BRETAR ÁFORMA AUGLÝSINGABANN Á SPILAVÍTI

Spilavandi 2

Í Bretalandi er nú unnið að löggjöf sem leggur bann við auglýsingum spilavíta og er ekki annað að skilja á frétt breska stórblaðsins Times en að bannið komi til með að taka til hvers kyns veðbanka, spilavítisvéla (á borð við þær sem Háskóli Íslands,  Landsbjörg og fleiri, reka hér á landi) og netspilafyrirtækjanna.

Hið fyrirhugaða bann á aðeins að gilda yfir daginn en síðan megi auglýsa þegar ætla megi að ungviðið sé gengið til náða. Hvers vegna? Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi er spilfíkn að færast óhugnanlega í vöxt hjá ungu fólki. Hin ástæðan er sú að spilamarkaðurinn gerist nú stöðugt ágengari og þá einkum gagnvart börnum og ungu fólki.

Samkvæmt Times hafa auglýsingar spilavítanna aukist um 1400 % - FJÓRTÁN HUNDRUÐ PRÓSENT - á milli áranna 2005 og 2014.

Þetta þýðir tvennt. Eftir einhverju er að slægjast! Auglýsingarnar skila árangri, þær borga sig.  Þess vegna kemur ekki á óvart að spilafíkn skuli vera að  færast í aukana. Þetta þýðir líka að fjölmiðlar og íþróttahreyfingin, sem lætur íþróttamenn hlaupa um með auglýsingar fyrir spilafyrirtækin, hagnast gríðarlega! Og af því leiðir síðan að þessir aðilar sem ég hef stundum sagt að séu á sinn hátt spilafíklar, altént háðir spilafíkninni, berjast nú um á hæl og hnakka gegn auglýsingabanni.

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra var hlynntur takmörkunum við auglýsingar en George Osborne, fjármálaráðherra í stjórn hans kom í veg fyrir áformin og upplýsir Times að fjölskylda Osborne hagnist um tugi milljóna sterlingspunda, 48 milljóna  - um sjö og hálfan milljarð íslenskra króna á þessum iðnaði. Þannig að alls staðar má finna fyrir hagsmunatengslum. Margir geta hlaðið sér utan á þessa gjöfulu spena því ætlað er að Bretar hafi tapað um 17 milljörðum punda í spilavélum og sé það aðeins helmingur af því fjármagni sem iðnaðurinn hafi af þeim.

Óhugnanlegast þykir mörgum hve ágeng þessi gróðaöfl eru á samfélagsmiðlunum. Þar nái þau til unglinga og auk þess segir Times að ungt fólk sem fylgist með íþróttahetjum sínum á netinu, sé sjálfkrafa komið með netspilafyrirtækin inn í tölvur sínar. Þar sé þeim í framhaldinu vísað á hve auðvelt sé að hagnast vel í veðspilum!

Hið rétta er hins vegar að það er spilaiðnaðurinn sem hagnast og síðan allir þeir sem nærast utan á honum. Þannig er það í Bretlandi og þannig er það líka hér.  

Fréttabréf