Fara í efni

SAMFÉLAGSLAUN GEGN VELFERÐARGREIÐSLUM

Pírata - lógó -2
Pírata - lógó -2

Píratar hafa sett fram tillögu sem umvafin er talsverðum umbúðum um að athugað verði hvort rétt sé að greiða öllum þegnum þessa lands samfélagslaun. Svipaðar tillögur hafa komið fram víða erlendis, á þjóðþingum, í bæjarfélögum og á fjölþjóðlegum vettvangi.

Fannst tillagan góð þar til ég heyrði forsendurnar

Mér fannst þetta góð tillaga þar til ég heyrði hugsunina að baki. Alla vega gekk tillagan sem fram hefur komið á vettvangi þings Evrópuráðsins út á að afnema allt millifærslukerfið, hvort sem er í almannatryggingum eða í barnabótum, húsnæðisstuðningi eða öðru. Í tillögunni sem nú er til umræðu í félagsmálanefnd þings Evrópuráðsins, segir að með því að afnema velferðarmillfærslur megi draga úr skrifræði,  á ensku segir um þetta að afnám „social benefits by the single basic income would significantly simplify the procedure for receiving benefits and would reduce the size of buraucracy." Síðan segir að þetta gæti aldrei orðið mjög há greiðsla, sem tryggði velsæld, eða aftur yfir á ensku „would not suffice for a confortable day-to-day life". Þess vegna myndu menn ekki tapa hvatanum til að vinna. Ég spyr, hverjir, öryrkjar, barnafólk?

Fjölmiðlar fjalli rækilega um málið!

 Fjölmiðlar mættu gera okkur þann greiða að kafa ofan í þetta mál í stað þess að fjalla um það á yfirborðskenndan hátt.
Fréttablaðið reið á vaðið nýlega og tengdi tillögu Pírata á Alþingi fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss í sumar um 320 þúsund króna samfélagslaun þar í landi þingmáli Pírata: Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem svipar til þeirrar sem fer í atkvæðagreiðslu í Sviss. Tillagan býður ekki upp á útfærslu heldur er félagsmálaráðherra falið að útfæra hugmyndina." (Fréttablaðið 8. febrúar)
Leiðarahöfundur blaðsins hafði áður sagt að tillagan væri mjög frumleg!: „Píratar hafa lagt til nokkur athyglisverð og frumleg stefnumál, til dæmis hugmyndina um borgaralaun." (Fréttablaðið 30. janúar)

Hvernig má gera jöfnunarkerfið réttlátara?

Frumleg er hugmyndin reyndar ekki samkvæmt fyrrnefndri frétt blaðsins þar sem vísað er í svissneska dæmið svo og tilraunir í þessa veru í Bandaríkjunum. Og sem áður segir eru flokkar á svipuðu hugmyndaróli og Píratar víða að tefla þessari hugmynd fram og er framangreind tillaga hjá Evrópuráðinu af þeim meiði.
Ég hvet Fréttablaðið til frekari umfjöllunar og kafa þá dýpra.
Þessi umræða býður nefnilega upp á umræðu um hlutskipti tekjulægsta hluta samfélagsins og hvernig megi bæta stöðu hans, hvernig megi tryggja fólki óskertar atvinnuleysisbætur, jafnvel þótt það geti tímabundið aflað einhverra tekna og að sama gildi um öryrkjann sem sætir skerðingum ef hann gerir tilraun til tekjuöflunar.

Á einstaklingurinn að borga eða samfélagið?

Þetta býður líka upp á umræðu um einkaneyslu og samfélagslegan farveg fjármagnisins. Hvert eigi að beina fjármagninu sem skattheimta og aðrar ríkistekjur færa okkur. Viljum við draga úr samneyslu og auka einkaneyslu og þar með ábyrgð einstaklingsins á heilsuleysi sínu! Þann kost þekkja Bandaríkjamenn vel.

Tillaga Pírata verður ekki alvöru fyrr en útfærð

Látum hugmyndir um samfélagslaun verða okkur tilefni til að taka þessa grundvallarumræðu. En yfirborðsleg má hún ekki verða. Þannig gætu orðið til varasöm kosningamál.     
Píratar segjast vilja að menn setjist yfir hugmyndina um samfélagslaun. Gerum það fyrir alla muni. En Píratar verða þá líka að horfast í augu við að  tillaga þeirra er engin alvöru tillaga fyrr en hún byggir á alvöru útfærslu. Annars er hún bara: Við leggjum til að allir hafi það miklu betra.  
Ég fjallaði nýlega um samfélagslaun í eftirfarandi pistli í helgarblaði Morgunblaðsins: https://www.ogmundur.is/is/greinar/viljum-vid-samfelagslaun