Fara í efni

SPURT ER

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.01.16.
Ef í ljós kæmi í þjóðaratkvæðagreiðslu eða fram kæmu sannfærandi vísbendingar í skoðanakönnunum, að tiltekið lagafrumvarp stríddi gegn meirihlutavilja þjóðarinnar, öll almannasamtök sem tjáðu sig um frumvarpið væru því andvíg, fagaðilar og sérfræðingar vöruðu við því, það kæmi óvéfengjanlega til með að bitna á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum, það myndi koma illa við neytendur í verðlagi og vöruúrvali -  hvað mynduð þið kalla það ágætir lesendur ef um helmingur þingmanna tæki sig til við slíkar aðstæður og ákvæði að virða lýðræðislegan vilja að vettugi, hunsa þá sem hefðu mesta þekkingu á málinu, blása á allar rannsóknarskýrslur og lögfesta frumvarpið?

Ég gleymdi einu: Blása á samþykkta stefnu í lýðheilsumálum sem bæði síðasta ríkisstjórn og sú sem nú situr hafa samþykkt.

Að sjálfsögðu er ég að tala um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi og kveður á um að lögfesta bann við því að ríkið annist áfengissölu eins og nú er gert í ÁTVR verslunum ríkisins. Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að færa þessa verslun inn í matvöruverslanir landsins.  

Fáir véfengja að dreifingarmátinn í nýju fyrirkomulagi yrði kostnaðarsamari og myndi skila sér í hærra verðlagi. Hátt verðlag á áfengi er til komið vegna áfengisgjalda, óháð söluaðilum. Héldust þessi gjöld óbreytt eftir að Bónus, Hagkaup og Krónan væru komin með áfengið í sínar hillur þá myndi áfengisverðið hækka til að mæta dýrari dreifingarmáta og að sjálfsögðu verða mismunandi eftir því hvar væri á landinu. Enda áfengi einsog „hver önnur vara", svo vitnað sé í aðstandendur frumvarpsins.

Ríkið hefur eins og sakir standa beinan hagnað af sölunni sem er þó aðeins brotabrot af tilkostnaði ríkisins við að glíma við afleiðingar áfengisneyslu. Það er eftir þessum peningum sem stóru verslunarkeðjurnar eru að slægjast.

Athygli vekur að nær allir umsagnaraðilar um frumvarpið eru því andvígir nema þeir sem sjá í því peningalegan ávinning fyrir sig!  

Ekki hef ég séð álit Neytendasamtakanna en þau hljóta að horfa til áhrifanna sem breytt fyrirkomulag hefði á verðlag og síðan vöruúrval. Á báðum póstum fellur nýja frumvarpið á prófinu!

Þingmaður sem ég átti orðastað við sagðist ætla að styðja frumvarpið þrátt fyrir að hann væri sannfærður um að það myndi leiða til aukinnar áfengisneyslu að færa söluna inn í almennar matvöruverslanir og virkja þar með markaðslögmálin sem þar ráða. „Ég vil bara að hver og einn taki ábyrgð á sjálfum sér," sagði þessi ágæti þingmaður.

En nákvæmlega það erum við að gera, taka ábyrgð sem einstaklingar. Við gerum það með því að virða lýðheilsusjónarmið, hlusta á forvarnar-og æskulýðssamtök og þær starfsstéttir sem best þekkja til og síðan  á rödd skynseminnar innra með okkur, er það ekki nákvæmlega svona sem farið er að því að axla ábyrgð?

Og þá aftur að spurningunni. Ef meirihluti landsmanna er þessarar skoðunar og ÖLL samtök sem láta sig málið varða ráðleggja á sama veg, hvað köllum við það þá þegar þessi vilji er hunsaður af örfáum einstaklingum á Alþingi?

Svari hver fyrir sig.