Fara í efni

GEYSIR OG HUGARFARIÐ

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.04.16.
Þetta er sérkennileg fyrirsögn sem þarfnast útskýringar. Tilvísunin er ekki til Geysis í Haukadal, heldur til Klúbbsins Geysis sem tengist Fountain House hreyfingunni, sjálfshjálparhreyfingu, sem upphaflega spratt upp í New York, og hafði að markmiði að virkja fólk, sem átti við geðræna sjúkdóma að stríða, til atvinnuþátttöku eða náms, samhliða endurhæfingu.

Undir síðustu aldamót fluttu nokkrir eldhugar þessar hugmyndir hingað til lands, og er skemmst frá því að segja að nú er svo komið að félagar í Klúbbnum Geysi eru á fimmta hundrað og fer fjölgandi.  Boðið er upp á atvinnuúrræði og aðstoð við að komast í nám við hæfi en jafnframt er haldið úti öflugu félagsstarfi þar sem félagar fá hvatningu og stuðning til að ná sér á strik eftir veikindi.
Til marks um árangurinn má nefna að nú munu 44% félaga vera í vinnu eða námi!

Eins og jafnan gerist í öllu frumkvöðlastarfi þurfti hugsjónafólk, eldheitt í andanum, til að ryðja brautina. Þar var á ferðinni fólk sem sjálft þekkti geðsjúkdóma af eigin raun, og aðstandendur, en í fararbroddi stóðu iðjuþjálfar sem kunnu að laga hina erlendu hugmynd að íslenskum veruleika. Ég hef það fyrir satt að gæfa Klúbbsins Geysis hafi síðan verið að þangað hafi jafnan valist til starfa og þátttöku jákvætt fólk sem knúið er áfram af ríkri hugsjón.

Nú sýnist mér þetta vera að endurtaka sig á öðrum vettvangi, nefnilega á meðal fólks sem orðið hefur fyrir heilaskaða. Það sem þessar tvær sjálfshjálparhreyfingar eiga sammerkt er að vilja rjúfa einangrun fólks og efla það í hvívetna með félagslegri virkni.

Fyrir fáeinum vikum gengu á fund allra þingflokka tvær ungar konur til að kynna stjórnmálamönnum félagið Hugarfar og hugmyndir sem uppi væru þar á bæ að koma á fót svokölluðu Höfuðhúsi, að danskri og breskri fyrirmynd, fyrir fólk sem orðið hefði fyrir heilaskaða eins og hent hefði þær sjálfar. Markmiðið væri að tengja saman fólk með sambærilega reynslu og verða jafnframt hvati að framþróun á þessu sviði.

Báðar höfðu þessar konur lent í bílslysi og hlotið af alvarlegan heilaskaða. Þær skýrðu fyrir okkur hvernig fólk sem yrði fyrir slíkum áföllum bæri það ekki utan á sér. Það sæist ekki þótt hluti heilans yrði óvirkur, sjónin skert, lyktarskynið horfið, minnið ekki sem áður, skert samskiptahæfni og viðvarandi þreyta. Jafnvel verstar væru þó persónuleikabreytingarnar.

Þær lýstu ævintýralegum árangri sem mætti ná með markvissum úrræðum og var meðal annars vísað til meðferðar á Reykjalundi. Slík úrræði hefðu síðan verið skorin niður við nögl í kjölfar hrunsins og stæðum við öllum okkar samanburðarþjóðum langt að baki á þessu sviði.lækninga og endurhæfingar.

Hugarfar þótti mér í fyrstu undarlegt heiti á félaginu. Samkvæmt minni málviltund væri hugtakið lýsandi um viðhorf, jafnvel sálarástand, fremur en um stofnun eða félag. En eftir því sem ég kynnti mér málefnið nánar fannst mér nafnið betra. Hugarfarið skiptir nefnilega öllu máli þegar einstaklingur stendur frammi fyrir því nánast ofurmannlega verkefni að læra að lifa lífinu upp á nýtt.

Og hugarfarið í samfélaginu skiptir líka máli þegar á okkar fund koma einstaklingar færandi áríðandi boðskap. Skellum við  skollaeyrum við slíkum boðskap eða ákveðum við að leggja okkar af mörkum til að lagaðar verði brotalamir sem eru - sem betur fer - oftast ekki verri en svo að þær má bæta og laga?
En þá þarf líka að gera það!