræðisherra, Afríkuríkisins Kongo (sem hann í forsetatíð sinni nefndi Zaire) frá 1965 til 1997. Jón Gunnarsson er hins vegar sem kunnugt er, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Atvinnu- og nýsköpunarnefndar Alþingis.

En þótt fátt sé sameiginlegt með þessum tveimur mönnum má þó nefna eitt, það er hve fundvísir þeir eru á leiðir til að hygla skjólstæðingum sínum.

Þegar einhver úr fjölskyldu eða stuðningsliði einræðisherrans átti í fjárhagslegum vandræðum átti hann það ráð að setja upp enn eitt gjaldtöku-hliðið á flugvellinum í höfuðborginni Kinshasa. Afraksturinn var síðan látinn ganga til hins þurfandi vildarvinar. Minnti þetta á tollhliðin í Frakklandi fyrir byltinguna 1789 og saltskattinn þar í landi á þeim tíma en hvoru tveggja var nýtt til að fjármagna rándýran aðalinn.

Jón Gunnarsson er að vísu ekki að leita ráða til að fjármagna eigin fjölskyldu en kannski eitthvert tilbrigði við franskan aðal. Það er að segja eigendur lands á Íslandi sem hafa að geyma náttúruperlur. Þeir mega lögum samkvæmt ekki rukka aðgangseyri þótt sumir þeirra hiki ekki við að brjóta þau lög eins og dæmin sanna, áþreifanlega nú um stundir við Kerið í Grímsnesi þar sem peningar eru daglega hafðir af ferðamönnum undir blaktandi fána lýðveldisins.

Nú þegar sýnt er að náttúrupassi Ragnheiðar Elínar, ferðamálaráðherra, nær ekki fram að ganga eru góð ráð dýr. Hvernig skal tryggja góðum og gegnum stuðningsmönnum einkaeignarréttarins - og þar með ríkisstjórnarinnar - pening í vasann?

Á þessu er til lausn að mati Jóns Gunnarssonar. Af því fréttum við í Morgunblaðinu í morgun. Jón Gunnarsson hefur nefnilega dottið niður á þá snjöllu lausn að gefa Kerverjum og þeirra likum skotleyfi á okkur sem viljum njóta landsins í gegnum gjaldtöku af bílastæðum. Nú er ég í sjálfu sér ekki endilega ósáttur við að greiða fyrir slíka aðstöðu svo framarlega að ég sé að greiða í ríkissjóð og þar með til samfélagsins.

Hingað til hefur Vegagerðin séð um bílastæði við náttúruperlur, þar með talið við Kerið í Grímsnesi og þyrfti hún að vísu að fá miklu meira fjármagn til að sinna því hlutverki betur. En þetta hefur verið og er hennar hlutverk og á enn að vera, ekki landeigenda!

Orðfærið er í samræmi við gjaldheimtuáhuga Sjálfstæðisflokksins í seinni tíð. Gefum Jóni Gunnarssyni orðið en samhengi orða hans er að með þessu móti muni eigendur lands við Geysi og Kerið, svo dæmi væru nefnd, sjá fram á betri tíð: „Með bílastæðaleiðnni fengju þessir aðilar heimild til að innheimta bílastæðagjöld og sekta með sama hætti og bílastæðasjóðirnir."