Fara í efni

Á HLAUPABRETTI ÍSLENSKUNNAR

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.02.15.
Nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, lýsti því yfir fyrir skömmu að nú yrði kapp lagt á það af hálfu samtakanna að brjóta íslenskunni leið inn í hinn tölvuvædda og stafræna heim. Ég skildi það svo að krossferð væri í þann veginn að hefjast.

Og viti menn, í vikunni var blásið til sóknar. Tilefnið var svokallaður menntadagur SA. Mér var boðið og ákvað ég að mæta. Aldrei þessu vant því ekki hef ég verið tíður gestur á fundum samtaka atvinnurekenda.

Þetta var þrumufundur. Í tvo klukkutíma hlýddi troðfullur salur á hvert erindið á fætur öðru þar sem tvennt var sagt í senn, að viðfangsefnið væri illviðráðanlegt ef þá yfirleitt hægt væri að ráða við það, en svo einnig að menn væru staðráðnir í að gera sitt besta. Bjartsýnan baráttutón var að heyra úr Stjórnarráði, háskólum, atvinnulífi og frá ýmsum meisturum tungutaksins sem kallaðir voru á svið.

Allt var túlkað íslenskunni í vil. Íslenskumælandi menn væru ekki ýkja margir, en latínan sem lifði góðu lífi og enginn vildi feiga, væri þó enn smærri á mælistiku hins talaða orðs. Nákvæmlega enginn hefði latínu að móðiurmáli, og vita menn ekki, spurði Þórarinn Eldjárn og vitnaði m.a. til Sigurðar Pálssnar, skálds, sem á Degi íslenskrar tungu hafði sagt að í því væri fólginn styrkur að eiga að móðurmáli tungumál sem fáir töluðu; já, vita menn ekki, spurði Þórarinn að í hinu smáa getur verið fólginn styrkur. Menn legðu þeim mun meiri rækt við það sem þeir ættu gott en leituðu jafnframt inn í framandi lendur, og fyrir vikið opnuðust nýjar víddir og straumar víðs vegar að.

Sjálfur hef ég vikið að stærð smæðarinnar hér á þessum stað, í helgarblaði Morgunblaðsins, og þá jafnframt hve gagnlegt það getur verið að þurfa að hafa ögn fyrir hlutunum. Það ættu allir að geta skilið sem borga stórfé fyrir að fá að hlaupa á bretti án þess þó að færast úr stað. Áreynsla til hugar og handar færir okkur nefnilega úr stað þegar allt kemur til alls:

„Sagt hefur verið að hugsunin tengist tungumálinu, blæbrigðamunur tungumála feli í sér ólíka áferð hugsunar. Það getur verið kostur að þurfa að flytja sig á milli tungumála, einsog smáþjóðin þarf að gera. Það krefst umhugsunar um merkingu þess sem sagt er; hver sé munurinn á hugsun á einu máli og öðru. Þannig auðgar og frjóvgar margbreytileikinn og skerpir hugsun."

Sumir hafa lag á að segja hlutina á þann hátt að hreyfir við mönnum. Á fundinum góða hafði Þórarinn Eldjárn á takteinum öll rök sem hugsanlega er hægt að tefla fram íslenskunni til varnar og sóknar. Meira að segja „af því bara" var nefnt við fögnuð viðstaddra en þegar huldumeyjan var kölluð til vitnis skildi ég hve íslenskur salurinn var þrátt fyrir enskumælandi snjallsímana og stafrænuna alla sem flestir viðstaddra kunnu uppá tíu fingur.

Þórarinn var ekki kominn langt í Völuvísu Guðmundar Böðvarssonar þegar allir voru með á nótunum. „Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey, /enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín, /sögðu mér það álfarnir í Suðurey, /sögðu mér það dvergarnir í Norðurey, /sögðu mér það gullinmura og gleymmérei/ og gleymdu því ei: /að hefnist þeim er svíkur sína huldumey, /honum verður erfiður dauðinn."

Út af þessum ljóðlínum lagði Þórarinn með hárfínni blöndu af gamni og alvöru en salurinn hlustaði. Greinilegt var að þar inni ætlaði enginn að fara að deyja frá ókláruðu verki, hvað þá að lenda uppá kant við sína huldumey. Það gera menn ekki. Svo mikið skilja Íslendingar enn.