Fara í efni

EFTIRLITSRÍKIÐ SÆKIR Á

Eftirlitsríkið
Eftirlitsríkið

Fyrir nokkrum dögum samþykkti breska þingið lagafrumvarp, sem stórblaðið Guardian segir að gefi þarlendri leyniþjónustu og lögreglu víðtækari heimildir til eftirlits með borgurunum en dæmi séu um í vestrænum ríkjum, nánast án þess að heyrst hafi hósti eða stuna innan þings eða utan í mótmælaskyni. Mótmælin hafi varla verið annað og meira en til málamynda.

Þingbálkurinn sem breska þingið samþykkti sl. fimmtudag kallast lög um rannsóknarheimildir,"The Investigatory Powers Act", og lögleiðir hann alls kyns heimildir til handa öryggisþjónustunni til að brjótast inn í prívatlíf fólks og fullyrðir Guardian "að lengra hafi ekki verið gengið af hálfu nokkurs ríkis í Vestur-Evrópu, jafnvel í Bandaríkjunum."

Búist hafði verið við hörðum mótmælum og að draga þyrfti í land að einhverju leyti í meðförum þingsins, en sú hafi ekki orðið raunin.

Edward Snowden sendi eftirfarandi frá sér af þessu tilefni:  "The UK has just legalised the most extreme surveillance in the history of western democracy. It goes further than many autocracies, (Bretar hafa lögleitt rýmri heimildir til eftirlits en dæmi eru um í vestrænu lýðræðisríki.")

Þýskaland, sem á í sinni sögulegu arfleifð minningar af eftirliti austurþýsku öryggislögreglunnar STASI og nú síðast af njósna - og eftirlitskerfi Bandaríkjanna, sem tróð sér inn á gafl allra helstu ráðamanna Þýskalands, auk náttúrlega borgaranna almennt, lét sig nýlega hafa það að auka lagahemildir til njósna um almenna borgara í Þýskalandi.

Í greininni í Guardian, sem hér er byggt á, segir að í nýafstaðinni kosningabaráttu í Bandaríkjunum hafi Trump látið orð falla sem túlkuð hafi verið á þann veg, að hann telji eðlilegt að nýta upplýsingar, sem bandaríska leyniþjóðunstan afli, gegn pólitískum andstæðingum.

Lord Strasburger, fulltrúi Frjálslyndra demokrata í Lávarðadeild breska þingsins, sem einn fárra hefur beitt sér gegn framangreindum lagabreytingum, segir að ástæða sé til að kvíða þess dags að Bretar fái sinn Donald Trump. "Ef við endum uppi með hans líka, og það er vel mögulegt, þá erum við nú búin að fá honum í hendur tækin til að kúga."

Og Strasburger hélt áfram, og sagði á þá leið að hinn raunverulegi Donald Trump, vestan hafs, hafi þegar fengið í hendur allar þær upplýsingar sem breska leyniþjónustan aflar og af því ættum við að hafa áhyggjur!

Guardian segir að í reynd hafi aðferðirnar sem nú sé verið að lögleiða verið notaðar af hálfu lögreglu og leyniþjónustu, en fram til þessa hafi verið farið á bak við þingið og án lagastoðar sem nú sé fengin.

Sérstakur dómstóll, sem ætlað sé að fylgjast með lögmæti þess sem breska lögreglan og leyinþjónustan aðhafist, kvað nýlega upp úr um að í sautján ár hefði verið beitt aðferðum, sem á engan hátt gætu talist löglegar: https://www.theguardian.com/world/2016/oct/17/uk-security-agencies-unlawfully-collected-data-for-decade

Nýi lagabálkurinn auki vissulega heimildir lögreglu og leyniþjóðnustu. En hann setji þessar heimildir jafnframt upp á vinnsluborð stjórnmálanna. Þetta sjá margir sem jákvætt - reyndar það eina jákvæða við nýju lögin.

Sjá umfjöllun Guardian: https://www.theguardian.com/world/2016/nov/19/extreme-surveillance-becomes-uk-law-with-barely-a-whimper