Fara í efni

VILJUM VIÐ VERA VÉL?

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 17/18.09.16.
Margir virðast þrá að fá að lifa eftir reglustriku. Miðstýrð hugsun Evrópusambandsins svarar þessu ákalli fullkomlega því samkvæmt þeirri hugsun er öllu „mér finnst" og „mig langar"  og „væri þetta ekki skynsamlegt og eftirsóknarvert" vikið til hliðar fyrir einni reglu sem öllum beri að hlýða. Og til að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvaða regla eigi við hverju sinni, þá eru kvaddir til sérstakir „fagmenn" til að segja okkur hvernig eigi að reka þjóðfélagið upp á punkt og prik.
Nú berast þær fréttir að reglumeistarar í Brüssel hafi fundið það út að óheimilt sé að banna innflutning á hráum eggjum til Íslands og viti menn, fram spretta einstaklingar sem taka þessu fagnandi og krefjast úrbóta þegar í stað!
Virðist þá engu máli skipta þótt ekki finnist salmonellulbakteríur í einu einasta eggi í íslenskri búðarhillu en eru hins vegar morandi í þeim ríkjum sem hingað vilja selja egg. Vissulega mun vera hægt að sjóða salmonelluna til dauðs og öðrum bakteríusjúkdómum er hægt að halda niðri með lyfjagjöf. Enda er það óspart gert þar sem plágur geisa.
Staðreyndin er náttúrlega sú, og það segja okkur sérfræðingar af allt annarri tegund en fyrrnefndir reglugerðafræðingar, að ástæðan fyrir því að matareitranir eru ekki eins tíðar hér á landi og annars staðar, sé sú, að við búum yfir bústofnum sem eru sjúkdómafrírri. Þar af leiðandi er matvaran heilnæmari og veldur síður kvillum.
Er þá hættulegt að borða í útlöndum? Svona spyrja reglumeistarar gjarnan, gagnrýnendum sínum til háðungar, eða hvort hættulegt sé að flytja inn matvöru erlendis frá? Svarið hygg ég vera á þá lund að allt sé þetta spurning um líkindi, því  meiri innflutningur, þeim mun meiri líkur á smiti. Auðvitað hafa þjóðirnar lifað af sjúkdóma í matvöru, en þá með tilheyrandi kveisum eða þá lyfjagjöf.
Spurningin er hins vegar  hvort okkur finnist ekki rétt að reyna að varðveita þá auðlind sem heilnæm matvara óneitanlega er; og hvort okkur finnist ekki eftirsóknarvert að setja ofan í börnin okkar fæðu sem heilnæmust er, hvort okkur langi ekki til að hafa það þannig?
Eða langar okkur kannski til að vera vél; hætta að hafa skoðun, láta slíkt reglusmiðum eftir?
Þessa dagana hafa forystumenn allra launaþegahreyfinganna og atvinnurekendasamtaka, einkarekinna og opinberra, ferðast víða um lönd til að sannfærast um að rétt sé að útrýma kjarabaráttunni og vélvæða allar ákvarðanir um laun. Vinnuheiti þessara áforma er SALEK. Þegar SALEK verði að raunveruleika, er vonast til að öll verkföll verði úr sögunni enda verði nú allt ákveðið af fagmönnum á miðstýrðu borði.
Talsmenn atvinnurekenda, með úttroðin prívatveskin sín, eru spenntir og fjármálaráðherra telur að hér með verði vandi allra fjármálaráðherra úr sögunni - engin verkföll framar enda allur mannskapurinn hlekkjaður og blóðlaus í þokkabót eins og vélar náttúrlega eru.
Svo fýsandi eru opinberir starfsmenn að fá aðgang að vélrænum kauphækkunum, að þeir bjóðast til að semja niður lífeyrisréttindi - að vísu ekki sín eigin - heldur þeirra sem á eftir koma.
Þetta var reynt á níunda áratug síðustu aldar en var afstýrt á síðustu stundu. Fyrir vikið tókst að stórbæta lífeyriskjörin og ýmis önnur réttindi. Það kostaði baráttu, marga fundi með miklu af „mér finnst" og  „mig langar". Þannig var kúrsinum breytt, með svita og ólgandi blóði. Það hefði vél aldrei gert.
En viljum við vera vél?