Fara í efni

ÆFING Í JAFNAÐARGEÐI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.06.15.
Það mun hafa verið fáeinum árum eftir að tvíburaturnarnir í New York voru sprengdir að til Íslands komu fulltrúar frá Evrópulögreglunni að fræða þingmenn um öryggi í flugi. Þeir gáfu lítið fyrir öryggisleit á flugvöllum, sögðu að með einni undantekningu hefði hún, að því best væri vitað, aldrei komið í veg fyrir hryðjuverk. Eina undantekningin, flugfarþegi með sprengju í skósóla hefði verið stoppaður á flugvellinum í Los Angeles en það hafi verið vegna þess að bandarísku lögreglunni hefði verið kunnugt um áform hans og varað við.

Það þarf varla að taka fram að hinir evrópsku lögreglumenn voru komnir til Íslands að tala máli forvirkra rannsóknarheimilda.

Ef valið stendur á milli þess að leita á mér í flugstöð annars vegar og hins vegar að fylgjast öllum stundum með persónu minni, þá vel ég tvímælalaust flugstöðina.

En valið þarf ekki að standa á milli þessara tveggja kosta. Leikhús hafa verið sprengd í loft upp og strætisvagnar og járnbrautalestir, án þess að nokkur maður tali fyrir því að leitað sé á öllum leikhúsgestum eða strætófarþegum.

Öðru máli gegnir um flugvélarnar. Bandarísk yfirvöld fengu þessu áorkað eftir 9/11 .

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hér getur ekkert eitt land skorist úr leik. Þá yrðu flugvellir þess lands einfaldlega settir út af sakramentinu. Síðan koma margvíslegir hagsmunir til sögunnar, framleiðenda   leitarvélanna og plastbakkanna , og  að sjálfsögðu atvinnuöryggi alls þess mikla fjölda fólks sem starfar við leitina. En það er önnur saga.

Ég treysti því hins vegar að íslensk flugmálayfirvöld beiti sér fyrir slökun á regluverkinu þegar færi gefst; að menn þurfi ekki að taka af sér beltið eða fara úr skónum!

En látum það vera að George Bush hafi haft það af okkur að ferðast með tannkrem landa á milli. Mér hefur tekist að sefja sjálfan mig gagnvart slíku og tek að sjálfsögðu fullan þátt í samstarfi við það ágæta fólk sem sinnir leitarstarfinu. Þegar allt kemur til alls þá er þetta prýðileg æfing í að halda ró sinni.

Einu skiptin sem mér bregst þar bogalistin er þegar ég kem heim  frá Bandaríkjunum þar sem vopnaleit er með strangasta móti. Þegar mér er þá sagt að afhenda belti og tannkrem og fara úr skónum,  þá er mér öllum lokið.

Kannski er erfitt að skipuleggja Leifsstöð þannig að ekki þurfi að koma til þessa gagnvart okkur sem erum að koma heim.

En þetta er ekki tollleit, einvörðungu öryggisleit til að koma í veg fyrir að maður sprengi flugvél í loft upp - þá væntanlega flugvél sem maður er að fara í  loftið með. Er það ekki augljóst?