Fara í efni

Í FANGELSUNUM VAR KLAPPAÐ FYRIR ÍSLANDI

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Er í Tyrklandi þegar þetta birtist, í sendinefnd stjórnmálamanna, gamalreyndra fréttamanna, fræðimanna og baráttufólks fyrir mannréttindum.
Nefndin er kennd við Imrali en það er eyjan þar sem Öcalan, leiðtogi Kúrda, hefur verið fangi síðan 1999 og er nú í algerri einangrun. Krafan er að ná af honum tali  - og ef ekki, að fjölskylda hans og síðan lögfræðingar fái að ræða við hann. Þá viljum við eiga fund með dómsmálaráðherranum.
Imrali hópurinn talar máli friðarins en segir líkt og Mandela sagði á sinni tíð, þegar hann sat innilokaður  á Robin eyju undan strönd Suður-Afríku, að fyrst veiti maður andstæðingi sínum frelsi, síðan setjist maður að samningaborði og nái við hann samkomulagi sem frjálsum manni en ekki ófrjálsum.

Við höfum fengið að kynnast hrikalegri hryðjuverkum af hálfu tyrkneska ríkisins en mig hafði órað fyrir. Og ekki reyna að segja mér að það séu tveir sem deila. Þarna á sér nefnilega stað ríkisrekið ofbeldi af verstu gráðu. það er hins vegar rétt að svarað er með ofbeldi, þann ljóta leik sjáum við leikinn af Erdogan Tyrklandsforseta. Hann nærir hið illa hjá andstæðingi sínum til þess síðan að efna til krossferðar gegn honum í þágu hins góða. Og inní vítahringin erum við komin.
Tyrland - B
Ferhat Enrü, þrjátíu og tveggja ára gamall, vekfræðingur og þingmaður á tyrkneska þinginu.

Ég hef tekið að mér fanga í tyrknesku fangelsi, ætla að fylgjast með honum þar til hann verður frjáls maður. Hann heitir Ferhat Enrü, þrjátíu og tveggja ára gamall, vekfræðingur og þingmaður á tyrkneska þinginu, núna fangi. Hvers vegna? Ferhat vill rannsókn á loftárás þar sem tyrkneski flugherinn drap tæplega fjörutíu manna hóp, aðalega unglinga, í fjöllunum á landamærum Tyrklands og Íraks. Fórnarlömbin höfðu unnið sér það til sakar að flytja díselolíu og sígarettur á önsum frá einu þorpi til annars.
þau vissu ekki að þarna væru landamæri og þau því smyglarar! Og voru fyrir bragðið brennd til bana með eldvörpum herþotanna. Flest voru þau í fjölskyldu Ferhats, „fangans míns", systkini hans ung og frændsystkin. Ferhat vill að þetta verði skoðað og bauð sig fram til þings árið 2015 til að berjast fyrir því. Nú á hann yfir höfði sér þunga dóma enda eru það bara hryðjuverkamenn sem efast um gjörðir tyrkneska hersins!

Íslendingar hafa á einhvern hátt alltaf getað skilið Kúrda, vilja ekki láta dæma menn í fangelsi fyrir að tala móðurmálið og þjóð sem passar upp á jafnrétti kynjanna getur ekki verið alvond.

Og Kúrdarnir kunna að meta Íslendinga. Það sagði mér fangi sem ég hitti, nýsloppinn út, að allir Kúrdar í tyrkneskum fangelsum hefðu klappað fyrir í íslenska landsliðinu í fótbolta í sumar leið - svo undir hafi tekið í hvelfingunum. Reyndar held ég að allir undirokaðir hafi haldið með landanum, „og þarna skriðu þið undan jökulísnum og möluðuð breska heimsveldið", sagði svartur Suður-Afríkumaður mér í sumar og ætlaði aldrei að geta hætt að hlæja.

En síðan var það siglingamaðurinn. Hann hafði siglt á skútu við Tyrklandsstrendur, komið í fátækar strandbyggðir og sagði að Tyrkir væru besta fólk sem hann hefði hitt, og var þá ekki að tala um Kúrda.
Svona er lifið. Allar þjóðir eru góðar eða slæmar eftir því hvort fær að njóta sín, hið góða eða hið illa. Hvor þráðurinn er ræktaður.  
En það breytir því ekki að langvinnt ræktunarstarf býr til mismunandi siðmenningu.

Þótt Tyrkir kunni að vera hjartahlýir upp til hópa, verður það ekki sagt um stjórnvöldin.

Heimurinn á ekki að leyfa þeim að eyðileggja hið góða með Tyrkjum.