Fara í efni

KENNING BRYNJARS UM RÆTNA VINSTRIMENN

Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson

Án efa fór það illa í marga bandaríska kjósendur þegar andstæðingar Donalds Trumps sögðu hann vera  fordómafullan heimskingja. Þetta getur hafa stappað stálinu í marga kjósandur sem töldu Trump segja sitthvað þeim að skapi.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hér uppi á Íslandi, telur ástæðu til að taka upp hanskann fyrir  hinn meinta heimskingja sem senn verður forseti Bandaríkjanna og stuðningsfólk hans.

Látum það vera. En Brynjar segir jafnframt það vera einkennandi um aðferðir vinstri manna að vera fordæmandi um innræti manna og gáfnafar. Þetta sé einskonar vinnuregla þeirra austanhafs og hafi nú komið berlega fram í nýafstöðnum kosningum vestanhafs. Þetta hafi hins vegar komið í bakið á hinum rætnu vinstrimönnum.
http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/11/09/brynjar-studningsmenn-hillary-toku-upp-olydraedislegar-adferdir-vinstri-manna/

Ég leyfi mér að efast um þessa kenningu enda er þetta hvorki vinstri sinnuð afstaða né hægri sinnuð, heldur einstaklingsbundin og óháð pólitískum skoðunum. Svo er hitt náttúrlega, að leitun er á stjórnmálamanni sem gengið hefur eins langt og Donald Trump í svívirðingatali um pólitíska andstæðinga sína.

Eftir stendur að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna verður varla kenndur við gáfulega hugsun né góðgjarna.

Hvað er hann þá?

Varla er ætlast til þess að við segjum að Donld Trump sé góðviljaður gáfumaður?

Svo Brynjar Níelsson sé látinn njóta sannmælis, þá er hann síður en svo að lýsa stuðningi við sjónarmið Donalds Trumps. Hann spyr meira að segja hvernig það geti gerst að maður með hans skoðanir verði forseti í þessu mikla lýðræðisríki.

En er það ekki svo, að þegar kjósendur veita manni af sauðahúsi Donalds Trumps stuðning sinn, þá hljóti það að teljast niðurlag fyrir  það sem við flest eru sammála um - óháð stjórnmálaskoðunum okkar - að teljist mannlegar dyggðir og  það sem best er í mannlegu eðli? Ég leyfi mér að segja að svo sé í ljósi margra yfirlýsinga þessa manns um menn og málefni. Og er það ekki þá líka stuðningur við hrokafulla heimsku?

Ef þetta er veruleikinn, er þá ekki í lagi - og meira en það - er það ekki beinlínis skylda okkar að segja umbúðalaust að svo sé? Við erum að tala um stjórnmál og stjórnmálaþróun. Við erum  ekki að tala um hvern sem er; við erum ekki að tala um mann sem langar til að fá að lifa í sátt við sjálfan sig, út af fyrir sig, með sína sannfæringu. Við erum að tala um einn valdamesta mann í heimi; einstakling sem milljónir manna hafa veitt umboð sitt til að þröngva sannfæringu sinni upp á okkur öll, heimsbyggðina alla, því Bandaríkin eru hernaðar-heimsveldi sem hagar sér sem slíkt og vill að ríki heims lúti vilja þess og þar með æðsta handhafa framkvæmdavaldsins þar á bæ.

Með umræðu um samfélag mannanna og hvaða reglur og viðmið skuli þar í heiðri höfð; gott og slæmt, rétt og rangt í mannheimum, höfum við þokað okkur út úr fordómamyrkri miðalda og inn í okkar samtíma með millilendingu í upplýsingu átjándu og nítjándu aldar. Að þessari umræðu aldanna búum við enn þann dag í dag.

Við höfum nú hins vegar verið minnt á að ekkert er í hendi og að baráttan fyrir vitibornu mannréttindasamfélagi er aldrei í höfn.