SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN TALI SKÝRAR UM EINKAVÆÐINGARÁFORM SÍN Birtist í Morgunblaðinu 10.08.15.

Óli Björn Kárason' varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur
tekið að sér að skýra og eftir atvikum verja stefnu flokks síns í
heilbrigðismálum. Það er krefjandi viðfangsefni og greinilega ekki
alltaf auðvelt. Í nýjustu grein sinni beinir Óli Björn, sem oftar,
orðum til mín og hreyfir hann nokkrum atriðum sem verðskulda
málefnalega umræðu.
Í greininni þarf að venju að komast í gegnum all miklar pólitískar
umbúðir til að eygja hin málefnalegu rök höfundar. Hin illa
"velferðarstjórn", sem stýrði landinu á síðasta
kjörtímabili, er hrakyrt og rækilega undirstrikað hve mikið hefði
verið skorið niður í heilbrigðismálum í ráðherratíð minni. Ekki
deili ég um þetta og hef ég sjálfur margoft farið í gegnum tölfræði
ríkisútgjaldanna í kjölfar efnahagshrunsins. Satt best að segja
veit ég ekki til hvaða lesenda varaþingmaðurinn er að reyna að
höfða því ekkert af þessu er nýtt og kemur umræðuefni okkar um
skipulag heilbrigðisþjónustunnar ekki við, að öðru leyti en því að
hinn mikli niðurskurður eftirhrunsáranna reyndist
heilbrigðiskerfinu erfiður og dýrkeyptur og eru þó engan veginn öll
kurl komin til grafar.
Þegar veikleikar skapa tækifæri
Ef til vill er varasamasta arfleifð þessa tíma veikleikinn sem
er að finna víða í kerfinu vegna niðurskurðar og aðhalds. Við
slíkar aðstæður sjá boðendur einkalausna "tækifæri" í
stöðunni eins og Sigríður Á Andersen, þingmaður
Sjálfstæðisflokksins, hefur opið og kinnroðalaust bent á. Hún á lof
skilið fyrir að standa keik fyrir málstað sínum að þessu leyti í
stað þess að setja hann í feluliti eins og þeim hættir til að gera
sem eru meðvitaðir um hve umdeilt það er í þjóðfélaginu að innleiða
markaðslögmál í heilbrigðiskerfinu.
Í þessari nýjustu grein sinni vísar Óli Björn sigri hrósandi á
línurit sem sýnir að framlag til sjúkrahúsanna hefur verið að
aukast eftir því sem fjær dregur hruninu. Það er vel og væri
vissulega óskandi að við gætum sameinast um það, hvar í flokki sem
við stöndum, að veita meira fjármagni til heilbrigðiskerfisins en
nú er gert.
Það sem deilt er um
Reyndar skil ég það svo að ágreiningurinn snúist ekki um það
markmið heldur hitt hvernig fjármunirnir verði best nýttir og á
hvaða forsendum kerfið eigi að þjóna samfélaginu; þeim sem þurfa að
leita til heilbrigðisþjónustunnar og síðan hvað komi þeim best sem
borga brúsann. Þá skiptir og grundvallarmáli í hvaða vasa
peningarnir renna. Fyrirvarar mismunandi skoðanafylkinga um framlög
til heilbrigðismála, ráðast af þessu.
Þannig er ég þess til dæmis ekki fýsandi að borga mína skattpeninga
til þess að "fjárfestar á velferðarsviði" eins og þeir eru
kallaðir, geti makað krókinn. Þetta finnst markaðssinnum hins
vegar ekki að þurfi að vera frágangssök enda trúa þeir því að
kerfið verði afkastameira og stytti biðraðir. Ég efast stórlega um
að sú yrði raunin en legg áherslu á að allt þetta þurfum við að
ræða málefnalega ef við viljum veita þessari umræðu inn í gjöfulan
farveg.
Dugar skammt að fullyrða
Þá verða Óli Björn og félagar líka að taka sig á, því
fullyrðingar um að allt verði betra fyrir tilstilli markaðslausna
duga skammt. Þannig þyrfti Óli Björn að skilgreina með
raunverulegum reynsludæmum og með hliðsjón af veruleikanum hver
innistæða er að baki þeim bakföllum sem hann tekur yfir meintu
skilningsleysi andstæðinga sinna: "Hér skal játað að
mér er það óskiljanlegt af hverju Ögmundur Jónasson og
skoðanabræður hans berjast gegn því að nýta kosti einkarekstrar í
heilbrigðisþjónustu. Engu virðist skipta þótt takmarkaðir fjármunir
ríkissjóðs geti nýst betur og að þjónustan við landsmenn eflist,
líkt og dæmin sanna. Andstaðan við einkaframtakið á sér svo djúpar
rætur í huga Ögmundar að engu skiptir þótt allir séu betur settir
en áður; landsmenn (sjúklingar) sem fá betri þjónustu,
heilbrigðisstarfsfólk sem fær möguleika til að verða eigin herrar
og eignast fjölbreyttari tækifæri til vinnu og ríkissjóður
(skattgreiðendur) sem fær meira fyrir þá fjármuni sem lagðir eru í
heilbrigðismál."
