Fara í efni

BREIÐFIRÐINGAKÓRINN SYNGUR OKKUR INN Í JÓLIN

Breiðfirsk jólalög 2
Breiðfirsk jólalög 2

Hjá mér hefjast jólin á tónleikum Breiðfirðingakórsins. Í kvöld söng hann í Fella- og Hólakirkju og var söngskráin í senn hátíðleg og skemmtileg, blanda af innlendum og erlendum lögum, gömlu og nýju. Sérstaklega hafði okkar ástsæla tónlistarmanni, Þorgeir Ástvaldssyni, verið boðið til tónleikanna í tilefni þess að kórinn flutti lag hans við ljóð Helgu Þorgilsdóttur, Velkomin jól. Það var vel við hæfi.

Síðan var þarna að sjálfsögðu á dagskránni Sigvldi Kaldalóns með lag sitt við ljóð Stefáns frá Hvítadal, Aðfangadagskvöld jóla - kirkjan ómar öll,  og margt margt fleira.

Stjórnandi kórsins var Julian Michael Hewlett, einsöngvari Alexandra Chernyshova en bæði áttu þau tónsmíðar á tónleikunum. Undirleik annaðist Renata Iván. Allt frábærir listamenn að ógleymdum sjálfum Breiðfirðingakórnum sem var uppá sitt besta.

Lokalagið var að sjálfsögðu Heims um ból Sveinbjörns Egilsssonar en hann samdi íslenska textann við undurfagurt lag Franz Gruber.

Þegar slökkt var í kirkjunni, áheyrendur stóðu upp og hættu að vera bara áheyrendur heldur líka þátttakendur í söngnum, kórfélagar kveiktu á kertum og hófu upp raust sína, þá fannst manni jólin vera komin.

Breiðfirðingakórnum, stjórnanda, einsöngvara og undirleikara (sem kallaður er meðleikari í dagskrá, kannski betra heiti?) þakka ég góða kvöldstund.