GJALDÞROT ECA ER ÞÖRF ÁMINNING

ECA 2

Eyjan greinir frá því að ECA Program Iceland hafi verið úrskurðað gjaldþrota.

ECA Program Iceland var dótturfyrirtæki hollenska fyrirtækisins ECA, sem leitaði til íslenskra stjórnvalda árið 2009 í því skyni að byggja upp herþjálfunarbúðir á Keflavíkurflugvelli. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu að á vegum þess yrðu fluttar til landsins allt að 30 orrustuvélar frá Hvíta-Rússlandi sem leigja átti erlendum flugherjum NATO-ríkja til heræfinga. Fjárfestingin var sögð geta numið tvö hundruð milljörðum.

Eyjan minnir réttilega á að þetta hafi verið fyrsta úrlausnarefni sem beið mín þegar ég varð ráðherra að nýju haustið 2010. Þá hafi forveri minn í ráðherraembætti verið búinn að fela Flugmálastjórn að ganga frá málinu enda mikill þrýstingur bæði frá sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum og stjórnmálamönnum innan sem utan ríkisstjórnarinnar að svo skyldi gert.

Sjálfur var ég alla tíð andvígur málinu og taldi aldrei annað koma til greina en hafna þessari málaleitan. Um væri að ræða vafasamt hernaðarbrask og auk þess margt óljóst um aðstandendur þessa verkefnis.

Ég get upplýst að á fyrri stigum mun hafa verið velvilji gagnvart þessari ráðagerð frá aðilum sem tengdust NATÓ en eftir því sem á leið varð ég var við efasemdir úr þeirri átt.

Þrýstingur innan úr NATÓ kann að hafa að einhverju leyti skýrt áfergjuna í að fá þessa "fjárfesta" hingað til lands en mestu hygg ég að hafi valdið von um auðfenginn gróða.

Þetta hefur löngum verið veikleiki landans: Að gína við gylliboðum. Þegar glyttir í gullið er það segin saga að allri dómgreind er vikið til hliðar í hugum æði margra og verður þá allt falt. Kínverski auðkýfingurinn Núbó er gott dæmi um þetta en þau eru fleiri. Stórskipahöfn í Finnafirði er sennilega hættulegasta ruglið nú um stundir.

Nú sjá flestir nekt Núbós og ECA sjónhverfingarnar hljóta nú endanlega að vera öllum ljósar.

ECA er ágæt áminning um annað: Mikilvægi þess að hafa hér vakandi fjölmiðla. Fréttaskýringar Eyjunnar um þetta mál á sínum tíma voru sérstaklega vandaðar. Því miður eigum við því alltof sjaldan að venjast að fjölmiðlar sýni þá árvekni og fagmennsku sem þar kom fram. Þetta þarf hins vegar að verða reglan fremur en undantekningin hjá íslenskum fjölmiðlum.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/12/30/fyrirtaeki-sem-hugdi-a-hernadarbrolt-her-a-landi-gjaldthrota-frettskyring-eyjunnar-rifjud-upp/  

Fréttabréf