MISMUNANDI SÝN Á SAMFÉLAGSLEGAN BANKA

Þeim virðist fara fjölgandi sem telja að halda eigi
Landsbankanum að fullu í ríkiseigu og reka hann sem samfélagslega
ábyrgan banka. Sjálfur hef ég talað fyrir þessu
sjónarmiði, Þorleifur Gunnlaugsson, fyrrum
borgarfulltrúi hefur gert slíkt hið sama, vill reyndar að stofnaður
verði samfélagsbanki í eigu Reykjavíkurborgar og hefur fært fyrir
því góð rök, Frosti Sigurjónsson, þingmaður
Framsóknarflokksins og formaður Efnahags- og viðskiptanefndar
Alþingis hefur talað mjög í þessa veru og fleiri mætti nefna og þá
ekki síst Helgu Þórðardóttur,formann Dögunar en
hún skrifar í Fréttablaðið grein í dag undir fyrirsögninni:
"Landsbankinn sem samfélagsbanki"
Helga segir m.a. í grein sinni: " ... Bankar
stjórna mun meiru en þjóðkjörnir fulltrúar okkar. Það sást vel
þegar þeir fóru á hausinn haustið 2008. Kostnaður mistakanna var
lagður á skattgreiðendur, nýir bankar stofnaðir fyrir almannafé og
síðan nánast daginn eftir fara þeir að dæla út
hagnaði og bónusgreiðslum til æðstu stjórnenda. Þrátt fyrir þessa
dýru endurfæðingu á kostnað skattgreiðenda eltast þeir við
almenning með nauðungaruppboðum og leggja líf fólks í rúst ... Það
er orðið tímabært að við stofnum samfélagsbanka ... Hið opinbera
ætti hann og mestallur hagnaður færi til þjóðarinnar ... Lög myndu
takmarka áhættusækni og setja bankanum
siðferðilegar skyldur gagnvart ríki og þjóð. Bankinn gæti boðið
lægri vexti og betri kjör ..."
Sagnfræði að hætti Óla Björns
Óli Björn Kárason, varaþingmaður
Sjálfstæðisflokksins, afkastamikill maður en ekki nákvæmur að sama
skapi, tekur þveröfugan pól í hæðina í grein sem hann
skrifaði í Morgunblaðið 22. júlí sl. Þar fjallar hann um líkleg
átakamál í næstu kosningum til Alþingis: "Hugmyndir um að ríkið
standi fyrir rekstri "samfélagsbanka" munu hljóma jafnvel þótt
vítin séu til að varast Þau. Það truflar ekki þau sem vilja breyta
Landsbankanum í "samfélagsbanka" og lofa landsmönnum lægri
vöxtum. Landsbankinn verður étinn upp að innan og gerður verðlaus
og reikningurinn sendur að venju til skattgreiðenda og komandi
kynslóða."
Þetta er vægast sagt undarleg sagnfræði.
Ævintýraleg ósvífni
Ríkisbankarnir voru á sinni tíð aldrei byrði á skattgreiðendum einsog varaþingmaðurinn heldur fram. Landsbankinn þurfti á aðstoð úr ríkissjóði að halda einu sinni uppúr 1990 en sá fjárstuðningur var endurgreiddur að fullu. Að leyfa sér að skrifa um sögu bankanna einsog varaþingmaðurinn gerir er ekki aðeins vafasöm sagnfræði heldur ævintýraleg ósvífni í ljósi þess að einkavæddir urðu bankarnir fyrst ríkissjóði byrði svo um munaði! Eða hvar hefur Óli Björn Kárason haldið sig í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins sem skók Ísland haustið 2008?
Grein Helgu Þórðardóttur: http://www.visir.is/landsbankinn-sem-samfelagsbanki/article/2015707299983