VIÐSKIPTARÁÐ VAKIR

Engill - viðskiptaráð

Eins konar millibilsástand er nú í stjórnmálunum. Kosningar nýafstaðnar og stjórnmálamenn þurrausnir af yfirlýsingum og fyrirheitum. Ný ríkisstjórn ekki kominn á koppinn og þar af leiðandi enginn stjórnarsáttmáli að rýna í. Bara getgátur um hver fari með hverjum.
En ein er sú móðir sam vakir. Og það er að sjálfsögðu Viðskiptaráð sem í dag sendi frá sér einkunnagjöf um frammistöðu síðustu ríkisstjórnar og síðan ráðleggingar til næstu stjórnar.

Bjarni er dúx

Hæstu einkunn í bekknum fær Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sem dúxar með fyrstu einkunn, +73!
Í einkunnakladda Bjarna segir að hann "ber(i) höfuð og herðar yfir aðra", svo mjög reyndar, að frumvörp "sem flutt voru af ráðherranum voru þannig jöfn heildaráhrifum allrar ríkisstjórnarinnar." Þetta er nú aldeilis til að gleðjast yfir.
Frá því er skemmst að segja að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru allir með plús í einkunnabók Viðskiptaráðs, að vísu ekkert til að monta sig af hjá öllum, en iðni og góð viðleitni eru engu að síður mikilvægar dyggðir.

Öskjuhlíð fyrir hina efnaminni

Þannig reyndi ferðamálaráðherrann að markaðsvæða aðgang að náttúrunni en náttúrupassinn hafi ekki verið rétta aðferðin. Eftir standi því markmiðið: "Frjáls gjaldtaka á ferðamannastöðum (sem) myndi skila mestum árangri þar sem hún dregur úr átroðningi á vinsælustu ferðamannastöðunum." Spennandi tilhugsun fyrir fátækt barnafólk að víkja fyrir auðmönnum við Herðubreiðarlindir, Gullfoss og Geysi?
Viðskiptaráð kann eflaust ráð við því þessu. Óþarfi að örvænta. Það mætti til dæmis alltaf ganga á Öskjuhlíðina og skoða gosbrunninn í Perlunni.
Margt annað er ógert að mati Viðskiptaráðs, svo sem að skerða kjör aldraðra með hækkun lífeyrisaldurs, þyngja endurgreiðslubyrði námslána og margt, margt spennandi meira.

Framsókn almennt í mínus

Utanríkisráðherra er eini Framsóknarráðherrann sem skríður yfir núllið án þess að ástæðan sé sérstaklega tilgreind, sennilega er það aðdáun Gunnars Braga á NATÓ sem veldur.
Versta útreið fær Eygló félags- og húsnæðismálaráðherra og þótti nú mörgum hún ganga óþægilega langt í tilraunum til að hafa geymslupláss og sólarljós af kjallaraíbúum með reglugerðum í þá veru. Ekki gekk það nú samt allt eftir sem betur fer og er það Viðskiptaráði greinilega harmsefni þótt við hin höfum mörg fagnað því og svo hinu sem ráðherrann gerði vel sem vissulega var margt.

Afleitur stuðningur vegna húsnæðis

En Viðskiptaráð er nú aldeilis ekki á þeim buxunum enda tróna húsnæðismálin efst á lista um þrjú verstu málin:  "Veigamestu frumvörp ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum fela öll í sér afturför: Leiðréttingin, hækkun húsaleigubóta, bygging leiguíbúða af hálfu hins opinbera og nýtt stuðningskerfi vegna kaupa á fyrstu íbúð. Við lögðumst gegn öllum þessum frumvörpum sem fela í sér stóraukin útgjöld hins opinbera ..."

Samvinnurekstur í mínus, sykurát í plús

Síðan er náttúrlega landbúnaðurinn. Stuðningur stjórnvalda við samvinnurekstur bænda þykir hin versta goðgá en minna fer fyrir gagnrýni á gjaldtöku verslunarinnar. Ég fékk ekki séð að á hana væri minnst einu orði.
En Viðskiptaráð sér ástæðu til að hrósa stjórninni fyrir að nýta völd sín vel. Auk losunar hafta er talað um að "Grettistaki (hafi verið) lyft í neyslusköttum."
Hér er væntanlega átt við fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að draga úr virðisaukaskatti á ferðaþjónustu til að laða fleiri ferðamenn til landsins eins og sagði í greinargerð frumvarps frá fyrirmyndarnemanum þar að lútandi vorið 2013.
Og svo er náttúrlega ástæða til að fagna afnámi sykurskattsins, sem ríkisstjórnin hrósaði sér af og muna án efa einhverjir eftir nákvæmum útskýringum hennar á því hve mikið afnám sykurskattsins lækkaði stóra kók í verði og hve ódýrara það yrði nú fyrir börnin að borða upp úr nammipokum.

Nú er hægt að aga heilsugæsluna að hætti AGS

Þá er Viðskiptaráð ánægt að Alþingi skuli hafa samþykkt hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um opinberan rekstur og að þar með verði hægt að takast á við "skort .. á aga" í velferðarkerfinu. Viðskiptaráð hvetur komandi ríkisstjórn til að "klára þær jákvæðu breytingartillögur sem ekki náðu fram að ganga á síðasta kjörtímabili. Jafnframt ætti að endurskoða nálgun stjórnvalda í húsnæðis- landbúnaðar og regluverksmálum."

Óskastjórnin

Það er nefnilega það. Hver skyldi nú vera óskasamsetning Viðskiptaráðs á ríkisstjórn?
Og hver skyldi vera óskastjórn okkar hinna sem ekki erum tilbúin að kaupa þennan pakka?

http://vi.is/malefnastarf/utgafa/skodanir/rikisstjornin/

Fréttabréf