Fara í efni

FRÁBÆR VIÐTALSÞÁTTUR VIÐ AUSTIN MITCHELL

Austin og Bogi
Austin og Bogi

Sjónvarpið á lof skilið fyrir frábæran viðtalsþátt Boga Ágústssonar við breska stjórnmálamanninn Austin Mitchell en hann var þingmaður Verkamannaflokksins 1977 til 2015.

Mitchell var einn þekktasti sjónvarpsfréttamaður Bretlands áður en hann settist á þing fyrir Grimsby og hefur alla tíð verið þekktur úr eldlínu breskrar stjórnmálaumræðu.

Austin Mitchell vann það afrek að þjóna kjördæmi sem hafði reitt sig á útgerð á Íslandsmiðum, njóta þar víðtæks stuðnings sjómanna og verkamanna en jafnframt vinsemdar og virðingar á Íslandi, allt þetta þrátt fyrir arfleifð harðvítugra þorskastríða.

Í þættinum skýrði  Mitchell að hann hefði beitt sér fyrir því að landsmenn sínir horfðust í augu við nýjan veruleika og gerðu sitt besta til að tryggja breska hagsmuni og þá sérstaklega hagsmuni Grimsby  á grunni breyttra forsendna. þetta hefði tekist.

Í haust sæmdi forseti Íslands Austin Mitchell fálkaorðunni  fyrir framlag sitt til góðra samskipta Íslands og Bretlands en um árabil var hann formaður nefndrar í breska þinginu sem hafði samskipti Bretlands og Íslands undir sinni hlíf - eins konar Íslandsvinanefnd þingsins.

Bogi Ágústsson stýrði þættinum frábærlega vel enda þaulkunnugur breskum stjórnmálum og einn reyndasti sjónvarpsmaður okkar.  Sjónvarpið gerði vel að fela Boga reglulega  þáttagerð af þessu tagi og tryggja honum til þess tíma og fjármuni.

Þátturinn er hér:  

http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/vidtalid/20151208