HVORKI ERDOGAN NÉ NATÓ KOMA Á ÓVART

Kúrdar - árásir á

Allar götur frá kosningasigri Lýðræðisfylkingarinnar, Halkların Demokratik Partisi, HDP,  í þingkosningunum í Tyrklandi í júní síðastliðnum, hefur verið ástæða til að óttast einhvers konar ofbeldisaðgerðir gegn Kúrdum af hálfu tyrkneskra yfirvalda.

Lýðræðisfylkingunni, HDP, hefur verið líkt við Syriza í Grikklandi því um er að ræða einskonar bandalag ólíkra hópa á vinstri væng stjórnmálanna. Þar eru Kúrdar fyrirferðarmiklir og var þeim því eignaður kosningasigurinn í júní þar sem HDP fékk 13,12% atkvæða og komst þar með yfir 10% í kjörfylgi, þröskuldinn sem stjórnmálaflokkur þarf að komast yfir til að fá fulltrúa kjörna á tyrkneska þingið.

Kúrdar hafa verið að sækja í sig veðrið með ýmsum hætti á undanförnum misserum:

Í fyrsta lagi hafa þeir staðið í fararbroddi í baráttunni gegn  ofbeldisherjum ISIS og virðast eina aflið sem hefur í fullu tré við þau samtök. Fyrir vikið hafa Kúrdar uppskorið aðdáun og virðingu margra sem áður voru þeim andvígir.

Í öðru lagi nýtur málstaður Kúrda vaxandi fylgis. Tilraunir til að ná sáttum við tyrknesk stjórnvöld í formlegu friðarferli sem hófst 2013 hefur mælst vel fyrir innan lands sem utan. Tyrknesk stjórnvöld hafa beitt Kúrda miklu harðræði um langt árabil sem leiddi til blóðugra átaka. Friðarferlið hefur vakið væntingar um betri tíð.

Í þriðja lagi hefur kosningasigurinn í júní aukið trú Kúrda sjálfra á því að friðsamlegt lýðræðisferli sé árangursríkasta leiðin til að tryggja þeim grundvallarlýðréttindi. HDP náði sínum góða árangri þrátt fyrir linnulaust áreiti og árásir alla kosningabaráttuna.

En - því svo kemur en-ið, hinn mikli fyrirvari. Með kosningasigri HDP missti flokkur Erdogans forseta meirihlutann á tyrkneska þinginu og eins og breska blaðið Guardian komst að orði þá er Erdogan "a bad looser", maður sem tekur niðurlagi illa.

Það mun hafa verið all útbreidd skoðun að Erdogan forseti myndi fljótlega boða til kosninga að nýju og freista þess þá að efla fylgi sitt og koma HDP af þingi. Niðurstaðan varð hins vegar sú, sem við nú þekkjum, að hefja gegn þeim ofsóknir að nýju með vopnavaldi.

Tilefnið var árás ISIS samtakanna innan landamæra Tyrklands þar sem 32 Tyrkir voru drepnir og yfir hundrað særðir. En það voru ekki bara einhverjir Tyrkir. Tilræðinu var beint gegn kúrdískum ungliðasamtökum sem unnu að undirbúningi uppbyggingastarfs í sýrlensku borginni Kobani sem er skammt undan. Fórnarlömbin voru því flest Kúrdar. Í kjölfarið myrtu kúrdískir skæruliðar tvo tyrkneska lögreglumenn sem þeir sögðu hafa aðstoðað ISIS-morðingjana. Fyrir morðin á lögregluþjónunum segjast Erdogan og félagar vera að hefna með loftárásum á stöðvar Kúrda innan og utan landamæra Tyrklands.

Við þessar aðstæður er kallað til fundar 28 aðildarríkja NATÓ, til þess - að því okkur er sagt -  að fá móralskan stuðning við baráttu Tyrklands "gegn hryðjuverkum". Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands segir að sjálfsagt sé að styðja við baráttu Tyrkja gegn hryðjuverkum en af hálfu NATÓ sé áhersla lögð á framhald friðarferlis gagnvart Kúrdum.

Þetta eru ágætar áherslur svo langt sem þær ná. Vandinn er sá að þær ná ekkert afskaplega langt.

Staðreyndin er nefnilega sú að Tyrkir hafa beint og óbeint stutt ISIS. Þeir hafa heimilað vopnaflutninga til þeirra til Sýrlands en um leið hafa þeir lokað landamærunum fyrir Kúrdum sem hafa viljað fara óheft suður yfir til aðstoðar sýrlenskum Kúrdum í baráttu þeirra gegn ISIS. Þá sjaldan sem landamærin hafa verið opnuð Kúrdum hefur það verið takmarkað og skilyrt.

Það kemur því ekki á óvart að Erdogan og félagar í Ankara grípi til aðgerða til að veikja Kúrda nú þegar þeim er ekki lengur stætt á að sýna ekki lit í baráttunni gegn ISIS. En þá skal tækifærið jafnframt notað til að ganga milli bols og höfuðs á baráttusveitum Kúrda.

Viðbrögð NATÓ koma heldur ekki á óvart. Þau eru í fullu samræmi við afstöðu hernaðarbandalagsins fyrr og síðar: Þegar ógnað er hagsmunum ráðandi afla í aðildarríki - að ekki sé talað um ef þau öfl eru handgengin NATÓ - þá er allt annað látið víkja. Líka mannréttindin.

Framhjá þessu samhengi geta jafnvel velviljuðustu menn ekki horft. Nýafstaðinn NATÓ fundur þar sem ofbeldi tyrkneska hersins á hendur Kúrdum var látið óátalið minnir okkur enn á hve fráleitt það er fyrir Ísland að halda sig innan dyra í þessu hernaðarbandalagi. Nær væri að standa utan þess að og tala máli mannréttinda. Það er betra hlutskipti og verðugra en hins þæga og þögla meðreiðarsveins.

En í lokin: Hvernig skyldu Íslendingar taka því ef þeir væru fangelsaðir fyrir það eitt að mæla á íslenska tungu? Þannig var það í Tyrklandi gangvart Kúrdum þar til friðarferlið hófst fyrir tveimur árum. Nú er aftur sprengt. Að þessu sinni með sérstakri blessun NATÓ og allra þeirra ríkja sem þar eru innanborðs. 

  

Fréttabréf