Fara í efni

LEIÐARI FRÉTTABLAÐSINS OG HVATNING HJÖRLEIFS

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus
Birtist í Fréttablaðinu 09.07.15.
Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar prýðilegan leiðara í Fréttablaðið miðvikudaginn 8. júlí um virkjanir og orkumál undir heitinu, "Að byrja verkið á öfugum enda."
Þar er réttilega á það bent að ítrekað heyrum við að búið sé að skrifa undir samninga um uppbyggingu stóriðju án þess að orka hafi verið tryggð til framleiðslunnar og þegar gagnrýnisraddir hljómi um að ekki sé rétt staðið að málum sé viðkvæðið oftar en ekki að búið sé að eyða svo miklum fjármunum í undirbúning að það sé spurning um þjóðarhag að halda verkinu áfram og útvega orkuna.

Síðan kemur annað hljóð í strokkinn

Orðrétt segir Kolbeinn: "Það má velta því fyrir sér hvort stjórnendur sem eyða miklum fjármunum í verkefni upp á þá von og óvon að orka fáist í þau séu sérstaklega góðir stjórnendur. Ef í ljós kemur síðan að orkan liggur ekki á lausu eru fjármunirnir fyrir bí og það getur varla talist góð stjórnun, eða hvað?
En kannski er það einmitt góð stjórnun. Kannski er þetta hluti af því sem á ensku kallast að vera passive agressive. Farið er af stað með undirbúning verkefna undir því yfirskyni að ekkert sé nú ákveðið. Varla er fólk á móti því að hlutirnir séu skoðaðir? En síðan kemur að því að það næst saman um uppbyggingu og þá kemur annað hljóð í strokkinn. Öllum þessum fjármunum hefur verið eytt í undirbúning verkefnisins og þess vegna er engin hæfa að vera á móti því að virkjað sé til að standa undir herlegheitunum. Ætlar fólk að vera á móti framförum?"
Í lok leiðarans bendir höfundur réttilega á að virkjanir séu mál okkar allra og að ákvarðanir um þær eigi  ekki að vera "afgangsstærð í samningum sveitarstjórnarmanna, sem vilja iðnað í umdæmi sín, og forsvarsmanna iðnfyrirtækjanna, sem leita að hentugu plássi fyrir verksmiðjur sínar."

Hvað er til ráða?

Að sjálfsögðu er það helst til ráða að hefja verkið á réttum enda. Sá sem ötullegast hefur barist fyrir slíkum vinnubrögðum undanfarna áratugi er án efa Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum alþingismaður og ráðherra. Hann flutti fjölmargar tillögur um breytt vinnubrögð á þessu sviði sem skiluðu okkur að lokum þeim árangri að Rammaáætlun leit dagsins ljós.
En Rammaáætlun samkvæmt hugmyndum Hjörleifs átti að vera hluti af stærri mynd. Þar var grundvallaratriði að byrja á réttum enda, hve mikið og til hvers.

Ekki kjörbúð!

Í greinargerð sem Hjörleifur sendi frá sér fyrir nokkrum misserum segir m.a.: " Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að þau áætli það heildarmagn framleiddrar orku sem þau telji nauðsynlegt að afla út frá þjóðhagslegri nauðsyn og með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga (loftslagsmál) í fyrirsjáanlegri framtíð og að Rammaáætlun taki mið af því. Þannig væri hægt að gera sér grein fyrir heildaráhrifum slíkrar áætlunar. Enga viðleitni í þessa átt er að finna í Rammaáætlun ... Á meðan ekkert liggur fyrir í því efni birtist okkur Rammaáætlun sem eins konar „kjörbúð‟ sem hver og einn geti leitað inn í og heimtað sitt í tímans rás. Slíkt fyrirkomulag er ógnun við verndarþáttinn. Sérstaklega blasir þetta við þegar um er að ræða raforkusölu til orkufreks iðnaðar. Því ætti að stöðva frekari orkusölu í þessu skyni að mestu eða öllu leyti á meðan dæmið er gert upp, nema þegar um er að ræða framleiðslu á vistvænum orkugjöfum í stað jarðefnaeldsneytis til nota í samgöngum og fiskiskipum."

Rímar við heilbrigða skynsemi

Mér sýnast leiðari Fréttablaðsins og þessi orð náttúrufræðingsins ríma vel saman og það sem meira er, hljóma í þeim anda sem við flest myndum leyfa okkur að kalla heilbrigða skynsemi.