Fara í efni

EVRÓPSKUR FLÓTTAMANNAPASSI?

Flóttamenn -
Flóttamenn -

Á fundi flóttamannanefndar Evrópuráðsins, sem ég nú sit  í París, er sú sprenging sem á sér stað í flóttamannastraumnum frá stríðshrjáðum ríkum til umræðu og rædd af meiri þunga og tilfinningum en ég man eftir. Fulltrúar suðrænu Evrópu-þjóðanna sem eiga land að Miðjarðarhafinu vilja að norðrið opni betur landamæri sín fyrir flóttafólki  þótt almennt sé  tekið ofan fyrir Þjóðverjum og Svíum hvað þetta varðar. En öll ríki verði að axla vandann og þá hugsanlega með einhvers konar kvótareglu. Þetta er í samræmi við tillögur sem eru að koma fram hjá Evrópusambandinu að skylda aðildarríki sambandsins - og EES ríkin einnig, þarmeð Ísland - til að taka tiltekinn fjölda flóttamanna til sín.

Þingmaður  frá Tékklandi talaði um nauðsyn þess að greina betur á milli almennra fólksflutninga - fólk í leit að betra lífi - og hinna sem eru að flýja stríð.  Margir tóku undir þetta. Þörf væri á endurskilgreiningum á öllu regluverkinu.

Þetta er ekki einfalt viðfangsefni. Hugurinn leitar aftur í tímann, þegar Íslendingar flúðu til Vesturheims í stórum hópum fyrir rúmri öld á flótta undan hungurvofunni sem hafís og kuldi höfðu vakið upp hér á landi.

Mikið var rætt um Dyflinnar samkomulagið - sem byggir á þeirri grunnhugsun að fjallað sé um umsókn hvers flóttamanns í aðeins einu ríki í senn og að það ríki sé fyrsta viðkomuríki flóttamannsins  innan Schengen svæðisins (svæðisins sem gert hefur samkomulag um sameiginlega passaskoðun).

Þetta hefur haft það í för með sér að uppi með þunga flóttamanna-vandans sitja einkum  ríkin við Miðjarðarhafið, en um það fara flóttamenn á bátskriflum eða landleið um ríki í suðausturhluta Evrópu á leið sinni til hinnar fyrirheitnu Evrópu.

Sunnanmenn segja að ef ríki á norðlægari slóðum ákveði ekki að taka við miklum fjölda verði vandinn í Suður-Evrópu óleysanlegur. Dyflinarsamningurinn og Schengen  hafi aldrei verið hugsuð sem tæki til að dreifa byrðum heldur fyrst og fremst til að koma á sameiginlegum stöðlum og auðvelda för innan Evrópu. Núverandi flóttamannavandi hafi ekki verið fyrirséður af núverandi stærðargráðu.

Í framhaldi af þessari hugsun er nú komin fram sú tillaga að búið verði til hugtakið „Evrópuflóttamaður".

Það þýddi að hafi eitt ríki tekið á móti einstaklingi sem flóttamanni skuli sá eða sú eiga kröfu  á að  öll ríki Evrópusambandisns ( óljóst hvort tillagan tekur aðeins til Schengen-ríkja) taki  við viðkomandi kjósi hann það.

Þarna eru með öðrum orðum komnar fram tvær hugmyndir um að dreifa byrðum: a) Kvótaskipting á einhverjum forsendum, til dæmis með hliðsjón af fólksfjölda og  b) Opnun inn í alla Evrópu með tilkomu flóttamannapassa. Yfir þessari tillögu voru margir hugsi og ljóst að hún mun fá mikla umræðu á komandi þingi Evrópuráðsins í Strasbourg nú í haust.

Eins og gefur að skilja er þessi tillaga ákaft studd af suðlægari hluta Evrópu en þó viðurkenna allir að þetta gæti unnið gegn skipulegri lausn vandans og að á endanum yrðu örfá ríki undir farginu, það er þau sem flóttamönnum þættu eftirsóknarverðust.

Á fundinn kom fulltrúi Evrópska þróunarbankans og greindi frá stuðningi við margvísleg verkefni sem tengjast flóttamannavandanum.

Þá var hlýtt á fulltrúa frá mannréttindsamtökum flytja hrikalega skýrslu um Gaza svæðið sem er hluti af hersetinni  Palestínu og í reynd fangabúðir Ísraelsríkis því Palestínumennirnir sem búa á Gaza eru ekki frjálsir ferða sinna og strangt eftirlit með því hverjir megi koma og hverjir megi  fara eða hvaða varning heimilt sé að flytja inn á svæðið.

Ástandið á Gaza er herfilegt, algengara að hafa ekki vinnu en að hafa vinnu og yfirgnæfandi hluti yngra fólks án vinnu. Annað er eftir því. Andrúmsloftið á Gaza gerir tvennt í senn, skapar vonleysi og treystir öfgamenn í sessi.

Ábyrgð Ísraels-stjórnar og þeirra ríkja sem styðja við bakið á henni er ekki lítil.

Á fundinum voru fulltrúar Ísraels og Palestínu. Til umhugsunar er sú staðhæfing Palestínumannsins að kannanir bentu til þess að yrðu landamæri Gaza opnuð myndi helmingur íbúanna vilja flytja úr landi og þá að öllum líkindum norður á bóginn, til Evrópu.

Það er nefnilega samhengi á milli yfirgangs og ofbeldis annars vegar og flóttamanna-vandans hins vegar.

NATÓ, BNA og ESB,  skiljið þið það?

(Myndin sem fylgir þessum pistli er fengin úr  frétt í breska blaðinu Guardian: http://www.theguardian.com/world/2014/feb/26/queue-food-syria-yarmouk-camp-desperation-refugees)