STARFSFÓLKI ÁTVR HALDIÐ Í ÓVISSU
Samkvæmt margítrekuðum skoðanakönnunum er yfirgnæfandi meirihluti
þjóðarinnar andvígur því að áfengi sé selt í matvörubúðum og vill
halda í það fyrirkomulag sem nú er við lýði.
Samkvæmt því sem ég best veit er meirihluti Alþingis einnig
andvígur því að fyrirkomulaginu verði breytt í þeim anda sem
nokkrir þingmenn hafa gert að hugsjón sinni og baráttumáli,
nefnilega að afnema ÁTVR og koma víni í almennar búðir.
Ef þetta er rétt, er ítrekuð framlagning þingmáls um þetta efni
fyrst og fremst aðferð flutningsmanna til að koma málstað sínum á
framfæri við þjóðina og hamra á honum í áróðursskyni.
En áhrifin eru víðtækari. Yfirvofandi þingmál hefur
nefnilega áhrif á líðan starfsfólks ÁTVR sem fyrir bragðið lifir í
óvissuum afdrif starfa sinna.
Þetta kom mér í hug þegar ég sá frétt um að fyrsti
flutningsmaður umrædds frumvarps, boðaði að það yrði lagt
fram að nýju á haustþingi en sem kunnugt er dagaði það uppi á
þinginu í vor einsog það jafnan hefur gert á fyrri þingum.
Auðvitað má til sanns vegar færa að hægt sé að útkljá málið
með hraðií atkvæðagreiðslu á þingi. En svo einfalt er þetta þó
ekki.Sumum þingmönnum sem styðja málið í orði á tilteknum
pólitískum forsendum, er nefnilega meinilla við að fá það í
atkvæðagreiðslu. Þótt þeir telji sig ekki opinberlega geta gengið
gegn kreddunni sem málið er sprottið upp úr, þá sjá þeir ýmsa
alvarlega annamarka á málinu. Þetta skýrir að hluta hversu seint
gengur að afgreiða málið auk þess náttúrlega, að við, andstæðingar
þess, gerum lítið til að greiða götu þess!
En ef markaðssinnum á þingi líður vel við þessa stöðu mála, það er,
að frumvarpið komi ítrekað fram og sé stöðugt í umræðu,
stuðningsmönnum þess til upphefðar í vissum pólitískum kreðsum, en
síðan ekki söguna meir, er þá ekki allt í himnalagi, allir
ánægðir?
Svo er ekki og þess vegna er þetta skrifað; til þess að
biðja aðstandendur umrædds frumvarpsað íhuga hversu
sanngjarnt það er gagnvart starfsfólki ÁTVR að halda því árum saman
í gíslingu, eða svo lengi sem sjónleikamenn stjórnmálanna sjá sér í
því hag að hafa málið mallandi.