Fara í efni

FRÁSÖGN AF ÞINGI EVRÓPURÁÐSINS Í STRASBOURG

Evrópuráðið - 8
Evrópuráðið - 8

Fréttin
frá ársfjórðungsþingi Evrópuráðsins sem ég sat fyrir hönd Alþingis í Strasbourg í síðustu viku, þótti mér vera ákall þeirrar nefndar þingsins sem fjallar um félagsmál, að Evrópusambandið skrifi að sinni ekki undir CETA samninginn (Comprehensive Economic Trade Agreement) við Kanada: http://assembly.coe.int/nw/xml/News/News-View-EN.asp?newsid=6375&lang=2&cat=133    

Markaðsvæðingarsamningar

Þessi samningur er úr sömu „fjölskyldu" og Tisa og TTips markaðsvæðingarsamningarnir sem oft hefur verið fjallað um á þessari síðu, en þessir samningar byggja á tilraunum ríkustu þjóða heims (þar á meðal Íslands) að fara á bak við fátækustu ríkin sem ekki vildu samþykkja GATS fríverslunarsamningana en stilla þeim síðarnefndu síðan upp við vegg gagnvart gerðum hlut. Undirskrift CETA er fyrirhuguð á næstu dögum.
CETA samningurinn skiptir Íslendinga máli því allt sem hefur áhrif á innri markað Evrópusambandsins hefur áhrif hér á landi fyrr eða síðar. Annað er, að þegar CETA hefur verið samþykkt ef svo illa fer, það er að segja, þá eykst þrýstingurinn á að aðrir svipaðir samningar verði kláraðir.
Um Tisa hef ég oft skrifað bæði í blöð og hér á síðunni sem áður segir, auk þess sem ég hef margoft tekið málið upp á þingi.  Sjá m.a. hér:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa-leynisamningar-um-aukid-gagnsaei
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-akvedur-hvad-samid-er-um-i-tisa-vidraedum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/islendingar-segi-sig-fra-tisa-vidraedum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa-a-althingi-mikilvaegar-yfirlysingar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/thannig-skilgreinr-utanrikisraduneytid-frelsi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa
https://www.ogmundur.is/is/greinar/attac-stendur-vaktina

Leynihreiðrin víðar en í Karíbahafinu

Markverð þótti mér umræðan um skattaskjól og leynihreiður fyrir peninga.
Skýrslan sem var til umræðu hafði að geyma ýmsar merkilegar upplýsingar sem gagnlegt er að hafa í farteskinu. Í höfuðdráttum gengu tillögur skýrslunnar út á það, að stuðlað verði að alþjóðlegu samstarfi til að uppræta skattaundanskot, peningaþvætti og felustaði fyrir peninga. Tvíhliða samningar ríkja nægðu ekki, að mati skýrsluhöfundar, Austurríkismannsins Stefans Schennachs; þörf værí á fjölþjóðlegri aðkomu að þessum málum. Ég tók mjög eindregið undir þetta sjónarmið með skýrsluhöfundi í mínu máli á þinginu og minnti á að leynihreiðrin væru víðar en í Karíbahafi. City of London væri til dæmis alræmd að þessu leyti. Fyrir þá sem hafa áhuga á, er hægt að kynna sér efni skýrslunnar hér, en því miður ekki á íslensku: http://assembly.coe.int/nw/xml/XRef/Xref-XML2HTML-en.asp?fileid=23018&lang=en