Fjármagn fylgi sjúklingi
Áður en vikið er að einhverjum þessara fullyrðinga - aðrar kalla
á ítarlegri umfjöllum svo sem um meint frelsi og sjálfræði almennra
starfsmanna á einkareknum heilbrigðisstofnunum, því ekki verða þar
allir sjálfs sín herrar! - þá vil ég fara nokkrum orðum um
grundvallaratriði sem Óli Björn hreyfir við og varðar leiðir til að
tryggja markvissa ráðstöfun fjármuna í heilbrigðiskerfinu. Það
tengist svo aftur framgangreindri framsetningu um ágæti
einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.
Samandregið þá telur Óli Björn affarasælast að láta fjármagn fylgja
sjúklingi. Hann telur að þar með væri stuðlað að því að peningar
rynnu þangað sem þeirra er helst þörf og væri auk þess
afkastahvetjandi fyrirkomulag. Stofnanir legðu sig betur fram um að
veita tiltekna þjónustu til að ná í fjármagn og allir högnuðust
fyrir vikið. Þetta kann að vera rétt svo langt sem það nær.
Þeir sem stjórna framboði stýra för
En þarna er líka til staðar hættan á að einstakar stofnanir fari
að stýra áherslum í þróun heilbrigðiskerfisins. Og með tilkomu
fjárfesta sem hefðu auga fyrir því hvernig hraðvirkast væri að mala
gullið, yrði framboð á þjónustu samkvæmt slíkum útreikningum.
Ef fjármunir væru ótakmarkaðir kynni þetta að ganga, en það eru
þeir ekki! Þess vegna er þörf á að byggja framþróun kerfisins á
yfirvegaðri heildarsýn. Svipuð umræða kom upp í kjölfar stofnunar
einkaháskóla sem lögum samkvæmt höfðu sjálfkrafa tilkall ofan í
buddur okkar skattgreiðenda að því tilskyldu að þeir uppfylltu
tiltekin skilyrði. Auðvitað var velgengni þeirra háð eftirspurn
námsmanna og var hún því ákveðinn varnagli. Sá nagli hélt hins
vegar ekki þegar stefnumótun var annars vegar um þróun
menntakerfisins og ráðstöfun á takmörkuðum fjármunum.
Eiga læknar að keppa á grundvelli verðlags?
Herða mætti á eftirspurnarþættinum með því að tengja hann fjárhag
notenda. Þegar örendi skattgreiðenda þryti ættu sjúklingar þess
kost að greiða úr eigin vasa. Slíkt yrði hins vegar fráhvarf frá
þeirri meginhugsun sem við höfum byggt á, nefnilega þeirri að ef
læknar á annað borð eru þátttakendur í almenna
sjúkratryggingakerfinu þá skuli þeir vera það alla leið og ekki
heimilt að smyrja ofan á greiðslur frá sjúklingum umfram það sem
gert er ráð fyrir í niðurnjörvuðum samningum við hið
opinbera.
Á Alþingi hefur sú hugsun ítrekað komið fram að heimila skuli
læknum að keppast um sjúklinga á samkeppnismarkaði, bjóða upp á
tiltekna þjónustu á tilteknu verði sem þá tæki mið af framboði og
eftirspurn. Mér leikur forvitni á að vita hvort
Sjálfstæðisflokkurinn vilji heimila slíkt eins og sumir þingmenn
hafa talað fyrir á Alþingi. Talsmenn flokksins á borð við Óla Björn
Kárason hafa ekki talað skýrt að þessu leyti. Þörf er á því að þeir
geri það svo við vitum nákvæmlega hvert förinni er heitið.
Kostnaðarsöm yfirbygging
Gríðarlega mikilvægt era ð taka þessa umræðu nú áður en fjárfestar taka til sín stefnumótunarvaldið. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til að brjóta til mergjar reynslu annarra þjóða. Hvað það varðar að fjármagn fylgi sjúklingi, þá mun það til dæmis vera reynsla margra nágrannaþjóða eða svæða innan þeirra, að slík kerfi krefjist mikillar yfirbyggingar ef þessi leið á að ganga upp. Þá má ætla að sú yfirbygging, sem greiðandinn yrði að koma upp, væri hlutfallslega stærri þar sem einingar eru litlar, eins og hjá okkur hér á landi.
Útboð heilsugæslunnar
Útboð á heilsuþjónustu er annað form sem rætt hefur verið og
praktíserað - að bjóða út þjónustu til heilsugæslu- og
þjónustustöðva. Sannfærandi er að ná megi hagstæðum kjörum á
upphafsstigi slíks ferlis en mér er það ráðgáta hvernig þetta gæti
tryggt hag skattgreiðenda þegar horft er til langs tíma. Þegar búið
er að koma þjónustunni í hendur stórra eininga á ég erfitt með að
sjá að aftur verði snúið og efnt til raunverulegs útboðs,
einfaldlega vegna þess að aðrar einingar eru ólíklegar til að
verða settar á laggirnar til þess að keppa við fyrri
samningshafa.
Útboð á tilteknum læknisverkum hafa einnig verið rædd. Þar kann
eitt að gilda um þéttbýli og annað um dreifbýli. Það væri fráleitt
að rústa góðri þjónustu úti á landi í anda útboðs, og halda svo að
hún sé tilbúin að taka við aftur ef útboðstakinn af einhverjum
ástæðum gengur úr skaftinu.
Aftur hér þarf að tala skýrar.