Fara í efni

VIÐ HÖFUM HLUSTANDA Á LÍNUNNI

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.12.17.
Rafrænar tækniframfarir eru með ólíkindum.
Í stað þess að standa í langri biðröð hjá bankagjaldkeranum, setjum við kort í vél sem síðan afhendir okkur peninga. Að ekki sé minnst á flugvellina. Þar fáum við nú farmiða í hendur á örskotsstundu með því að slá inn auðkennisstafi eða setja vegabréfið í afgreiðsluvél sem þá veit um leið allt um okkar ferðir. Og inn í brottfararsalinn værum við komin nokkrum mínútum síðar ef ekki þyrfti áður að ganga úr skugga um  hvort við kynnum að vera með of stóra tannkremstúpu í ferðatöskunni.

Svo er það náttúrlega símaþjónustan í stofnunum og stórfyrirtækjum. Þar er hægt að spara heilu mannárin með því að láta innhringjandann sjálfan  rekja sig stig af stigi inn á það þjónustusvið sem hann er að leita að og til þess starfsfólks sem hann að öllum líkindum á endanum þarf að ná sambandi við.  

Já, vel á minnst starfsfólk. Í þessum rafræna heimi er það oftar en ekki starfsfólkið, sem maður saknar - fólkið af holdi og blóði.

Einu sinni lokaðist ég inni í neðanjarðarlestakerfinu í París. Ég hafði týnt miðanum sem ég þurfti nú sárlega á að halda til að opna mannlaus járngrindarhliðin. Einhvern veginn komst ég þó út á endanum.

Á sama hátt kemur yfirleitt að því um síðir að maður kemst í samband við lifandi rödd. En oftar en ekki erum við þá búin að hlusta á spiladós segja okkur á hvaða takka við eigum að styðja ef við viljum fá upplýsingar um fyrirtæki og hver takkinn er ef um er að ræða einstaklinga eða hvort við erum að leita eftir upplýsingum um vélbúnað eða hugbúnað, og hvort við höfum ef til vill áhuga á að tala ensku ...

Svo er okkur stundum bent á að gera okkur lífið auðveldara með því að fara á heimasíðu fyrirtækisins eða stofnunarinnar og finna þar upplýsingarnar sem við kynnum að vera að sækjast eftir. Oft er þetta góð lausn en ótrúlega oft hefur öllum sérfræðingunum í samskiptatækni mistekist að gera upplýsingasíðurnar aðgengilegar.

Einn dagur nýlega var mér sérstaklega erfiður. Í upphafi dags þurfti ég að afla upplýsinga hjá opinberri stofnun. Nokkrum sinnum gafst ég upp á að bíða í símanum. Þá var ég búinn að hlusta á spiladós fara í gegnum alla þjónustumöguleika í boði og heyra ráðleggingar um heimasíðuna  og hvort ég væri enskumælandi. En það var ekki fyrr en mér var sagt að ég væri fimmtándi í röðinni að ég gafst upp og lagði á í þeirri von að röðin yrði styttri síðar. Það reyndist óskhyggja.

Ekki tók betra við hjá fjölmiðlarisa. Ég þurfti að eiga orðastað við tiltekinn starfsmann - og ef ég gæti ekki rætt við hann, þá nægði mér netfangið. Ég fann bara engan til að segja mér hvað það væri. Símanúmer fjölmiðilsins lá ekki á lausu, alla vega í fljótu bragði. Þar til skyndilega að það blasti við mér á heimasíðunni.

Ég varpaði öndinni léttar. Loksins kæmist ég í samband við fjölmiðlinn og þá vonandi alvöru lifandi rödd, ekki spiladós. Mér varð að ósk minni. Röddin var kunnugleg: „Við höfum hlustanda á línunni..."

Ég lagði á.
Gjörsigraður.