Reynt að koma í veg fyrir umræðu um staðgöngumæðrun

Sú umræða sem kynnti mest upp í tilfinningum á þinginu að þessu sinni var umræða um staðgöngumæðrun. Skýrsla þar að lútandi hefur verði í smíðum í langan tíma en hefur mætt ofsafengnum viðbrögðum, einkum af hálfu þeirra sem ég get ekki kallað annað en hægri öfgamenn frá austanverðri álfunni en þeir náðu prýðilega saman við kaþólska hægri menn frá Írlandi. Einhver femínismi var þarna á ferðinni líka en í litlum skammti þó og allt annarri i rót.
Af hálfu skýrsluhöfundar, Petru de Sutter, belgísks læknis,  gekk málið út á að skapa lagalega umgjörð til varnar og stuðnings börnum sem fædd væru af staðgöngumóður, jafnframt því sem undanbragðalaust yrði lagst gegn því að leyfð yrði staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Frá því er skemmst að segja að breytingartillögur bornar fram af  andstæðingum skýrslunnar voru felldar en skýrslan sjálf náði hins vegar ekki fram að ganga því hún fékk ekki tilskilinn 2/3 stuðning; náði meira að segja ekki helmingi greiddra atkvæða. Fyrir mér féll þingið og Evrópuráðið á prófinu í þessu máli, sem í mínum huga snerist orðið eingöngu um hvort leyfa ætti umræðu um málið og að ekki væri veist að fólki með öndverðar skoðanir við eigin sjónarmið. Þessa afstöðu lét ég koma fram við umræðuna.

Börn verða fórnarlömb þrælasala

Nokkrar skýrslur voru um stöðu flóttamanna og hælisleitenda, þar á meðal barna, en ótrúlegur fjöldi barna er á vergangi innan um aðra flóttamenn, án fjölskyldu eða vandamanna. Þessi börn eru auðveld bráð þrælasala, sem iðulega hremma þau og selja í ánauð, til þrælkunarvinnu eða í kynlífsmisnotkun. Ég tók þátt í afgreiðslu málsins fyrir hönd félagsmálanefndar þingsins en málefnið var á forræði hennar en þó fyrst og fremst flóttamannanefndar og ábyrgðarmaður skýrslunnar úr þeirri nefnd, Di Stefano að nafni, ítalskur þingmaður: http://assembly.coe.int/nw/xml/News/News-View-EN.asp?newsid=6373&lang=2&cat=8 .

 

Skýrsla um verkalýðshreyfingu og ójöfnuð

Í félagsmálanefndinni hélt ég áfram að þróa vinnslu skýrslu minnar um samhengið á milli dvínandi áhrifa verkalýðshreyfingar og vaxandi misskiptingar í flestum aðildarríkjum Evrópurráðsins. Skýrslan kemur að nýju fyrir á nefndarfundi í lok nóvember og verður að öllum líkindum tekin til atkvæðagreiðslu á janúarþingi Evrópuráðsins. Hver kemur til með að tala fyrir málinu þar er óvíst þar sem ég verð þá ekki lengur einn af fulltrúum Íslands. Heimild er þó fyrir því að þingmenn sem láta af störfum fylgi málum sínum til lykta.

Undarlegur flokkahópur hægri manna!

Úkraína var til umræðu og einkenndi óbilgirni og ofsi umræðuna. Þingmenn sem eiga bakland í fasískum öflum í austanverðri álfunni stöppuðu og börðu í borð, að hætti fasista,  þegar hreyft var sjónarmiðum sem þeim líkaði ekki. Hið aumkunarverða er náttúrlega að þarna fara aðilar af ekki óskyldu sauðahúsi og Pútin og félagar þótt forlögin hafi skipað þeim í öndverðar fylkingar þessa dagana.  Allur þessi mannskapur á sæti í flokkahópi Sjálfstæðisflokksins á þingi Evrópuráðsins, sem þó segir að sjálfsögðu  ekki neitt um pólitískt innræti Sjálfsæðisflokksins! Það minnir okkur á hve undarlegur og mótsagnakenndur heimurinn getur verið.
Eftir Úkraínu umræðuna á þinginu er ég sannast sagna að nýju orðinn efins um að Rússar komi aftur inn í Evrópuráðið í janúar eins og vonir höfðu staðið til. Almennt sjá menn eftir því að hafa vísað þeim á dyr um árið því árangurinn af þeirri brottvísun er enginn sjáanlegur og líta nú sífellt fleiri svo á, að nálægð við viðræðuborð sé líklegri til árangurs en svívirðingar landa á milli.

Tyrkneska stjórnin versta hryðjuverkaaflið?

