VEL HEPPNAÐUR FUNDUR - HVATT TIL FRAMHALDS

Iðnó-hádegisfundur 1
Hádegisfundurinn í Iðnó í gær var á marga lund vel heppnaður. Viðbrögðin voru á þann veg. Hann var vel sóttur, á annað hundrað manns og ágæt blanda af fólki, ungir og aldnir, úr ýmsum starfsstéttum og viðhorfin mismunandi.  

Hvort á að ráða fjármagnið eða lýðræðið?

Umræðuefnið var togstreitan á milli fjármagns og lýðræðis eins og hún birtist í alþjóðviðskiptasamningum - GATS; TISA; TTIP; TPP; CETA ... sem nú eru í bígerð. Á fundinum var gerð tilraun til að varpa ljósi á þessa samninga og skýra eðli þeirra. Yfirlýstur tilgangur var að skerpa á skilningi og örva umræðu. Ekki var gert ráð fyrir langri umræðu.

Rýnt ofan í rótina

Þarna var fyrst og fremst verið að kynda undir með því að rýna gagnrýnið ofan í rótina, taka málin til rótækrar og upplýstrar skoðunar.
Vandinn er sá að talsvert vantar upp á að fólk almennt geri sér grein fyrir hve örlagaríkir alþjóðlegu viðskiptasamningarnir sem nú eru á boðinu geta reynst fyrir lýðræðisþjóðfélagið í nútíð og framtíð.

Lýðræðið kemur öllum við

Markaðssinnar og samvinnumenn ættu ekki að láta afstöðu til þessara samninga verða að landamæralínu í átökum sín í milli;  á milli hægri og vinstri.
Menn geta verið markaðssinnaðir hægri menn án þess að vilja draga taum stórfyrirtækja og greiða götu heimsauðvaldsins að innviðum samfélaganna. Nákvæmlega þetta gera þessir samningar. Það er markmið þeirra.
Grunnþjónusta teljum við flest að eigi að lúta almannavilja og vera skipulögð á forsendum samfélagsins fremur en fjármagnsins.

Það er einmitt pólitíkin sem þarf að ræða!

Það breytir því ekki að átökin um þessa samninga eru pólitísk í eðli sínu - og í þeirri pólitík kemur hægri og vinstri svo sannarlega við sögu. En fyrst svo er, þá er eðlilegt að spyrja hvort ekki þurfi að ræða þá pólitík. Varla viljum við innleiða pólitíska stefnu án þess að hún sé rædd! En sá hefur einmitt verið vandinn að ríkin sem standa að þessum samningum hafa reynt að fara leynt með þá og þá aðeins látið eitthvað uppskátt að þeim hafi nánast verið þröngvað til þess. Þessu verður að breyta!

Dæmi af viðbrögðum fundarmanna

Mér hafa borist viðbrögð frá fólki sem sótti Iðnó-fundinn og eru þau á einn veg, mjög jákvæð.

 " ... Þetta var skemmtileg nýjung sem tókst mjög vel. Það er sem sagt ennþá hægt að boða til umræðufunda á Íslandi. Sennilega er þetta hin rétta uppskrift, einn hressilegur og vafningalaus klukkutími. Skemmtilegt var að sjá fólk af öllu litrófi mannlífsins og úr flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum. Ég hvet þig til að halda áfram að boða til svona funda ... "

"Takk fyrir sérlega velheppnaðan fund ... Formúlan gekk fullkomlega upp og "fremur leiðinlegu efni" komið til skila á lifandi og oft sláandi hátt. Vonandi að verði framhald á, raunar er ég með tillögu um fundarefni..."


"
Fínn fundur í dag, sleginn mikilvægur pólitískur tónn, mikilvægt að halda áfram, ..."

"Við feðgar þökkum prýðis fund þinn í Iðnó í hádeginu um brýnt efni. Þú varst skilmerkilegur og áheyrilegur ... ,,Dögun'' hefur einnig kynnt háskann við þrýsting ósvífins auðmagns inn í samfélög og lífsþætti, með því að villa á sér heimildir líkt og krabbamein gerir í mannslíkama og lífkerfum svo að ónæmiskerfið bregst ekki við sem skyldi ... Lýðræði kemur öllum við, líka hægrimönnnum, og allt sem þrengir kosti þess eins og þú sagðir svo greinilega á fundinum."

"... Mér líst vel á Iðnó sem fundarstað og einnig hádegisfundartímann en vel mætti bjóða þar upp á súpu fyrir fundinn frá kl. 11. 30 til 11.55. Það er gott að sitja við borð og skemmtilegt.  Þegar fjölga fer verulega á fundum væri hægt að bregða sér annað t.d í Norræna húsið."

Augljóslega framhald

Ljóst er af jákvæðum undirtektum að forsendur eru fyrir því að framhald verði á þessum fundum undir heitinu, Til róttækrar skoðunar. Það er nánast lífsnauðsyn að örva og skerpa á gagnrýnni hugsun í þjóðfélaginu.

Fundurinn var auglýstur nokkuð á samfélagsmiðlum og nokkrir fjölmiðlar sýndu honum áhuga, Bylgjan, Morgunblaðið, Eyjan og Viðskiptablaðið sbr. t.d..:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/01/11/ogmundur-hefur-syrpu-opinna-borgarafunda-eg-er-ekki-buinn-ad-gefa-upp-mina-politisku-ond/

http://vidskiptabladid.is/frettir/hardsviradasta-haegristjorn-sem-hefur-sest/134663/ 
Iðnó - hádegisfundur 2

Fréttabréf