ÍSLAND Í TAUMI ESB OG NATÓ

ól

Það góða við Svíþjóð Olafs Palmes var ekki síst hve sjálfstæðri utanríkisstefnu Svíar fylgdu. Hún var ekki alltaf hafin yfir gagnrýni. Því fer fjarri. Þannig stunduðu Svíar grimma vopnasölu víðs vegar um heim og voru viðtakendur sænska morðstálsins ekki alltaf af betri sortinni.

En Svíar gagnrýndu stórveldin óhikað - austrið fyrir yfirgang út á við og mannréttindabrot heima fyrir, vestrið fyrir árásargjarna og ofbeldisfulla heimsvaldastefnu einsog hún birtist okkur til dæmis í Víetnamstríðinu. 

Rödd Palmes og félaga var rödd mannréttinda, alltaf sem ferskur andsveipur í heimi staðlaðra heimsstjórnmála, þar sem hver fylgdi sínu stórveldi jafn örugglega og rófan fylgir hundinum.

Svo fóru Svíar í Evrópusambandið og þar með þagnaði sú rödd, enda reynir ESB að fylgja samræmdri stefnu í utanríkismálum.

Ég hef alltaf átt mér þann draum að Ísland gæti orðið eins og Svíþjóð á dögum Palme. Sjálfstætt og alltaf á forsendum mannréttinda fyrst og fremst en ekki hagsmuna- og hernaðarhagsmuna stórvelda.

Ísland er í NATÓ illu heilli og hefði mér ekki komið á óvart þótt íslensk stjórnvöld fylgdu línu hernaðarbandalagsins í Úkraínu sem annars staðar. En gerandinn í Úkraínu af hálfu vestrænna ríkja hefur ekki fyrst og fremst verið NATÓ sem slíkt ( þótt vissulega hafi það komið mjög við sögu) heldur Bandaríkin og Evrópusambandið og hefur reyndar mörgum komið á óvart hve harðdrægt ESB hefur verið í Úkraínuátökunum.

Og hver skyldi svo hafa staðið í stafni jafnan þegar refsiaðgerðir gegn Rússum bar á góma á þeim bænum annar en utanríkisráðherra Íslands, hinn sami og nú hefur áhyggjur af því að Ísland verði látið gjalda afstöðu sinnar af Rússlands hálfu. Ég hélt að áhyggjuefnið hefði verið að Ísland fengi ekki að vera með í undirbúningi hins nýja kalda stríðs og taka fullan þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum! Fundarferðir utanríkisráðherra til Kænugarðs með embættismönnum Evrópusambandsins - utanríkisráðherrar ESB ríkja voru fáir eins tíðir gestir og sá íslenski! - vöktu athygli allra þeirra sem fylgdust með atburðarásinni austur þar.

Þvingunaraðgerðir gegn Rússum eru skiljanlegar þegar stórveldahagsmunir eru annars vegar þótt mörgum hafi komið á óvart hve hart Bandaríkin og vestanverð Evrópa hafa gengið fram gegn Rússum. Það er ekki vegna mannréttindabrota af hálfu Rússa - þar er að vísu af nógu að taka -  heldur ásælni vestursins austur á bóginn. Annað er yfirvarp. Innlimun Krímskagans í Rússland  hefur verið helsta yfirvarpið og gildir þá einu þótt vitað sé að íbúar Krím hafa alls ekki viljað heyra undir Kænugarð og fremur horft til Rússlands í því efni.

Sagnfræðingar eiga eftir að furða sig á því hve langt Bandaríkin, Evrópusambandið og NATÓ - öll þessi spyrða -  hafa gengið í afskiptum af innanríkismálum í Úkraínu allt frá því að Viktor Yanukovych, löglega kjörnum forseta, var steypt af stóli með þeirra fulltingi í byrjun árs 2014. Beinar sannanir eru fyrir því að þessir aðilar voru þar gerendur.

Íslendingar eiga vissulega að gagnrýna Rússa - og ekki veitir af á ýmsum sviðum -  en það á að gerast á forsendum mannréttinda ekki hagsmuna Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og NATÓ. Íslendingar eiga að hætta að vera litli hvutti. 

Um þetta hef ég skrifað hér á síðunni og víðar og eru hér nokkrar slóðir:
http://ogmundur.is/allar-greinar/nr/7460/ 
http://ogmundur.is/umheimur/nr/7218/  
http://ogmundur.is/umheimur/nr/7178/
http://ogmundur.is/allar-greinar/nr/7091/ 

Fréttabréf