VANTAR ERR Í GAMMA

GAMMA 2

Gamalkunnur kórsöngur heyrist nú kyrjaður um kröfu til einkavæðingar almannaþjónustunnar.

Að þessu sinni er  forsöngvarinn fyrirtækið Gamma og sakna ég þess að hafa ekki r aftan á heitinu til að minna okkur á frekjufjárfesta sem vilja næra sig í öruggu umhverfi skattgreiðenda.

Þannig hefur okkur verið kynnt að "beggja vegna Atlantsála" bíði nú fjársetar þess að komast inn í íslenska samgöngu- og orkugeirann og að sjálfsögðu heilbrigðiskerfið - Landspítalinn er nefndur sérstaklega - ekki vegna þess að gróðavon sé endilega feiknamikil heldur megi ætla að gróðinn verði stöðugur.

Enda segir það sig sjálft að fólk verður stöðugt veikt og hafnar í heilbrigðiskerfinu, og sá sem getur komið sér þannig fyrir í því kerfi að veikindin færi honum arð, hlýtur að teljast vera í góðum málum.

Sama gildir um almenningssamgöngur. Fólk þarf að komast leiðar sinnar og vörur á markað. Sá sem næði frá okkur eignarhaldinu á höfnunum, flugvöllunum og vegakerfinu gæti séð fram á náðuga daga framvegis. Þetta vita menn að sjálfsögðu  beggja vegna Atlantsála.

Yfirleitt hefur Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins séð alfarið um þennan áróður en nú fá Gammar að spreyta sig og gera það óneitanlega nokkuð frumlega.
Til að áferðin sé fræðileg er birt "skýrsla" þar sem talað er um "uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum"(!) sem nemi 230 milljörðum króna. Og það er mat fyrirtækisns, er okkur fjálglega sagt í Viðskiptakálfi Fréttablaðsins "að á næstu sjö til tíu árum þurfi að fjárfesta í innviðum hér á landi fyrir hátt í 600 milljarða króna..." Heildarumfang mögulegra fjárfestinga sé 900 milljarðar.

Nú hljóta margir að fá vatn í munninn. Og viti menn, ætla má að á Alþingi hafi fjölgað í þeim hópi sem eru tilbúnir að þjóna þessum sjónarmiðum og syngja með í Gammakórnum. Við eigum eftir að fá að heyra að svarað verði hinni bráðu uppsöfnuðu þörf gammanna.

Sjá Viðskiptabalðið: http://www.vb.is/frettir/vantar-230-milljarda-i-innvidi-landsins/132753/

Fréttabréf