Fara í efni

FYRST ICESAVE SVO GRIKKLAND

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 10.07.15.
Það sögulega við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave samningana hér á landi var að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárhagslegar skuldbindingar sem færðar höfðu verið í búning milliríkjasamnings.

Icesave braut ísinn

Þetta var algert stílbrot í heimi þar sem fjármagnið ræður lögum og lofum. Innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var mönnum ekki skemmt og Evrópusambandið leit það mjög hornauga að lýðræðinu yrði hleypt að hinum heilögu véum kapítalismans. Stofnanaveldið, agað af hugsunarhætti hans, tók í sama streng og vísaði óspart í einkaeignarréttinn, heilagastan alls réttar, langt hafinn yfir samfélagsleg réttindi og gildi.
Þannig fór það nú samt að með þjóðaratkvæðagreiðslu var hrundið ofbeldistilraunum bresku og hollensku ríkisstjórnanna sem gengið höfðu fram af óbilgirni og hörku við að knýja Íslendinga til að undirgangast samninga um fjármálaskuldbindingar langt umfram það sem eðillegt gat talist og krefjast þess jafnframt að þeir samningar yrðu gerðir að lögum.
Víðs vegar um heim var litið á Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna  sem tímamót að því leyti að tekið var á fjármálakreppu á lýðræðislegan hátt en ekki aðeins undir skipunum AGS, heimslögreglu kapítalismans. Í Grikklandi hefur mjög verið horft til Íslands að þessu leyti, ekki aðeins hvernig tekið var á kreppunni með blöndu af niðurskurði og skattahækkunum heldur ekki síður hvernig þjóðin fékk tækifæri til að segja sinn hug í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Að því leyti má segja að með  Icesave hafi verið brotið blað. 

Grikkir opna öðrum leiðir

Gríski forsætisráðherrann Alexis Tsipras lýsti því réttilega yfir þegar afgerandi úrslit lágu fyrir að niðurstöðurnar yrði að taka alvarlega við hið alþjóðlega samningaborð.  „Það er hægt að virða vilja ríkisstjórna að vettugi" sagði hann, „en öðru gildir um þjóðarviljann."  Og hann bætti því við að hann liti svo á að Grikkir væru að opna öðrum Evrópuþjóðun dyr.
Reyndar held ég að Grikkir séu að opna öllum heiminum dyrnar að því leyti að fjármálakreppa  verði hér eftir í ríkari mæli en áður skoðuð í félagslegu samhengi en ekki einvörðungu á forsendum fjármagnsins.
Gagnrýnir þjóðfélagsrýnar hafa tekið undir þessi sjónarmið. Noam Chomsky hefur sagt að gríska deilan snúist ekki um hagfræði heldur þjóðfélagsátök, nánast stéttastríð. Joseph Stieglitz, hagfræðingurinn heimskunni, segir að menn verði að horfa til ástandsins í Grikklandi þegar deilan er brotin til mergjar. Hvað Grikkjum sé yfirleitt gerlegt og hvað ógerlegt.
Niðurskurður sé þegar farinn að þrengja mjög að stórum þjóðfélagshópum í Grikklandi, atvinnuleysi sé vaxandi og orðið meira en 60% hjá yngstu aldurshópunum á vinnumarkaði. Þá segir segir Stieglitz að menn verði að hyggja að því hvernig til skulda Grikkja hafi verið stofnað. Þar hafi m.a.  verið að verki þýskir og franskir bankar sem hefðu verið óþreytandi að ota lánum að Grikkjum og þá ekki síst til kaupa á hergögnum.
Að þessu samhengi hefur Chomsky einnig vikið.  „Þegar talað er um áhættusama lántakendur verður að hafa í huga að á ferðinni eru þá einnig áhættusæknir lánveitendur", sagði hann svo ágætlega í bandarískum viðræðuþætti í sjónvarpi í aðdraganda grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

 

Hvað svo?

Framundan eru erfiðir tímar hjá þeim þjóðum sem búa við efnahagskreppu. Það á svo sannarlega við um Grikki. Samningsstaða þeirra er hins vegar önnur. Gegnt þeim við samningsborðið eru aðilar sem nú vita að löðrungur á gríska vinstri stjórn er löðrungur á grísku þjóðina og undan honum mun svíða víðar en í Grikklandi. Margir munu taka hann til sín.
Ég spái því að eftir nokkrar svona þjóðaratkvæðagreiðslur, á Spáni og hugsanlega einnig austar í álfunni, þá muni  fjármálakerfið fara að átta sig á því að einnig það ber félagslega ábyrgð.
Einhverjir kunna að spyrja hvort sá sem lánar öðrum peninga eigi þá engan rétt á því að fá þá aftur í hendur. Jú, sá réttur er fyrir hendi, en ekki á hvaða forsendum sem er. Það skiptir máli hvernig til viðskiptanna var stofnað, hvernig  með féð hefur verið farið, á hvaða kjörum það er lánað og hvernig brugðist er við þegar aðstæður verða öllu kerfinu óhagstæðar. Verður þá ætlast til að lántakandinn beygi sig undir lánveitandann og hans hagsmuni að öllu leyti eða axla báðir byrðarnar?

Mannréttindi ofar öllu

Í íslensku kreppunni hafa bankarnir og lífeyrissjóðirnir svarað með hortugheitum fram á þennan dag og neitað að horfast í augu við eigin ábyrgð. Þess vegna þótti mér það góð ráðstöfun að ákveða að bæta lántakendum  að einhverju leyti  með endurgreiðslu áfallið sem þeir urðu fyrir í kreppunni.
Hér var um að ræða grundvallar prinsipmál: Að fjármagnið eigi ekki alltaf að halda sínum hlut óskertum.
Allt þetta á fjármálakerfinu eftir að lærast. Það mun gerast eftir því sem  líður á 21. öldina og samfélagið áttar sig á því að bylting ný-hafinnar aldar snýst um lýðræði og svo hitt að mannréttindi eiga að standa ofar hagsmunum einkaeignarréttar.