Fara í efni

SAMTAL Í FLUGVÉL

Dónald og Hillary II
Dónald og Hillary II

Vettvangur: Flugvél á leið frá Búkarest til Chisinau, höfuðborgar Moldóvu. Hlið við hlið sitja Íslendingur og Bandaríkjamaður, ungur tölvumaður frá Silicon Valley í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Íslendingur:
Það eru örlagaríkar kosningar í vændum í þínu heimalandi.

Bandaríkjamaður:
Já.

Íslendingur:
Úrslitin gætu orðið ógnvænleg (scary).

Bandaríkjamaður: J
á, ógnvænleg eða að þau muni hafa mikið skemmtigildi (entertaining).

Íslendingur:
Ha?

Bandaríkjamaður:
Það er „scary" ef Hillary Clinton vinnur, „entertaining" ef Donald Trump vinnur.
Hillary er nefnilega „manipulator" kerfisins, notar það og vefur um fingur sér í þágu ósvífinna fjármálaafla. Þar er hún sjálf á kafi. Svo er hún hernaðarhaukur og hættuleg sem slíkur.
Donald Trump er hins vegar auli, hefur sett fram svo ruglaðar og vitlausar hugmyndir að þær eru ekki til annars en að hlæja að þeim. Repúblikanaflokknum er reyndar ekki hlátur í huga en á þingi styður flokkurinn ekki Trump. Og þegar hann verður búinn að reyna sitt af hverju, allt meira og minna í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna, þá verður hann rekinn. Hann mun engu ná í gegn og verður „impeached within a year."

Íslendingur: Orðlaus en hugsi.

Eftirmáli: Íslendingur skrifar vinstrisinnuðum vini sínum vestan hafs, manni úr innsta hring Bernie Sanders og segir frá flugvélar-samtalinu, sem óneitanlega hafi orðið til að rifja sitthvað upp, fjármálahneyksli, afstöðu til stríðsreksturs fyrr og síðar og almenn stjórnmálaviðhorf Hillary Clintons. Hún sé fjarri því að vera eftirsóknarverður kostur. Donald Trump þurfi hins vegar vart að ræða. Þar sé ALLT í mínus. Vinurinn vestanhafs svarar: „Ég ætla að styðja Jill Stein, sem býður sig fram í nafni umhverfissinna. En þannig er, að við erum þar í sveit sett, búandi í Kaliforníu, að helmingi fleiri kjósendur styðja Clinton en Trump. Hún mun því vinna alla kjörmenn ríkisins. Þannig að engin hætta er á ferð!"

Íslendingur verður nú enn meira hugsi og flettir upp á upplýsingum um Jill Stein og aðra frambjóðendur, sem kunni að vera honum raunverulega að skapi, ekki bara skárri kostur af tveimur slæmum. Kemst að þeirri niðurstöðu að kjósa Jill Stein. En veit náttúrlega að hann hefur ekki kosningarétt. Þannig að engin hætta er á ferð!

En er þetta nógu gott?

Í bandarísku forsetakosningunum birtast veikleikar tveggja flokka kerfis.
Úrslitin verða „scary".
Þar get ég verið sammála sessunaut mínum í flugvélinni.
En undir engum kringumstæðum munu þau hafa skemmtigildi.
Þar get ég ekki verið honum sammála.