Tyrkland var rætt og þótti mér umræðan hvorki uppbyggileg né sannfærandi af hálfu formælenda Erdogan-stjórnarinnar í Ankara. Einkenndist hún af flótta frá veruleikanum. Biðlað var um stuðning í baráttu tyrkneskra stjórnvalda gegn hryðjuverkum. Sjálf eru tyrknesk stjórnvöld að mínu mati versti hryðjuverkaógnavaldurinn.
Enginn véfengir rétt tyrkneskra stjórnvalda til að beita sér gegn hryðjuverkum heldur hvernig þau bera sig að. Utanríkisráðherra Tyrklands, sem ávarpaði þingið, sagði að aðgerðir stjórnvalda beindust eingöngu að „Gulenhópnum" sem sagður er hafa staðið að valdaránstilrauninni í júlí.
Þetta væru helber ósannindi sögðu hins vegar tyrkneskir þingmenn úr röðum Kúrda og minntu á ofbeldisaðgerðir sem staðið hefðu gegn Kúrdum í hálft annað ár.

Ofsóknir gegn Kúrdum

Eftir valdaránstilraunina í sumar  hefði verið enn hert á ofbeldinu af hálfu stjórnvalda. Hafi hundrað og þrjátíu þúsund opinberir starfsmenn verið reknir, ellefu þúsund kúrdneskir kennarar hafi verið hraktir úr starfi, rúmlega þrjú þúsund dómarar og saksóknarar hafi misst embætti sín, sextíu lýðræðislega kjörnir bæjarstjórar í byggðum Kúrda verið reknir frá völdum og að minnsta kosti í tuttugu tilvikum fulltrúar ríkisstjórnarinnar settir í embætti í þeirra stað; aðeins í þessari viku hafi hundrað og áttatíu starfsmenn HDP flokks Kúrda verið teknir höndum og stjórnarherinn ráðist inn í skrifstofur flokksins í Diyarbakir, eins konar höfðuborg Kúrda í suðausturhluta Tyrklands (nokkuð sem hreyfði við mér því inni á þessum skrifstofum hef ég verið og kynnst þar sérlega alúðlegu fólki) ; mörg hundruð fjölmiðlum hefði verið lokað, meira að segja sjónvarpsstöð, vinsæl meðal Kúrda, sem útvarpaði eingöngu teiknimyndum fyrir börn, hafi verið lokað ... svona hélt upptalningin áfram.
Áður hafði ég hlýtt á kúrdneska fjölmiðlamenn lýsa áhyggjum yfir því að verið væri að loka útvarps- og sjónvarpsstöðvum Kúrda í Evrópu og væri það á meðal annars gert með því að slökkva á rásum Eutelsatt sjónvarpsgervihnattarins.
Þetta láta Evrópuþjóðirnar viðgangast!

Aldrei horft gagnrýnið í eigin barm

Fleiri stjórnmálaleiðtogar ávörpuðu þingið, þeirra á meðal Frakklandsforseti og utanríkisráðherra Þýskalands. Fátt nýtt kom fram í þeirra tali annað en að minna okkur á hve fjarri það virðist ráðamönnum gamalla nýlenduvelda að horfa gagnrýnið í eigin barm.


Hleypa þarf nýju lífi í mannréttindastarf Evrópu

Spennandi verður að fylgjast með umræðu sem hófst á síðasta ári um að reynt verði að blása nýju lífi í samstarf Evrópuríkja á sviði mannréttindamála með nýjum leiðtogafundi sem þá yrði hinn fjórði í sögu Evrópuráðsins. Þar kæmu saman fulltrúar allra aðildarríkjanna 47, auk fulltrúa þings Evrópuráðsins til að ráða ráðum sínum. Fyrsti slíki fundurinn var haldinn í Vínarborg árið 1993, annar árið 1997 í Strasbourg og svo árið 2005 í Varsjá í Póllandi.
Á öllum fundunum hafa verið stigin stór og afgerandi skref fram á við. Vonandi tekst það nú að nýju. Evrópa þarf svo sannarlega á því að halda og ber Íslandi að leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið.
Sjá nánar: http://assembly.coe.int/nw/xml/News/News-View-EN.asp?newsid=6361&lang=2&cat=8