FYRIR HVAÐ ERU ÍSLENDINGAR AÐ REFSA RÚSSUM?

Birtist í DV 14.08.15.
DV - LÓGÓÍslensk stjórnvöld styðja refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi. Gamlir kaldastríðsmenn, sem eru búnir að gleyma því að Sovétkommúnisminn er liðinn undir lok en muna það eitt að boðorðið er að hata Rússland, fagna meintri samstöðu gegn Rússum. Ekki deili ég þeim samfögnuði. 

Ekki vegna mannréttindabrota

Byrjum á því að spyrja hvers vegna Evrópusambandið, með stuðningi Íslands, vill refsa Rússum? Er það vegna þess að rússnesk stjórnvöld virða ekki lýðréttindi í Rússlandi, til dæmis réttindi samkynhneigðra? Nei, sú er ekki ástæðan. Er það vegna þess að Rússar eru almennt ógnun við grannríki sín? Nei, sú er ekki ástæðan, hún er miklu þrengri og einskorðast við Úkraínu. Er það þá vegna þess að Rússar hafi haft forgöngu um að steypa lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum af stóli þar í landi? Nei, það voru Bandaríkin, Evrópusambandið og NATÓ sem gerðu það með því að bola réttkjörnum forseta frá með valdi í febrúar 2014. Þar komu rússnesk stjórnvöld hvergi nærri.

Hver skuli eiga Krímskagann?

Er það ef til vill vegna uppreisnar aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem refsiaðgerðum er nú beint að Moskvuvaldinu? Já, nú við erum að hitna. Er það þá vegna stuðnings Rússa við þessa rússnesku-mælandi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu? Já. Og kannski fyrst og fremst vegna þess að Pútín og félagar innlimuðu í Krímskagann í Rússland? Bingó, rétt svar! Rússland virðir með öðrum orðum ekki rétt landamæri Úkraínu. Þarna erum við komin að kjarna máls: Hver skuli eiga Krímskagann.
ESB, NATÓ og Ísland vilja að Úkraínustjórn fari áfram með eignarhaldið á Krímskaganum, sem Nikita Krústjoff, leiðtogi Sovétríkjanna, færði henni í hendur árið 1954 og ákvað þannig með þessari gjöf sinni hvar landamærin skuli dregin. 

Vilji íbúanna skiptir engu máli

En þótt svarið sé fundið skulum við spyrja áfram.
Skiptir það ESB og NATÓ máli hvað íbúar Krímskagans vilja? Nei, það skiptir engu máli. Enda hefur þrívegis komið fram í þjóðaratkvæðagreiðslu að undir miðstjórnarvald Úkraínu vilja Krímverjar - eða meirihluti þeirra - ekki heyra. Þetta var fyrst árið 1991og síðan aftur 1994. Síðasta atkvæðagreiðslan, 2014, var síðan undir byssukjöftum Moskvuvaldsins.
Er Evrópusambandið og NATÓ ef til vill að mótmæla byssukjaftaofbeldi? Nei, það stenst varla að byssukjaftar sem slíkir trufli ESB og NATÓ í þessu máli því þegar stjórnvöld á Krím lýstu á miðju ári 1992 yfir að sjálfstæði Krím myndi ráðast af niðurstöðum fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu  þá um haustið, þá sagði Úkraínuþing slíka þjóðaratkvæðagreiðslu ólögmæta og þáverandi forseti Úkraínu hefur staðfest í fjölmiðlum að Krímbúum hafi verið hótað hernaðaraðgerðum. Með öðrum orðum, byssukjaftarnir voru gerðir þeim sýnilegir. Við svo búið var fallið frá atkvæðagreiðslunni og beið hún til árisins 1994 en þá kom vilji íbúanna í ljós þótt spurningarnar væru nú loðnari. Sá vilji var ekki í samræmi við vilja ESB og NATÓ. 


Hagsmunir umheimsins

Umheimurinn spyr fyrst og síðast um eigin hagsmuni þegar Úkraína er annars vegar og þar túlkar hver eftir sínu höfði. Rússar telja sér ógnað vegna aukinna áhrifa Evrópusambandsins og NATÓ í austurvegi, og ESB og NATÓ vilja fyrir sitt leyti treysta áhrif sín á þessu svæði. Þannig hafa hin síðastnefndu beitt sér gegn því að Úrkaína treysti böndin við Moskvu og jafnvel þegar til álita kom að austurhéruð Úkraínu yrðu sjálfstjórnarríki innan landamæra Úkraínu hafa þau ekki viljað una því þegar til kastanna hefur komið, þar sem ætla mætti að þar með yrðu treyst tengsl austurhluta Úkraínu við Moskvu.


Í fangelsi fyrir að tala málið sitt

En stóra málið, sem reyndar sameinar ríki heims í einni allsherjar samtryggingu, nema þegar það hentar ekki einstöku sinnum eins og Rússum nú gagnvart Krímskaganum - er að varðveita óbreytt landamæri heimsins. Um þessa grunnreglu geta öll valdaöfl sameinast og gildir þá einu hversu vitlaus landamærin eru - hvort sem þau eru frá nýlendutímanum eða vegna seinni tíma ofbeldis og þaðan af síður skiptir varðhunda þessarar reglu ekki nokkru minnsta máli hver vilji íbúa er. Bretar sýndu reyndar gott fordæmi með því að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi en það gerir Madrid ekki gagnvart Katalóníu eða Baskalandi þar sem fólk var látið sitja í fangelsi fyrir það eitt að tala tungumál sitt. Þetta er ekki lengra síðan en svo að í mínum vinahópi eru Baskar sem voru fangelsaðir fyrir þessar sakir og Kúrda þekki ég marga sem fram á þennan tíma hafa setið í tyrkneskum fangelsum fyrir að tala sitt eigið tungumál.

Hvað vill Gunnar Bragi Lavrov?

Nú er það nýjasta nýtt að utanríkisráðherra Íslands, sem andheitur hefur talað fyrir refsiaðgerðum gegn Rússum, vill hitta Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Á slíkum fundi má okkar manni ekki verða tvísaga. Ef hann ætlar að draga í land án þess að tala því máli einnig á samstöðufundum ESB og NATÓ í Kænugarði, þá setur Ísland niður.
Mín ósk er sú að Ísland fordæmi refsiaðgerðirnar en hvetji til friðsamlegrar lausnar í Úkraínu með valddreifingu í þá veru sem Minsk samkomulagið kvað á um og jafnframt að í öllum tilvikum verði vilji íbúanna hafður að leiðarljósi en ekki hagsmunir stórvelda. Það er vesælt hlutskipti Íslands að vera hvutti í þeirra ól.

Fréttabréf