ICESAVE OG ÓFÆRÐ RÆDD Í WESTMINSTER

Breska þingið 2

Í síðustu viku heimsóttum við þrír þingmenn, Þórunn Egilsdóttir, Össur Skarphéðinsson og ég, undir forystu Einars K. Guðfinnssonar forseta Alþingis, breska þingið í Lundúnum og þing Wales í Cardiff.

Þetta var boðsferð af hálfu Breta sem hafði tvíþætt markmið: Endurgjalda góðar viðtökur breskra þingmanna undanfarin ár en allar götur frá árinu 2008 hefur Íslandsnefnd breska þingsins sótt okkur heim. Hefur þeim jafnan verið afar vel tekið þótt heimsóknirnar hafi verið óformlegar. Mun þetta boð til Íslendinga vera hugsað á þann veg að hér eftir verði tengslin í formlegri farvegi en til þessa.

Í annan stað var greinilegt að Bretum er í mun að færa samskipti Íslands og Bretlands í vinsamlegan farveg eftir Icesave deiluna. Fleiri en einn gestgjafa okkar sögðu það gott vera að hún væri nú að baki en tóku jafnframt fram að við tiltekna stjórnmálamenn og ráðamenn hefði verið að sakast um hvernig haldið var á málum gagnvart Íslendingum en ekki breska þingið í heild sinni.

Við áttum viðræður við þingmenn úr öllum pólitískum fylkingum, þar á meðal við Jeremy Corbyn, nýjan leiðtoga Verkamannaflokksins og John McDonnell, skugga fjármálaráðherra Verkamannnaflokksins  en báða hafði ég hitt á ráðstefnu í London í nóvember 2008 og tekið þar þátt í umræðu, m.a. um Icesave.
http://ogmundur.is/stjornmal/nr/4256/

Mál málanna nú í umræðu manna á milli er náttúrlega fyrirhugaðar kosningar um aðild Breta að Evrópusambandinu. Innan Íhaldsflokksins sérstaklega er titringur vegna klofnings um málið þar á bæ. Aðrir flokkar vilja almennt áframhaldandi aðild. Svo er spurningin hvað kjósendur gera. Þess eru mörg dæmi við svipaðar aðstæður að meirihluti myndist gegni vija "stofnanaveldisins" og gæti það gerst nú þótt almennt væri mat viðmælenda okkar að áframhaldandi aðild verið samþykkt.

Fróðlegt var að heimsækja welska þingið sem stofnað var undir aldarlok og er því nánast enn í vöggu. Athygli vakti hve framsækið það virtist vera í öllu sem laut að upplýsingastreymi og gagnsæi í vinnubrögðum.

Eitt áttu nánast ALLIR viðmælendur okkar sameiginlegt og það var að hafa horft á Ófærð, eða Trapped eins og sjónvarps sería Baltasars heitir á ensku. Luku allir upp lofsorði á sjónvarpsþættina. Hef ég grun um þetta þýði nokkra tugi þúsunda breskra ferðamanna í sumar!

Sjá nánar: http://www.althingi.is/althjodastarf/tilkynningar/fundir-forseta-althingis-i-lundunum-og-wales

    

   

Fréttabréf