BJÖRNEBANDEN MÓTMÆLIR !!!

Björnebanden

Ákvörðun Kajararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands með heljarstökki hefur vakið mikil viðbrögð, sem eru þó af ólíkum rótum runnin.

1) Sumum finnst ákvörðun Kjararáðs - og held ég reyndar að þetta sé hin almenna skoðun - í hæsta máta ósanngjörn í ljósi þeirra kjara sem búin eru lágtekjufólki og þeim sem hafa lífsframfæri sitt einvörðungu frá almannatryggingum. Með öðrum orðum, fólk er óánægt og meira en það, arfareitt yfir því að kjarabilið verði aukið.

2) Aðrir eru reiðir yfir því að aðrir skuli vera gerðir reiðir. Telja að ákvörðun Kjararáðs valdi usla í þjóðfélaginu og eyðileggi áform um að handjárna launaþjóðina í svokölluðu SALEK samkomulagi. Ég er einn þeirra sem hef miklar efasemdir um þetta SALEK og óttast að þar með kæmi tæki til að tappa öllu blóði af launafólki og færa ákvarðanir um kaup og kjör frá vettvangi  almennrar kjarabaráttu og inn til fámenns hóps eins og gerst hefur á Norðurlöndum þar sem verkalýðshreyfingin er orðin nánast lífvana. Jú, jú, stöðugleiki, en ekki þar með aukinn launajöfnuður auk þess sem dregið yrði úr aðlögunarmöguleikum þjóðfélags í þróun. Ég þyrfti alla vega að sannfærast um að áform um jöfnuð væru raunhæf áður en ég gengist inn á þessa hugmynd. Og enn eitt - ég vildi gjarnan fá að sjá ofan í persónulegt kjaraumslag allra þeirra sem ákafast tala fyrir þessari aðferð. Og kemur þá að þriðja atriðinu, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði, sjálfum gerendunum í launamisrétti Íslands, sem í gær bættust í kór mótmælenda.

3) Kjararáð segist vera að færa kjör umræddra hópa til samræmis við þróun í þjóðfélaginu. Og hver er sú þróun? Hana sjáum við birtast okkur á hverjum degi í vaxandi bónusum og launaofurgreiðslum, þar á meðal til helstu skjólstæðinga Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs. Þar er fólk sem hefur látið sig hafa þá ósvinnu að setjast að samningaborði með fulltrúum láglaunafólks með þann einbeitta ásetning að koma í veg fyrir sanngjarnar kjarabætur því til handa. Þegar þetta sama fólk kemur nú saman til að mótmæla kjörum sem hálfdrættingum þeirra eru ætluð þá verður manni orðfall. Og þarf nokkuð til. Það sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð eiga að sjálfsögðu að gera er að beina orðum sínum til eigin félagsmanna - og helst fyrir framan spegil til að muna eftir því hver þau eru - og segja, er ekki komið mál að við, hinir eiginlegu gerendur misréttisins öxlum ábyrgð?

Fréttabréf